Skip to main content

Háskólaráðsfundur 3. október 2013

08/2013

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2013, fimmtudaginn 3. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Anna Rut Kristjánsdóttir, Börkur Hansen, Ebba Þóra Hvannberg, Guðrún Hallgrímsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, María Rut Kristinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þorfinnur Skúlason. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Kristinn Andersen boðaði forföll og varamaður hans einnig.

Áður en gengið var til dagskrár greindi Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs, frá því að rektor gæti ekki setið fundinn sökum veikinda og því myndi hann stýra fundi. Þá greindi Börkur frá því að engar athugasemdir hefðu borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Jafnframt spurði hann hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Þorfinnur Skúlason greindi frá því að hann hefði ráðið sig til starfa hjá fyrirtækinu Alvogen Bio Tech og myndi því víkja af fundi undir dagskrárlið 4. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast þau því samþykkt.

Börkur Hansen lagði til að undir öðrum málum yrði rætt um mögulega fulltrúa í föstum dómnefndum fræðasviða og var það samþykkt.

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Börkur Hansen gerði grein fyrir nokkrum málum og viðburðum frá síðasta fundi háskólaráðs og framundan.
a) Nýr matslisti Times Higher Education World University Rankings fyrir 2013-2014 yfir bestu háskóla heims var birtur 2. október sl. Háskóli Íslands er í sæti 251-275 af um 17.000 háskólum sem starfandi eru í heiminum. Þetta er þriðja árið í röð sem Háskóli Íslands er á listanum og hefur hann því treyst stöðu sína í mikilli alþjóðlegri samkeppni. Listinn byggist á ítarlegu mati á gæðum háskóla og er horft til fjölmargra þátta. Þar ber helst að nefna rannsóknastarf, kennslu, námsumhverfi og áhrif á alþjóðlegum vettvangi. Gæði rannsókna eru metin á grundvelli fjölda vísindagreina í virtum alþjóðlegum vísindatímaritum og áhrif þeirra eru mæld með fjölda tilvitnana. Sá þáttur sem ræður mestu um þessa sterku stöðu eru áhrif rannsókna háskólans á alþjóðlegum vettvangi. Sjá nánar dagskrárlið 9d.
b) Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Íslands fyrir árið 2014 var birt 2. október sl. og verður fjallað um það undir lið 2a á dagskrá fundarins.
c) Nýlega var gerður samningur við Reykjavíkurborg um afhendingu lóðar fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. lið 3.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
a) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 lagt fram á Alþingi 1. október 2013. Staða mála.

Fyrir fundinum lá minnisblað um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014. Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir málinu og áhrifum frumvarpsins á fjármál og rekstur Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði. Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð eftirfarandi bókun:

„Háskólaráð Háskóla Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af áframhaldandi samdrætti fjárveitinga til Háskóla Íslands sjötta árið í röð og niðurskurði á ráðgerðum framlögum til opinberra rannsóknasjóða. Einkar mikilvægt er að standa vörð um árangur háskólans og tryggja að hann geti áfram lagt sitt af mörkum til þekkingarsköpunar í nýjum og eldri atvinnugreinum í þágu íslensks samfélags. Á nýjum matslista Times Higher Education World University Rankings kemur fram að Háskóli Íslands hefur enn treyst stöðu sína á meðal hinna bestu í mikilli alþjóðlegri samkeppni, en nú er svo komið að erfitt mun verða að fylgja eftir slíkum árangri án aukinna fjárframlaga. Öflugur og traustur háskóli er grundvöllur framtíðar hagvaxtar á Íslandi eins og í öðrum löndum. Þeir háskólar sem bestum árangri ná eru í löndum þar sem fjárframlög hafa verið aukin markvisst til að styrkja samkeppnishæfni viðkomandi ríkja.“
– Háskólaráð felur rektor að fylgja málinu eftir og óska sem fyrst eftir fundi með fjárlaganefnd Alþingis til að gera grein fyrir sjónarmiðum háskólans og starfi hans í þágu samfélagsins.

3. Hluthafafundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Börkur Hansen greindi frá því að undir þessum lið færi fram hluthafafundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., skv. gr. 6.1 í samþykktum félagsins. Inn á fundinn komu Hilmar B. Janusson, formaður stjórnar f.h. stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins, og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs.

Hilmar setti fundinn og óskaði eftir því að varaforseti háskólaráðs tæki við fundarstjórn og að fundarritari háskólaráðs ritaði fundargerð. Var það samþykkt.

