Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 27. nóvember 2008

15/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 27. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Friðrik H. Jónsson (varamaður Gunnlaugs Björnssonar), Gunnar Einarsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir (varamaður Önnu Agnarsdóttur), Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár fór rektor stuttlega yfir nokkra viðburði í starfi Háskóla Íslands frá síðasta fundi háskólaráðs. Í fyrsta lagi var 7. nóvember sl. haldin glæsileg og fjölsótt athöfn í Hátíðasal í tilefni af því að dr. Bernhard Örn Pálsson hlaut stærsta rannsóknastyrk sem komið hefur til Háskólans, að upphæð 430 m.kr. frá European Research Council. Styrkurinn verður nýttur til að koma á fót rannsóknasetri í kerfislíffræði við Háskólann, sem Bernhard mun veita forstöðu. Í öðru lagi var 14. nóvember sl. haldin vegleg athöfn í Hátíðasal í tilefni af því að 70 ár eru liðin frá upphafi kennslu í viðskiptafræði og hagfræði á Íslandi. Við þetta tækifæri var lýst kjöri þriggja heiðursdoktora. Í þriðja lagi hlaut Ástráður Eysteinsson, prófessor og forseti hugvísindasviðs, nýlega alþjóðleg verðlaun Modernist Studies Association, sem eru ein virtustu samtök á sviði bókmenntafræði á Vesturlöndum. Verðlaunin hlaut Ástráður fyrir verkið Modernism sem kom út á síðasta ári og var valið úr 60 bókmenntafræðiverkum sem tilnefnd voru. Í fjórða lagi hélt Marci Powell, sérfræðingur í fjarkennslumálum og heiðursforseti Distant Learning Association í Bandaríkjunum, vel sótta málstofu í síðustu viku um stefnur og strauma í fjarkennslumálum. Í fimmta lagi var 16. nóvember sl., á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, haldið upp á dag íslenskrar tungu við Háskóla Íslands og af sama tilefni var einnig haldið málræktarþing Íslenskrar málnefndar þar sem kynntar voru tillögur að íslenskri málstefnu. Í sjötta lagi greindi rektor frá ánægjulegum og gagnlegum fundi sem hún hélt með Stúdentaráði þar sem skipst var á upplýsingum og skoðunum um málefni Háskólans. Í sjöunda lagi greindi rektor frá því að ákveðið hefði verið að framlengja umsóknarfrest í grunnnám og framhaldsnám á vormisseri 2009 til 15. desember nk. Fresturinn er mun rýmri en áður hefur verið og er það liður í áætlun Háskólans um viðbrögð við breyttum þjóðfélagsaðstæðum (sbr. lið 3.1). Í áttunda lagi voru árleg hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands veitt 21. nóvember sl. fyrir bestu tillögur að verkefnum sem geta orðið að gagni í íslensku samfélagi. Við sama tækifæri var haldið upp á 20 ára afmæli Tæknigarðs sem hefur á þessum tíma fóstrað mikinn fjölda sprotafyrirtækja sem mörg hver hafa orðið að öflugum og framsæknum þekkingarfyrirtækjum. Í níunda lagi sagði rektor frá því að fyrr í dag var undirritaður samningur milli Háskóla Íslands og Símans um margvíslegt samstarf, s.s. um rannsóknir, endurmenntun og vinnu nemenda með námi, auk þess sem Síminn mun styrkja 6 afburða stúdenta við Háskóla Íslands í gegnum Afreks- og hvatningarsjóð skólans.

Einnig greindi rektor frá nokkrum viðburðum í starfi Háskólans framundan. Á fullveldisdaginn 1. desember nk. verður dagskrá í Hátíðasal þar sem m.a. verður kynnt herferð Háskóla Íslands í tengslum við aldarafmæli skólans árið 2011 undir kjörorðunum „Fjársjóður framtíðar“. Greint verður frá starfi afmælisnefndar, átaksverkefnum fræðasviða Háskólans og sérstakri aðgerðaáætlun til að auka árangur vísindamanna skólans við úthlutanir úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum vegna rannsókna. Stúdentar munu að venju efna til blysfarar að leiði Jóns Sigurðssonar, hitta stúdenta annarra íslenskra háskóla á Austurvelli og að því búnu halda hátíð á Háskólatorgi. Þá er hafinn undirbúningur að námskynningu Háskóla Íslands sem haldin verður á Háskólatorgi 22. febrúar nk. Loks greindi rektor frá því að innleiðing skipulags nýrra fræðasviða Háskólans gengur vel og hafa m.a. verið ráðnir rekstrarstjórar að öllum fimm fræðasviðum. Stefnt er að því að ljúka innleiðingunni um komandi áramót.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1. Mál á dagskrá

1.1 Drög að jafnréttisáætlun (sameinaðs) Háskóla Íslands 2008-2012, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir fyrirliggjandi drögum að jafnréttisáætlun sameinaðs Háskóla Íslands 2008-2012. Málið var rætt ítarlega og komu fram nokkrar ábendingar og tillögur um breytingar.
- Háskólaráð beinir því til jafnréttisnefndar að hún gangi frá jafnréttisáætlun 2008-2012 til afgreiðslu með hliðsjón af framkomnum ábendingum og breytingartillögum ráðsins.

