Skip to main content

Háskólaráðsfundur 19. nóvember 2015

11/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, fimmtudaginn 19. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Maríu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Iðunn Garðarsdóttir, Jakob Ó. Sigurðsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Soffía Auður Birgisdóttir (varamaður fyrir Stefán Hrafn Jónsson) og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Þórður Kristinsson sem ritaði fundargerð.

1. Setning fundar

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Jakob Sigurðsson greindi frá því að hann væri vanhæfur til að fjalla um mál undir dagskrárlið 9a og myndi ekki taka þátt í afgreiðslu þess. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun. 

a) Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016. Staða mála.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016, en 2. umræða um frumvarpið hefur enn ekki farið fram. Jafnframt greindi rektor frá viðræðum sem hann hefur átt við stjórnvöld um áherslur Háskóla Íslands, m.a. í kjölfar ályktunar háskólaráðs á síðasta fundi. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Guðmundur, Jenný Bára og rektor spurningum ráðsmanna.

b) Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands 2016. Staða mála.

Jenný Bára gerði grein fyrir stöðu undirbúnings fjárhagsáætlunar háskólans fyrir árið 2016. Undirbúningurinn miðast við frumvarpið eins og það liggur fyrir. Drög áætlunar hafa verið send til mennta- og menningarmálaráðuneytis með fyrirvara um áhrif kjarasamninga, sbr. lið d. 

c) Tillaga að breytingum á reglum Sáttmálasjóðs, sbr. 79. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Guðmundur R. Jónsson gerði grein fyrir tillögu samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál að breytingum á reglum Sáttmálasjóðs. Breytingarnar lúta að því að aðjúnktar, nýdoktorar og aðrir þeir starfsmenn Háskóla Íslands sem fá störf sín metin samkvæmt matskerfi opinberra háskóla eigi kost á að sækja um utanfararstyrki úr sjóðnum líkt og akademískir starfsmenn. Jafnframt hefur texti  úthlutunarreglna sjóðsins verið uppfærður til að gera hann markvissari og skýrari. Lagt er til að breytingar þessar taki gildi frá og með 1. janúar 2016. Málið var rætt. 

Tillagan samþykkt einróma.

d) Kjarasamningar. Staða mála.

Guðmundur R. Jónsson, formaður samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál, gerði grein fyrir breytingum á miðlægum kjarasamningum Félags háskólakennara og Félags prófessora við ríkisháskóla við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs sem undirritaðir voru 16. nóvember sl. Samhliða voru undirritaðir viðaukar við stofnanasamning Háskóla Íslands við bæði félögin sem Guðmundur gerði grein fyrir. Atkvæðagreiðslur um miðlægu samningana standa yfir. Málið var rætt og verða stofnanasamningarnir á dagskrá næsta fundar ráðsins 3. desember nk. 

3. Frá fjármálanefnd háskólaráðs: Drög að tillögu um stjórnunar- og aðstöðugjald. 

Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir drögum að tillögu um stjórnunar- og aðstöðugjald. Málið var rætt. 

– Samþykkt einróma að vísa tillögunni til umfjöllunar í vísindanefnd háskólaráðs sem fari yfir drögin og veiti síðan umsögn. Jafnframt verði aflað umsagna fræðasviða, deilda og rannsóknastofnana háskólans fyrir áramót. Tillaga um stjórnunar- og aðstöðugjald verði á dagskrá ráðsins á fundi þess 21. janúar nk.

4. Niðurstöður 15. háskólaþings Háskóla Íslands 13. nóvember 2015. 

Rektor gerði grein fyrir málinu.

– Niðurstöður 15. háskólaþings Háskóla Íslands staðfestar. 

5. Könnun á viðhorfum núverandi og fyrrverandi nemenda. 

Inn á fundinn kom Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir niðurstöðum árlegrar könnuna á viðhorfum núverandi og fyrrverandi nemenda Háskóla Íslands til gæða náms og kennslu. Um er að ræða fjórðu könnunina af þessu tagi, en hún var fyrst gerð 2011. Einnig gerði hún grein fyrir könnun á viðhorfum nemenda til stoðþjónustu, sem gerð er þriðja hvert ár. Kannanirnar nýtast með margvíslegum hætti sem innlegg í gæðastarf háskólans. Málið var rætt ítarlega og svaraði Guðbjörg Andrea spurningum ráðsmanna. 