Þrjú mál voru á dagskrá hluthafafundarins:

1. Tillaga stjórnar að breytingu á grein 2.1 í samþykktum um hlutafé félagsins.
Fyrir fundinum lá tillaga stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um að breyting verði gerð á grein 2.1 í samþykktum félagsins. Með breytingunni verði stjórn félagsins veitt heimild til að auka hlutafé í allt að kr. 1.250.000.000 – eittþúsund tvöhundruð og fimmtíu milljónir króna. Heimildin yrði nýtt til að fjölga í hluthafahópnum.

Grein 2.1 í samþykktum félagsins er nú svohljóðandi:

„Hlutafé félagsins er kr. 1.050.000.000 kr. – eittþúsund og fimmtíu milljónir – og skiptist í einnar krónu hluti og fylgir eitt atkvæði hverjum hlut. Hluthafafundur einn getur samþykkt hækkun hlutafjár í félaginu og þarf til sama magn atkvæða og til breytinga á samþykktum þessum. Hluthafar skulu hafa forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Stjórn félagsins er þó heimilt að hækka hlutafé félagsins þannig að heildarhlutafé verði 1.200.000.000 kr. – eittþúsund og tvöhundruð milljónir – að hámarki með útgáfu nýrra hluta án samþykkis hluthafafundar. Hluthafar falla frá forgangsrétti sínum að þessari hækkun. Hluthafafundur einn getur ákveðið lækkun hlutafjár.“

Grein 2.1 verði svohljóðandi eftir breytingu:

„Hlutafé félagsins er kr. 1.170.000.000. – eittþúsund eitthundrað og sjötíu milljónir króna – og skiptist í einnar krónu hluti og fylgir eitt atkvæði hverjum hlut. Hluthafafundur einn getur samþykkt hækkun hlutafjár í félaginu og þarf til sama magn atkvæða og til breytinga á samþykktum þessum. Hluthafar skulu hafa forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Stjórn félagsins er þó heimilt að hækka hlutafé félagsins þannig að heildarhlutafé verði 1.250.000.000 – eittþúsund tvöhundruð og fimmtíu milljónir króna – að hámarki með útgáfu nýrra hluta án samþykkis hluthafafundar. Hluthafar falla frá forgangsrétti sínum að þessari hækkun. Hluthafafundur einn getur ákveðið lækkun hlutafjár.“

Tilefni tillögunnar er eftirfarandi: Háskóli Íslands hefur átt farsælt samstarf við Reykjavíkurborg um uppbyggingu vísindagarða á lóð háskólans. Nýlega var undirritað rammasamkomulag um Vísindagarðalóðina, en í því er tilgreint með hvaða hætti Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg hyggjast eiga samstarf um uppbyggingu svæðisins. Þessir tveir aðilar hafa til þessa starfað vel saman að uppbyggingu Vísindagarðalóðarinnar,  m.a. þegar hús Íslenskrar erfðagreiningar var reist og nú í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir Alvogen.

Þekkt er í nágrannalöndum að borgaryfirvöld komi með formlegum hætti að vísindagörðum og séu hluthafar. Markmiðið með aðkomu borgaryfirvalda er að hraða uppbyggingu, tengja hana atvinnuþróun á svæðinu og fjölga störfum í þekkingarstarfsemi. Háskóli Íslands hefur í aldarfjórðung átt farsælt samstarf við Reykjavíkurborg um Tæknigarð hf. þar sem háskólinn á 50% hlut og borgin 30%. Að mati stjórnar Vísindagarða mun það styrkja félagið að fá Reykjavíkurborg sem hluthafa. Hugmynd félagsins og borgarinnar er að hlutaféð greiðist með skuldajöfnun á fasteignagjaldi og lóðarleigugjaldi á Vísindagarðalóðinni frá 2008 til 2012, samtals að fjárhæð 55.000.000 – fimmtíu og fimm milljónir króna. Eignarhlutur Reykjavíkurborgar yrði 4,49%.

– Samþykkt einróma.

2. Tillaga stjórnar að breytingu á grein 4.1 í samþykktum um stjórn félagsins.
Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. leggur til að breyting verði gerð á grein 4.1 í samþykktum félagsins. Eftir breytingu verði fimm manna stjórn og tveir til vara.

Grein 4.1 í samþykktum félagsins er nú svohljóðandi:

„Stjórn félagsins skal skipuð þremur til sjö mönnum, og þremur til vara kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Varamenn skulu kjörnir í ákveðinni röð. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskriftir tveggja stjórnarmanna skuldbinda félagið. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.“

Grein 4.1 verði svohljóðandi eftir breytingu:

„Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Varamenn skulu kjörnir í ákveðinni röð. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskriftir tveggja stjórnarmanna skuldbinda félagið. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.“

– Samþykkt einróma.

3. Kosning nýrrar stjórnar.
Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. verði þannig skipuð til næsta hluthafafundar:

Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, formaður. Aðrir í stjórn: Ingjaldur Hannibalsson, prófessor, Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur, Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor, og Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar. Til vara: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins (1. varamaður), Sigurður M. Garðarsson, prófessor (2. varamaður).