1.2 Hlutverk, starfshættir og verkefni háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor og Þórður gerðu grein fyrir framlögðu minnisblaði um hlutverk, starfshætti og verkefni háskólaráðs. Greindi rektor m.a. frá því að gert er ráð fyrir að framvegis verði fundir háskólaráðs að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði. Einnig skýrði rektor frá því að málefni einstakra nemenda verði framvegis almennt afgreidd á vettvangi fræðasviðanna. Þá verði tillögum um breytingar á reglum og um nýjar reglur fyrir Háskólann safnað saman og þær afgreiddar tvisvar á ári. Málið var rætt ítarlega og komu fram fjölbreytt sjónarmið um áherslur og starfshætti ráðsins. Að umræðu lokinni bar rektor upp tvær tillögur. Í fyrsta lagi verði skipuð þriggja manna millifundanefnd háskólaráðs sem hafi það hlutverk að undirbúa afgreiðslu ráðsins á reglubreytingum og taka þátt í undirbúningi heildarendurskoðunar reglna Háskóla Íslands í samvinnu við sviðsstjóra kennslusviðs og lögfræðing Háskólans (sbr. lið 2.1). Nefndin verði skipuð fulltrúunum Önnu Agnarsdóttur prófessor, Sigríði Ólafsdóttur lífefnafræðingi og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur laganema. Í öðru lagi lagði rektor til að Gunnlaugur Björnsson verði kjörinn varaforseti háskólaráðs.
- Tillögur rektors samþykktar einróma.

1.3 Fjárhagsstaða Háskólans 2008, yfirlit eftir níu mánuði.
Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um fjárhagsstöðu Háskóla Íslands eftir fyrstu níu mánuði ársins 2008. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Sigurður og rektor framkomnum spurningum og athugasemdum.

1.4 Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2009. Staða mála.
Rektor skýrði frá því að breytingar á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2009 væru ekki komnar fram á Alþingi. Lagði rektor áherslu á að við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi sé afar mikilvægt að stjórnvöld hlúi að því dýrmæta uppbyggingarstarfi sem fram fer innan Háskóla Íslands og myndar traustan grunn fyrir nýsköpun og framþróun þekkingarþjóðfélags á Íslandi. Háskólinn hefur skilað afar góðu starfi á síðustu árum og hafa öll markmið stefnu skólans náð fram að ganga og gott betur í mörgum tilvikum miðað við tímaáætlun. Skýr vitnisburður um gott gengi skólans sé stór rannsóknarstyrkur sem Bernhardi Erni Pálssyni hlotnaðist nýlega og áhugi erlendra styrktarsjóða að koma að öðru rannsóknastarfi skólans með myndarlegum hætti. Slíkur árangur náist ekki nema stofnunin standi sterk sem rannsóknaháskóli. Til að þetta mikilvæga uppbyggingarstarf raskist ekki skipti sköpum að rannsóknafé Háskólans verði ekki skert. Umræður fóru fram um hvernig Háskólinn geti komið til móts við efnahagsástandið, m.a. með því að efla samstarf við fyrirtæki í landinu, ekki síst ung fyrirtæki sem eiga erfitt uppdráttar.

1.5 Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands. Nýtt setur á Suðurlandi.
Inn á fundinn kom Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir skipulagi og starfsemi fræðasetranna á landsbyggðinni almennt og nýju rannsóknasetri um landnýtingu á Suðurlandi sérstaklega. Málið var rætt og svaraði Rögnvaldur framkomnum spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

1.6 Málefni Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Heildarendurskoðun reglna Háskóla Íslands: Fyrstu drög kafla I-III.
Fyrir fundinum lágu fyrstu drög að köflum I-III í endurskoðuðum reglum Háskóla Íslands. Þórður Kristinsson gerði stuttlega grein fyrir málinu.

2.2 Fyrirkomulag brautskráninga í breyttu skipulagi Háskóla Íslands.
- Frestað.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Aðgerðir og tillögur Háskóla Íslands til að bregðast við breyttum þjóðfélagsaðstæðum.

3.2 Drög að áætlun menntamálaráðuneytis til þriggja ára um ytra gæðamat á kennslu og rannsóknum, sbr. bréf ráðuneytis, dags. 3. nóvember sl., ásamt athugasemdum Háskólans.

3.3 Umsókn Háskóla Íslands, dags. 19. nóvember sl. um heimild til þess að bjóða doktorsnám á fræðasviðum heilbrigðisvísinda og félagsvísinda, sbr. reglur um doktorsnám í háskólum samkvæmt 7. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

3.4 Samningur menntamálaráðuneytis, Háskóla Íslands og Keilis vegna frumgreinanáms við Háskólabrú Keilis, dags. 12. nóvember 2008.

3.5 Erindisbréf forseta fræðasviða og erindisbréf deildarforseta.

3.6 Fjársjóður framtíðar – Auglýsing um samkomu stúdenta og starfsfólks 1. desember nk.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.