Skip to main content

Háskólaráðsfundur 10. apríl 2015

06/2015

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2015, föstudaginn 10. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Kjartan Þór Eiríksson (varamaður fyrir Jakob Ó. Sigurðsson), Margrét Hallgrímsdóttir, Orri Hauksson, Soffía Auður Birgisdóttir (varamaður fyrir Stefán Hrafn Jónsson) og Tómas Þorvaldsson. Áslaug Friðriksdóttir, Iðunn Garðarsdóttir og Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir boðuðu forföll. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal og Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. 

Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerðir fundanna 5. mars og 10. mars sl. og hefðu þær því skoðast samþykktar og verið birtar á háskólavefnum. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá fundarins. Ebba Þóra Hvannberg sagðist vera vanhæf til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 10a og Tómas Þorvaldsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu liðar 6. Engar athugasemdir voru gerðar við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Rektor greindi frá því að Elín Blöndal myndi gera grein fyrir dagskrárlið 11b. 

1. Mál á döfinni í Háskóla Íslands.

a) Rektorskjör við Háskóla Íslands fer fram mánudaginn 13. apríl nk. Fái enginn frambjóðandi meira en 50% atkvæða verður kosið að nýju á milli tveggja efstu frambjóðenda mánudaginn 20. apríl nk. 

b) Fyrsta skóflustunga að nýbyggingu húss Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur var tekin 8. mars sl. að viðstaddri frú Vigdísi Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands, og Illuga Gunnarssyni, mennta-  og menningarmálaráðherra. Áætluð verklok eru í október 2016.

c) Úthlutað var styrkjum úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar til doktorsnema í lyfjafræði 11. mars sl.

d) Árlegt Hugvísindaþing var haldið 13.-14. mars sl. 

e) Peter Holbrook, prófessor við Tannlæknadeild, hlaut nýverið verðlaun International Association for Dental Research (IADR) fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði lyfjaþróunar fyrir lyfjameðferð í munnholi.

f) Hinn 18. mars sl. var haldinn fundur rektors með samhæfingaraðilum þverfræðilegra samstarfsverkefna innan Háskóla Íslands.

g) Að morgni 20. mars sl. kom fjöldi fólks saman fyrir framan Aðalbyggingu Háskóla Íslands til að fylgjast með sólmyrkva. Boðið var upp á fræðsludagskrá í umsjón Sævars Helga Bragasonar, verkefnisstjóra hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði, og Gunnlaugs Björnssonar, vísindamanns við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

h) Rektor tók þátt í opinberri heimsókn mennta- og menningarmálaráðherra til Kína dagana 23.-26. mars sl. Í heimsókninni hélt rektor erindi í Tsinghua háskóla undir heitinu „Digital technology and intercontinental collaboration“. Gert er ráð fyrir heimsókn rektors Tsinghua til Háskóla Íslands í júní nk.

i) Ársfundur Rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn á Húsavík 9. apríl sl. að viðstöddum fjölda gesta víðs vegar af landinu. 

j) Fimmtudaginn 9. apríl sl. var afhjúpaður á Háskólatorgi að viðstaddri Ragnheiði Elínu Árnadóttur, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, nýr rafknúinn kappakstursbíll sem verkfræðinemar í liðinu Team Spark við Háskóla Íslands hafa hannað. Mun Team Spark fara með bílinn á alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppnina Formula Student sem haldin verður á Silverstone-kappakstursbrautinni í Englandi í júlí nk. 

2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a) Tölur úr starfsemi háskólans.

– Frestað til næsta fundar.

3. Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs.

Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli háskólaráð taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögur til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð, auk Ebbu Þóru Hvannberg, varaforseta háskólaráðs, þeim Iðunni Garðarsdóttur, Jakobi Ó. Sigurðssyni og Orra Haukssyni. Nefndin mun skila greinargerð sinni á fundi háskólaráðs í júní nk.

– Samþykkt einróma. 