– Samþykkt einróma.

Fleira var ekki gert. Hluthafafundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. slitið.

Þorfinnur Skúlason vék af fundi undir dagskrárlið 4.

4. Samningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. við Alvogen Bio Tech, sbr. fund  ráðsins 13. júní sl.
Fyrir fundinum lá samningur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. við Alvogen Bio Tech ásamt fylgiskjölum. Á fundi háskólaráðs 13. júní sl. samþykkti ráðið einróma að veita stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. heimild til að ganga frá samningi við Alvogen Bio Tech á þeim forsendum sem kynntar voru á fundinum, sbr. fundargerð. Samningurinn er í samræmi við forsendur sem kynntar voru á framangreindum háskólaráðsfundi. Hilmar B. Janusson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

5. Fasteignin Sturlugata 8, 101 Reykjavík, sbr. fund ráðsins 13. júní sl.
Guðmundur R. Jónsson greindi frá því að gengið hefði verið frá kaupum á fasteigninni Sturlugata 8, 101 Reykjavík í samræmi við ákvörðun háskólaráðs 13. júní sl. Málið var rætt.

6. Tillaga Félagsvísindasviðs f.h. Lagadeildar að reglum um inntöku nýnema og inntökupróf í Lagadeild ásamt tillögu að breytingu á reglum nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Eyvindur G. Gunnarsson, forseti Lagadeildar, og Björg Thorarensen, prófessor, og gerðu grein fyrir tillögunum. Málið var rætt og svöruðu Eyvindur og Björg spurningum ráðsmanna.

– Tillaga Félagsvísindasviðs að reglum um inntöku nýnema í Lagadeild og inntökupróf annars vegar og tillaga um breytingu á 6. gr. reglna nr. 319/2009 um inntökuskilyrði í grunnnám við Háskóla Íslands hins vegar samþykkt einróma.

Börkur Hansen bar upp svohljóðandi tillögu að bókun:

„Háskólaráð felur fjármálanefnd háskólaráðs að móta tillögu um hvernig Lagadeild skuli bætt fækkun á þreyttum einingum sem af inntökuprófinu leiðir. Tillagan komi til afgreiðslu á fundi ráðsins í byrjun nóvember nk.“

– Samþykkt einróma.

7. Frá jafnréttisnefnd háskólaráðs, sbr. fund ráðsins 10. janúar sl.
a) Drög að verklagsreglum um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni innan Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Hrefna Friðriksdóttir, formaður jafnréttisnefndar, og gerði grein fyrir drögum að verklagsreglum um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni innan Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Hrefna spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma að fela rektor að fara yfir drögin að verklagsreglum um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni innan Háskóla Íslands.

b) Tillaga um endurskoðun jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum tillaga um endurskoðun jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands. Hrefna Friðriksdóttir gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma að óska eftir umsögn fræðasviða, Félags prófessora við ríkisháskóla, Félags háskólakennara, Félags starfsfólks í stjórnsýslu, gæðanefndar, fjármálanefndar, kennslumálanefndar, vísindanefndar og Stúdentaráðs um tillögu jafnréttisnefndar um endurskoðun jafnréttisáætlunar Háskóla Íslands.

8. Bókfærð mál.
a) Fastar dómnefndir fræðasviða. Lagt er til að umboð nefndanna verði framlengt til næsta háskólaráðsfundar.
b) Tillaga Félagsvísindasviðs um breytingu á 84. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009: Í 2. mgr. í upptalningu um aðalgreinar til BA-prófs falli út:  Bókasafns- og upplýsingafræði.
c) Tillaga kennslusviðs um umsýslu- og afgreiðslugjald vegna umsókna nemenda með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Bætist við upptalningu gjalda í gjaldskrá Háskóla Íslands vegna þjónustu við nemendur o.fl.

9. Mál til fróðleiks.
a) Fréttabréf Félagsvísindasviðs, september 2013.
b) Niðurstöður ytra gæðamats Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum.
c) Svar við erindi um mat á umsóknum í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands, dags. 27. september 2013.
d) Fréttatilkynning frá Háskóla Íslands í tilefni af birtingu lista Times Higher Education World University Rankings fyrir 2013-2014, dags. 2. október sl.
e) Dagskrá Jafnréttisdaga Háskóla Íslands 7.-18. október 2013.

10. Önnur mál.
a) Skipun fulltrúa í dómnefndir vegna umsókna um framgang í starfi annars vegar og vegna nýráðningar hins vegar.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir stöðu mála varðandi skipun fulltrúa í fastar dómnefndir og reifaði nöfn mögulegra fulltrúa.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.