Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 22. september 2008

11/2008

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, mánudaginn 22. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 10.30.

Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir (varamaður Birnu Arnbjörnsdóttur), Ásdís Egilsdóttir (varamaður Rúnars Vilhjálmssonar), Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi frá Menntavísindasviði), Reynir Jóhannesson (varamaður Ernu Kristínar Blöndal), Valgerður Bjarnadóttir, Þórdís Kristmundsdóttir, Þórður Sverrisson og Þórir Hrafn Gunnarsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár reifaði rektor stuttlega nokkra atburði í starfi Háskóla Íslands frá síðasta fundi háskólaráðs. Hinn 9. september sl. var haldinn fjölsóttur fundur í Hátíðasal þar sem tilkynnt var um val á fimm nýjum forsetum fræðasviða Háskóla Íslands. Þeir eru Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, forseti Hugvísindasviðs, Jón Torfi Jónasson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands, forseti Menntavísindasviðs, Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í jarðvísindum við háskólann í Bristol á Englandi, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, forseti Félagsvísindasviðs og Sigurður Guðmundsson landlæknir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs. Miðvikudaginn 17. september sl. hélt Robert Kaplan, prófessor við Harvard háskóla og höfundur svonefnds samhæfðs árangursmats (Balanced Scorecard), fjölsóttan fyrirlestur í Háskólabíói undir heitinu „The Balanced Scorecard: The Central Component in a New Strategy Execution Management System". Fyrirlesturinn var haldinn í boði Capacent og Háskóla Íslands. Fimmtudaginn 18. september sl. var svo haldin í Hátíðasal athöfn þar sem stofnskrá nýs styrktarsjóðs sem kenndur er við Watanabe var undirrituð af stofnandanum Toshizo Watanabe og rektor Háskóla Íslands. Geir H. Haarde forsætisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra voru viðstödd athöfnina, ásamt fjölda gesta. Stofnframlag Watanabe til sjóðsins er þrjár milljónir Bandaríkjadala, um 280 milljónir íslenskra króna. Tilgangur Styrktarsjóðs Watanabe við Háskóla Íslands er að veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði nemendum í grunnnámi og framhaldsnámi, auk þess að stuðla að samvinnu vísindamanna og gagnkvæmum skiptum. Loks greindi rektor frá heimsókn sinni til háskólans í Aarhus í Danmörku til að taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af 80 ára afmæli skólans. Háskólinn í Aarhus er nýlega kominn á lista yfir 100 bestu háskóla í heimi og hefur hann á síðustu árum gengið gegnum hliðstæðar breytingar og Háskóli Íslands, þ.e. endurskoðun skipulags og stjórnkerfis síns og sameiningu við kennaraháskóla.

Fundargerðir tveggja síðustu funda lagðar fram og samþykktar.

1. Mál á dagskrá

1.1 Skilagrein kennslumálanefndar háskólaráðs.
Inn á fundinn kom Sigurður Júlíus Grétarsson, fráfarandi formaður kennslumálanefndar háskólaráðs og gerði grein fyrir framlagðri verklokaskýrslu nefndarinnar. Málið var rætt ítarlega og svaraði Sigurður Júlíus spurningum ráðsmanna. Lýstu fulltrúar í háskólaráði ánægju sinni með störf fráfarandi kennslumálanefndar.
- Háskólaráð beinir því til hinna nýju fræðasviða að í tengslum við yfirstandandi endurskipulagningu á stjórnsýslu og stoðþjónustu þeirra verði fylgt tillögum kennslumálanefndar sem samþykktar voru á háskólafundi 17. apríl sl., m.a. um kennslunefndir, og fram koma í verklokaskýrslu nefndarinnar. Háskólaráði verði gerð grein fyrir því fyrir lok febrúar 2009 hvernig til hefur tekist.

1.2 Ytri úttekt á Norræna eldfjallasetrinu (NORDVULK) í Jarðvísindastofnun. Lokaskýrsla alþjóðlegs sérfræðingahóps, 2008.
Inn á fundinn kom Magnús Tumi Guðmundsson prófessor, forseti jarðvísindadeildar og forstöðumaður Jarðvísindastofnunar og gerði grein fyrir framlagðri lokaskýrslu sérfræðingahóps vegna ytri úttektar á Norræna eldfjallasetrinu (NORDVULK) í Jarðvísindastofnun. Í máli Magnúsar Tuma kom m.a. fram að niðurstöður úttektarinnar séu mjög jákvæðar og að úttektarnefndin hafi farið lofsamlegum orðum um starfsemi Norræna eldfjallasetursins. Málið var rætt og svaraði Magnús Tumi spurningum ráðsmanna.

1.3 Tillögur um mælikvarða á skorkorti Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Snjólfur Ólafsson, prófessor við viðskiptafræðideild og formaður verkefnisstjórnar um framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og gerði grein fyrir framlögðum tillögum um mælikvarða á skorkorti Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega. Að umræðu lokinni þakkaði rektor Snjólfi og samstarfsfólki hans í verkefnisstjórninni, Margréti S. Björnsdóttur, forstöðumanni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Snorra Þór Sigurðssyni prófessor fyrir vel unnin störf.
- Framlagðar tillögur um mælikvarða á skorkorti Háskóla Íslands, þ.m.t. fjöldi birtinga í virtum ritrýndum íslenskum tímaritum, samþykktar einróma. Jafnframt er rektor og forsetum fræðasviðanna fimm falið að fara yfir skorkortið og setja fram innan hálfs árs tillögur um endurbætur eftir því sem ástæða er til.