4. Málefni stundakennara við Háskóla Íslands. 

Inn á fundinn komu fulltrúar í nefnd um málefni stundakennara við Háskóla Íslands, Elín Blöndal, lögfræðingur háskólans, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Gerðu þau grein fyrir tillögum sínum um málefni stundakennara. Málið var rætt og svöruðu nefndarmenn spurningum ráðsmanna. 

– Framlögð tillaga um launahækkun vegna stundakennslu samþykkt einróma. Jafnframt var nefndinni falið að ljúka gerð tillagna um réttindi og skyldur stundakennara. 

5. Vinnuumhverfi Háskóla Íslands – niðurstöður starfsumhverfiskönnunar Háskóla Íslands.

Inn á fundinn komu Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og Vala Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Félagsvísindastofnun, og kynntu, ásamt Guðrúnu Jóhönnu Guðmundsdóttur niðurstöður starfsumhverfiskönnunar Háskóla Íslands sem gerð var í árslok 2014. Málið var rætt og svöruðu þær Guðrún Jóhanna, Guðbjörg Andrea og Vala spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

Tómas Þorvaldsson vék af fundi. 

6. Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf.

a) Ákvæði samnings milli CCP hf. og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.

Inn á fundinn komu Hilmar B. Janusson, formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., og Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri félagsins. Fyrir fundinum lá minnisblað til háskólaráðs um ákvæði samnings á milli CCP hf. og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Gerðu Hilmar og Eiríkur grein fyrir málinu og svöruðu spurningum ráðsmanna. 

– Samþykkt einróma að fela stjórn og framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. að ganga til samninga við CCP hf. skv. framlögðum skilmálum. 

7. Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. 

Hilmar B. Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, gerði grein fyrir starfsemi og áherslumálum fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Hilmar spurningum ráðsmanna.

8. Svar við bréfi Umboðsmanns Alþingis, dags. 19. mars sl., vegna afgreiðslu háskólaráðs á erindi Einars Steingrímssonar.

– Málið var afgreitt á aukafundi háskólaráðs 8. apríl sl.

9. Erindi Egils B. Hreinssonar, prófessors, til háskólaráðs, dags. 5. mars sl. 

Elín Blöndal gerði grein fyrir málinu og var það rætt. 

– Elínu Blöndal, lögfræðingi Háskóla Íslands, falið að koma málinu til annars lögfræðings sem undirbúi drög að niðurstöðu háskólaráðs.

10. Bókfærð mál.

a) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet).

– Samþykkt að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands verði þau Þórður Kristinsson, sviðstjóri kennslusviðs, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands, og Ebba Þóra Hvannberg prófessor. Varamenn verði Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor og Fjóla Jónsdóttir prófessor. Skipunartími þeirra er til eins árs. 

– Samþykkt. Ebba Þóra Hvannberg tók ekki þátt í afgreiðslu málsins. 

b) Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf.

– Samþykkt að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Keilis ehf. verði Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Varamenn verði Brynhildur Davíðsdóttir prófessor og Hjálmtýr Hafsteinsson dósent. Skipunartími þeirra er til eins árs.

c) Tillaga Verkfræði- og náttúruvísindasviðs f.h. Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar að breytingu á d-lið 1. mgr. 123. gr. reglna nr. 569/2009.

– Samþykkt. 

11. Mál til fróðleiks.

a) Störf námsstjórnar um menntun framhaldsskólakennara 2012-2015.

b) Kvörtun Jóhönnu Thelmu Einarsdóttur, dósents o.fl., dags. 25. janúar sl. vegna ákvörðunar forseta Menntavísindasviðs varðandi framgangsmál.

Elín Blöndal gerði grein fyrir málinu. 

c) Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 23. mars sl. vegna kröfu Friðriks Eysteinssonar um að fá aðgang að skýrslu Lífs og sálar ehf.

d) Hugskeyti, fréttabréf Hugvísindasviðs.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.00.