Skip to main content

Háskólaráðsfundur 3. maí 2012

05/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 3. maí var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl 13.

Fundinn sátu Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Hilmar B. Janusson og Þórður Sverrisson boðuðu forföll og varamaður þeirra einnig. Fundinn sátu einnig Jón Atli Benediktsson, Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs, stýrði fundinum í fjarveru rektors. Áður en gengið var til dagskrár bar Börkur upp tillögu um breytingu á útsendri dagskrá þannig að dagskrárliður nr. 9 yrði nr. 4 og númeraröð annarra dagskrárliða breyttist til samræmis.

- Samþykkt.

  1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

- Frestað.

  1. Fjármál Háskóla Íslands.
  1. Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2011, sbr. síðasta fund.

Fyrir fundinum lá ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2011. Inn á fundinn kom Gunnlaugur H. Jónsson, starfandi sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Gunnlaugur spurningum ráðsmanna.

- Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2011 samþykktur einróma.

  1. Tilboð Isavia í hlut Háskóla Íslands í Tern Systems hf., sbr. síðasta fund.

Fyrir fundinum lá samningur um kaup Isavia ohf. á hlutabréfum Háskóla Íslands í Tern Systems hf. og samstarfssamningur Háskóla Íslands og Isavia ohf. um stuðning Isavia við meistara- og doktorsnema við Háskóla Íslands. Þórður Kristinsson og Jón Atli Benediktsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom að áformað er að nýta hagnaðinn af sölu hlutabréfanna fyrir sérstakan sjóð sem stofnaður verður innan Háskóla Íslands til að efla nýsköpun.

- Báðir samningar samþykktir einróma.

  1. Niðurstöður háskólaþings 18. apríl 2012.

a)    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Endurskoðuð Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.

Fyrir fundinum lágu lokadrög að Viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, sem endurskoðuð hafa verið með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og ábendingum á háskólaþingi 18. apríl sl. og frá fulltrúum í háskólaráði. Jón Atli gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Svaraði Jón Atli spurningum og athugasemdum ráðsmanna. Sigríður Ólafsdóttir óskaði eftir því að lagðar verði fram á næsta fundi upplýsingar um fjölda starfsmanna Háskóla Íslands sem eru í doktorsnámi við skólann.

       - Endurskoðuð Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands samþykkt einróma.

b)    Fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði 2012-2014 kjörnir á háskólaþingi 18. apríl 2012.

 Fyrir fundinum lá yfirlit um kjör þriggja fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð fyrir tímabilið frá 1. júlí 2012 til 30. júní 2014, sem fram fór á háskólaþingi 18. apríl sl. Niðurstaða kosningarinnar var sem hér segir: Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs (varamaður hennar er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs), Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs (varamaður hans er Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs) og Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði- vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (varamaður hennar er Eyvindur G. Gunnarsson, dósent við Lagadeild Félagsvísindasviðs).

Málið var rætt og ákveðið að óska eftir því að rektor beiti sér fyrir því að reglur um kjör fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráðs verði endurskoðaðar, m.a. með tilliti til kjörs varamanna.

  1. Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs, mætir á fundinn.

Inn á fundinn kom Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs, og greindi ítarlega frá stöðu mála og helstu áherslum í starfi fræðasviðsins og deilda og stofnana þess. Málið var rætt og svaraði Ólafur spurningum ráðsmanna.    

  1. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum, sbr. síðasta fund.

Fyrir fundinum lágu drög að stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og lokaverkefnum (e. Open Access) sem unnin voru af starfshópi er skipaður var 14. nóvember sl. Inn á fundinn kom Eiríkur Rögnvaldsson prófesssor, formaður starfshópsins, og gerði grein fyrir málinu sem var rætt.

- Samþykkt einróma að óska eftir umsögn fræðaviða, vísindanefndar, gæðanefndar, kennslumálanefndar, Stúdentaráðs, Háskólaútgáfunnar og Landsbókasafns-háskólabókasafns um stefnudrögin. Umsagnarfrestur verði til 20. september nk.

6.    Nýsköpun, hagnýting hugverka og samstarf við atvinnulífið.

- Frestað.

7.    Nefndir, stjórnir og ráð.

a)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnets).

Fyrir fundinum lá tillaga um að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. næsta starfsár verði Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands og Ebba Þóra Hvannberg prófessor. Varamenn verði Sigurður Jónsson, forstöðumaður Smiðju og tölvumála Menntavísindasviðs, Anna Soffía Hauksdóttir prófessor og Fjóla Jónsdóttir dósent.

       - Samþykkt einróma.

b)    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf.

 Fyrir fundinum lá tillaga um að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis næsta starfsár verði Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu rektors. Varamenn verði Brynhildur Davíðsdóttir dósent og Hjálmtýr Hafsteinsson dósent. Málið var rætt.

       - Samþykkt einróma.

8.    Endurskoðun samnings Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss. Staða mála.

Fyrir fundinum lá minnisblað um endurskoðun samnings Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss og drög að endurskoðuðum samstarfssamningi stofnananna. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

- Samþykkt að fela rektor að ganga f.h. Háskóla Íslands frá nýjum samstarfssamningi við Landspítala - háskólasjúkrahús.

9.    Veiting akademískra nafnbóta, sbr. reglur nr. 212/2011 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna Landspítala - háskólasjúkrahúss og veitingu akademískrar nafnbótar.

Fyrir fundinum lá tillaga um veitingu akademískra nafnbóta til þriggja starfsmanna, einum frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og tveimur frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Börkur Hansen gerði grein fyrir málinu og var það rætt stuttlega.

- Háskólaráð staðfestir framlagðar tillögur um veitingu akademískra nafnbóta.

10.  Mál til fróðleiks.

a)    Úthlutun styrkja úr kennslumálasjóði vorið 2012.

b)    Úthlutun styrkja úr Watanabe-styrktarsjóðnum 16. apríl sl.

c)    Athugasemdir Háskóla Íslands við drög að tillögum starfshóps Vísinda- og tækninefndar Vísinda- og tækniráðs um einföldun á vísinda- og nýsköpunarkerfinu, dags. 26. mars 2012.

11.  Önnur mál

a)    Málefni rannsókna- og fræðasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni.

Guðrún Hallgrímsdóttir vakti máls á þörf á samræmingu í málefnum rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni og aðkomu sveitarfélaga að þeim.

b)    Nýbygging Stúdentagarða í Vatnsmýrinni.

 Guðrún Hallgrímsdóttir vakti máls á ónæði vegna framkvæmda við byggingu nýrra stúdentagarða í Vatnsmýrinni. Rætt var um að fara þess á leit við Félagsstofnun stúdenta, sem stendur að framkvæmdunum, að dregið verði úr hávaða vegna framkvæmdanna utan hefðbundins vinnutíma eins og kostur er.

c)    Málefni stundakennara.

Sigríður Ólafsdóttir óskaði eftir því að málefni stundakennara verði til umfjöllunar á næsta fundi.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.