Skip to main content

Háskólaráðsfundur 3. september 2015

09/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 3. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Jakob Ó. Sigurðsson og Margréti Hallgrímsdóttur), Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. 

1. Setning fundar.

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. 

Rektor greindi frá því að Anna María Pétursdóttir hefur verið ráðin sem sviðsstjóri starfsmannasviðs Háskóla Íslands í stað Guðrúnar Jóhönnu Guðmundsdóttur sem hefur látið af störfum að eigin ósk. Sem starfsmannastjóri tekur Anna María jafnframt sæti í samráðsnefnd um kjaramál. 

2. Starfsreglur háskólaráðs, tillaga að uppfærslu, sbr. síðasta fund.

Fyrir fundinum lágu tillögur að breytingum á starfsreglum háskólaráðs, sbr. síðasta fund ráðsins 4. júní sl. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 

– Framlagðar tillögur að breytingum á starfsreglum háskólaráðs samþykktar einróma. 

3. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a) Rekstraryfirlit fyrstu sex mánuði ársins 2015. 

b) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016. Staða mála.

c) Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands 2016-2020. Staða mála.

Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir rekstraryfirliti Háskóla Íslands fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2015. Fram kom að rekstur skólans er í jafnvægi. Rektor gerði grein fyrir stöðu mála varðandi Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Íslands fyrir árið 2016. Málið var rætt.

4. Megináherslur Háskóla Íslands við stefnumótun um háskólakerfið, ásamt umsögn um drög samantektar mennta- og menningarmálaráðuneytis sem leggja á til grundvallar við stefnumótunina. 

Fyrir fundinum lágu drög að samantekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem leggja á til grundvallar stefnumótun um háskólakerfið ásamt drögum að umsögn og áhersluatriðum Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Fram komu nokkrar ábendingar varðandi framsetningu þeirra draga sem lögð voru fyrir fundinn. 

5. Starfsáætlun háskólaráðs 2015-2016.

Fyrir lá fundaáætlun háskólaráðs og drög að starfsáætlun ráðsins 2015-2016, sbr. starfsreglur háskólaráðs þar sem kveðið er á um að rektor skuli hafa frumkvæði að því að ráðið leggi fram til afgreiðslu starfsáætlun sína í upphafi hvers háskólaárs. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Hvatti rektor fulltrúa í háskólaráði til að koma á framfæri við sig ábendingum varðandi starfsáætlunina og verður málið áfram á dagskrá ráðsins á næsta fundi. 

6. Undirbúningur stefnu Háskóla Íslands 2016-2021.

Háskóli Íslands hefur frá árinu 2002 markað heildarstefnu fyrir starfsemi Háskólans til nokkurra ára í senn og er núgildandi stefna fyrir tímabilið 2011-2016. Rektor gerði grein fyrir skipulagi vinnu við mótun heildarstefnu fyrir Háskóla Íslands 2016-2021. Stefnumótunin fer fram á haustmisseri 2015 og er áætlað að ný stefna taki formlega gildi í ársbyrjun 2016. Lögð verður áhersla á að gefa öllu starfsfólki og nemendum Háskólans tækifæri til að koma að stefnumótuninni. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. 

– Samþykkt að unnið verði samkvæmt framlagðri áætlun að gerð nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. 

7. Skýrsla til rektors: Sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, ágúst 2015. Jafnframt lagðar fram athugasemdir sem borist hafa.

Inn á fundinn komu Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, Ástríður Stefánsdóttir, deildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar og Ásta Möller, verkefnisstjóri á skrifstofu rektors. Ásta gerði ítarlega grein fyrir skýrslu til rektors um sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, ásamt athugasemdum sem borist hafa við skýrsluna. Málið var rætt og svöruðu þær Ásta, Jóhanna og Ástríður spurningum ráðsmanna. 

– Samþykkt einróma að fela rektor að skipa starfshóp til að fara yfir þá valkosti sem tilgreindir eru í skýrslunni varðandi framtíð náms, kennslu og rannsókna í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands ásamt framkomnum athugasemdum. Í þessu felst að greina faglegar og fjárhagslegar forsendur, staðsetningu og þörf fyrir húsnæði, búnað og aðstöðu. Starfshópurinn hafi samráð við fræðasvið Háskólans og fulltrúa nemenda og hraði vinnunni eins og kostur er og geri grein fyrir stöðunni á næsta fundi háskólaráðs. Formaður hópsins verði Guðmundur R. Jónsson, prófessor og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. 

8. Svar háskólaráðs við bréfi umboðsmanns Alþingis, dags 23. júní sl.

Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 

– Háskólaráð samþykkir að fela fjármálanefnd og kennslumálanefnd, m.a. í samráði við Stúdentaráð Háskóla Íslands, að fara yfir forsendur skrásetningargjalds Háskóla Íslands samkvæmt reglum nr. 244/2014, um gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl. og innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds, út frá lögmæti gjaldsins og fjárhæð einstakra kostnaðarliða. Höfð verði hliðsjón af athugasemdum sem fram hafa komið af hálfu stúdenta. Vinnu þessari skal lokið fyrir árslok 2015.

9. Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. 

Inn á fundinn kom Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, og gerði ítarlega grein fyrir starfsemi og áherslumálum fræðasviðsins. Að lokum svaraði Ástráður spurningum fulltrúa í háskólaráði.

10. Bókfærð mál.

a) Háskólabrú Keilis.

– Samþykkt.

b) Breyting á reglum um Tækjakaupasjóð Háskóla Íslands (77. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009).

– Samþykkt.

11. Mál til fróðleiks.

a) Skipunarbréf rektors Háskóla Íslands, dags. 15. júní 2015.

b) Dagatal Háskóla Íslands 2015-2016.

c) Nefndir, stjórnir, ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að. 

d) Úthlutun styrkja úr Kennslumálasjóði vorið 2015.

e) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, júní 2015

f) Sameiginleg yfirlýsing Landspítala, Íslenskrar erfðagreiningar og Háskóla Íslands um eflingu vísindarannsókna, dags. 22. júlí 2015.

g) Afgreiðslutími valnefnda vegna nýráðninga, sbr. síðasta fund.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.00.