1.4 Störf háskólakennara utan Háskólans. Tillaga starfshóps að afgreiðslu, sbr. fund ráðsins 10. apríl sl.
Inn á fundinn kom Rúnar Vilhjálmsson prófessor og gerði grein fyrir framlögðum drögum að reglum og viðmiðum um önnur störf og skuldbindingar starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Rúnar spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
- Samþykkt einróma að fela stjórnsýslu og lögfræðingi Háskólans að ganga frá reglunum og að þær verði lagðar fram til afgreiðslu á fyrsta fundi nýs háskólaráðs í október nk.

1.5 Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. síðasta fund.
Undir þessum lið var haldinn ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.

Mál á dagskrá

1. Hagur félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.
Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., greindi f.h. stjórnar frá starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Fyrir fundinum lá skýrsla stjórnar félagsins fyrir starfsárið 2007. Málið var rætt og svaraði Eiríkur framkomnum spurningum og athugasemdum.

2. Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda.
Eiríkur Hilmarsson gerði f.h. stjórnar grein fyrir framlögðum ársreikningi ásamt athugasemdum óháðs endurskoðanda og var hann samþykktur einróma.

3. Kjör stjórnar félagsins og endurskoðanda.
Stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. var endurkjörin með þeirri breytingu að Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur og ráðgjafi, tekur sæti í stjórn í stað Ingibjargar Pálmadóttur fjárfestis sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Aðrir í stjórn eru Hilmar Janusson, framkvæmdastjóri rannsóknar- og þróunarsviðs Össurar hf., sem er formaður, Frosti Sigurjónsson, forstjóri Dohop, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor og forseti jarðvísindadeildar Háskóla Íslands. Samþykkt var tillaga um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga félagsins.

4. Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.
Ekki var um að ræða hagnað, tap, arð eða framlög í varasjóð á árinu 2007.

5. Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna.
Eiríkur Hilmarsson greindi frá þeirri tillögu formanns stjórnar að viðhalda fyrri venju og greiða ekki laun til stjórnarmanna á starfsárinu 2007. Samþykkt einróma.

6. Önnur mál löglega upp borin.
Eiríkur Hilmarsson gerði grein fyrir tillögu stjórnar félagsins um að háskólaráð veiti heimild til að hækka hlutafé um allt að 150 milljónir króna og að háskólaráð samþykki jafnframt að Háskóli Íslands auki hlutafé sitt í félaginu um sömu upphæð.
- Samþykkt einróma.

Engin önnur mál voru upp borin.

Ársfundi Vísindagarða ehf. slitið.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Tillaga frá lagadeild um veitingu heiðursdoktorsnafnbóta.
Fyrir fundinum lá tillaga lagadeildar um veitingu tveggja heiðursdoktorsnafnbóta og gerði rektor grein fyrir henni.
- Samþykkt einróma.

2.2 Tillaga viðskiptafræðideildar um doktorsnám í viðskiptafræði samhliða starfi (DBA nám), sbr. fund ráðsins 29. maí sl.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Fram kom m.a. að í tengslum við umsögn háskólafundar um frumvarp til laga um opinbera háskóla 17. apríl sl. hafi verið ákveðið að efna til háskólaþings 28. nóvember nk. til að fjalla um framtíðarfjármögnun Háskóla Íslands, þ.m.t. hugsanlega heimild til innheimtu skólagjalda. Fulltrúar stúdenta óskuðu eftir að eftirfarandi yrði bókað: „Stúdentar lýsa andstöðu við að heimilað verði að bjóða upp á doktorsnám gegn gjaldi við Háskóla Íslands og telja að ekki sé tímabært að taka afstöðu til tillögu viðskiptafræðideildar fyrr en niðurstaða háskólaþings um framtíðarfjármögnun Háskóla Íslands liggur fyrir."
- Samþykkt að fela rektor og forseta Félagsvísindasviðs að fara yfir faglegar og fjárhagslegar forsendur tillögu viðskiptafræðideildar um DBA-nám við deildina og undirbúa afgreiðslu málsins í háskólaráði.

2.3 Drög að reglum [menntamálaráðherra] um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla.
Fyrir fundinum lá umsögn gæðanefndar um drög að reglum um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna á grundvelli laga nr. 63/2006. Rektor óskaði eftir því að fulltrúar í háskólaráði kæmu athugasemdum við umsögnina á framfæri við gæðastjóra Háskólans.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Dagskrá háskólaþings 25. september 2008.

3.2 Tölur um fjölda stúdenta við Háskóla Íslands.

3.3 Úthlutun úr Aðstoðarmannasjóði vegna haustmisseris 2008.

3.4 Niðurstöður viðhorfskönnunar starfsmanna Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands vegna sameiningar háskólanna, ágúst 2008.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 13.30.