6. Málefni Herdísarvíkur. 

Fyrir fundinum lá minnisblað þar sem fram kemur að Biskupsstofa/Kirkjuráð hefur hrint af stað vinnu við gerð deiliskipulags á þeim jörðum sem tilheyra Strandarkirkju í Selvogi. Eigendum annarra jarða en Strandarkirkju hefur verið boðið að vera með í deiliskipulagsvinnunni. 

– Samþykkt einróma að Háskóli Íslands þiggi boð um að Herdísarvík verði með við gerð deiliskipulags. Ekki er gert ráð fyrir að af því hljótist mikill kostnaður.

7. Sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Staða máls.

Guðmundur R. Jónsson, formaður starfshóps greindi frá framvindu vinnu starfshópsins um valkosti varðandi framtíð náms, kennslu og rannsókna í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Stefnt er að því að hópurinn skil greinargerð í janúar nk.

8. Málefni Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ).

Inn á fundinn kom Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands og gerði grein fyrir skipulagi, málefnum og starfi SHÍ.

9. Bókfærð mál.

a) Stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta.

– Samþykkt að stjórn sjóðsins verði skipuð Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs, Jennýju Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs og Jakobi Ó. Sigurðssyni, efnafræðingi og MBA. Skipunartími er til 30. september 2019.

b) Skipulagsnefnd Háskóla Íslands.

– Samþykkt að skipulagsnefnd Háskóla Íslands verði skipuð Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs, Helgu Bragadóttur arkitekt, Hrund Ólöfu Andradóttur, dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild og Ingu Jónu Þórðardóttur viðskiptafræðingi. Skipunartími er til 30. júní 2016.

c) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Íslands.

– Samþykkt að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands verði  Björg Thorarensen og Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessorar við Lagadeild. Varamaður þeirra verði Pétur Dam Leifsson, dósent við Lagadeild. Skipunartími er til tveggja ára.

d) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs um tvær nýjar námsleiðir (MS og PhD) í jarðvísindum.

– Samþykkt. 

e) Tillaga frá Félagsvísindasviði um nýja námsleið til meistaraprófs á sviði verkefnastjórnunar í Viðskiptafræðideild. (breyting á 94. grein reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009).

– Samþykkt. 

f) Tillaga Hugvísindasviðs um tvær nýjar námsleiðir, annars vegar meistaranám í annarsmáls fræðum og hins vegar doktorsnám í menningarfræði. 

– Samþykkt. 

g) Tillögur Hugverkanefndar Háskóla Íslands og Landspítala að breytingum á erindisbréfi og starfsreglum Hugverkanefndar, sbr. 7. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

– Samþykkt. 

h) Tillaga kennslusviðs að breytingu á reglum um sértæk úrræði nr. 481/2010 (tilfærsla dagsetninga).

– Samþykkt. 

10. Mál til fróðleiks.

a) Skýrsla Háskóla Íslands til mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands haustið 2015. 

b) Bókun fundar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 7. október sl. vegna skýrslu Háskóla Íslands „Sóknarfæri í námi í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands“.

c) Yfirlýsing um markmið í loftslagsmálum. 

d) Rafrænt Fréttabréf Félagsvísindasviðs, október 2015.

e) Stjórn Ingjaldssjóðs.

Stjórnin er skipuð Karólínu Eiríksdóttur tónskáldi, Runólfi Smára Steinþórssyni prófessor, sem er formaður og Þórði Sverrissyni viðskiptafræðingi. Skipunartími stjórnar er til þriggja ára. 

f) Starfshópur rektors um endurskoðun málstefnu Háskóla Íslands.

Starfshópurinn er skipaður Eiríki Rögnvaldssyni prófessor, sem er formaður, Hafliða Pétri Gíslasyni prófessor, Jóhönnu Gunnlaugsdóttur prófessor, Jórunni Erlu Eyfjörð prófessor, Kristjáni Jóhanni Jónssyni dósent og Ragnheiði Kristjánsdóttur dósent. Með hópnum starfar Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskóla Íslands.

g) Nýr forseti Hugvísindasviðs frá 1. janúar 2016. 

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.00.