Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 26. júní 2008

9/2008
 

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2008, fimmtudaginn 26. júní var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu: Birna Arnbjörnsdóttir, Erna Kristín Blöndal, Helgi Þorbergsson, Ólafur Þ. Harðarson, Ólafur Proppé (áheyrnarfulltrúi frá KHÍ), Rúnar Vilhjálmsson, Valgerður Bjarnadóttir, Þórdís Kristmundsdóttir og Þórir Hrafn Gunnarsson. Eyjólfur Árni Rafnsson (varamaður Ingu Jónu Þórðardóttur) og Kristín Ingólfsdóttir boðuðu forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Þar sem Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor var fjarverandi vegna veikinda stýrði Ólafur Þ. Harðarson, fulltrúi deilda félagsvísindasviðs og varaforseti háskólaráðs, fundi. Áður en gengið var til dagskrár minnti Ólafur á hátíð í tilefni sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands og gildistöku nýs skipulags og stjórnkerfis Háskóla Íslands sem haldin verður 1. júlí nk. Einnig greindi Ólafur frá því að rektor hefur látið taka saman minnisblað um helstu mál Háskóla Íslands í kjölfar nýrra laga um opinbera háskóla sem verður dreift innan Háskólans á næstunni.

Fundargerðir tveggja síðustu funda lagðar fram og samþykktar. 

1. Mál á dagskrá

1.1 Skýrsla nefndar um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi, drög.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, prófessor við hugvísindadeild og formaður nefndar um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi, og kynnti drög að skýrslu nefndarinnar. Auk Róberts áttu sæti í nefndinni þau Arnfríður Ólafsdóttir, deildarstjóri Námsráðgjafar, Dagný Ósk Aradóttir, formaður stúdentaráðs 2007-2008, Friðrik H. Jónsson, prófessor við félagsvísindadeild og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, Gestur Guðmundsson, prófessor við Kennaraháskóla Íslands, Kristín S. Færseth, skrifstofustjóri Nemendaskrár og Magnús D. Baldursson, gæðastjóri Háskóla Íslands og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Róbert framkomnum spurningum og athugasemdum. Lýstu fulltrúar í háskólaráði ánægju með skýrsluna sem er gott framlag til innleiðingar nýrrar skipunar Háskóla Íslands í fimm fræðasvið.

1.2 Alþjóðamál Háskóla Íslands.
- Frestað.

1.3 Innri endurskoðun Háskóla Íslands. Ársskýrsla 2007.
Inn á fundinn kom Gunnlaugur H. Jónsson, innri endurskoðandi Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir framlagðri ársskýrslu innri endurskoðunar Háskólans fyrir árið 2007. Málið var rætt ítarlega og svaraði Gunnlaugur spurningum ráðsmanna. Magnús Diðrik Baldursson gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði með viðbrögðum sameiginlegrar stjórnsýslu við tillögum innri endurskoðunar.

1.4 Skýrsla hugverkanefndar fyrir 2006-2007.
Þórdís Kristmundsdóttir prófessor, fulltrúi deilda heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði og formaður hugverkanefndar, gerði grein fyrir framlagðri skýrslu nefndarinnar og tillögu að breytingum á gildandi verklagi við samningagerð um hagnýtingu hugverka starfsmanna Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svaraði Þórdís spurningum ráðsmanna.
- Framlögð tillaga um endurskoðað verlag við samningagerð um hagnýtingu hugverka starfsmanna Háskóla Íslands samþykkt einróma.

1.5 Skorkort Háskóla Íslands.
- Frestað.

1.6 Nýr vefur Háskóla Íslands.
- Frestað.

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Tillaga að reglum um skipan og fundarsköp háskólaþings Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og gerði grein fyrir framlagðri tillögu að reglum um skipan og fundarsköp háskólaþings. Málið var rætt ítarlega og svaraði Þórður framkomnum spurningum og athugasemdum. Fram komu tillögur um fáeinar minniháttar breytingar á minnisblaðinu.
- Samþykkt samhljóða með minniháttar breytingum, en fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara sat hjá.

2.2 Tillaga að reglum um val fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands.
- Frestað.

2.3 Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.
a) Tillaga frá viðskipta- og hagfræðideild að breytingu á 4. gr. reglna um Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands nr. 824/2001, sbr. síðasta fund.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögu viðskipta- og hagfræðideildar og var hún rædd. Fulltrúar stúdenta óskuðu eftir því að bókað yrði að tekið verði til athugunar við væntanlega endurskoðun reglna Háskóla Íslands hvort stúdentar skuli að jafnaði eiga fulltrúa í stjórnum rannsóknastofnana Háskóla Íslands.
- Samþykkt samhljóða, en fulltrúar stúdenta sátu hjá.

2.4 Tillaga að gjaldskrá vegna útgáfu vottorða, skrásetningargjalds gestanemenda o.fl.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir framlagðri tillögu um gjaldskrá vegna útgáfu staðfestra vottorða, skrásetningargjalds gestanemenda og nemenda Háskóla Íslands sem fengið hafa samþykki deildar til að gera hlé á námi sínu í eitt háskólaár. Tillagan gerir ráð fyrir að gjaldskráin verði felld inn í verklagsreglur um innheimtu og ráðstöfun skrásetningargjalds sem samþykktar voru í háskólaráði 25. febrúar 2005. Málið var rætt.
- Samþykkt samhljóða, en fulltrúar stúdenta sátu hjá.

2.5 Stjórn Alþjóðamálastofnunar.
Ólafur Þ. Harðarson gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma að eftirtaldir verði skipaðir í stjórn Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands til 30. júní 2011: Skipuð án tilnefningar: Anna Karlsdóttir, lektor í ferðalandafræði, Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, Maria Elvira Mendez Pinado, lektor í Evrópurétti og Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði. Tilnefnd af aðilum að samstarfssamningi um stofnunina, sbr. 2. mgr. 1. gr.: Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins og Þórir Ibsen, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytis. Fulltrúar samstarfsaðila, sbr. 6. gr.: Alyson Bailes, forstöðumaður Sænsku friðarrannsóknastofnunarinnar, Anders Wivel, dósent í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla, Annica Kronsell, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Lundi og Clive Archer, prófessor og forstöðumaður European Research Institute í Manchester.

2.6 Tillaga frá formanni jafnréttisnefndar að breytingu á starfsreglum valnefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða Háskóla Íslands, sem samþykktar voru í háskólaráði 8. maí sl.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögu formanns jafnréttisnefndar. Málið var rætt. Fram kom gagntillaga um að sú breyting verði gerð á 2. gr. starfsreglna valnefnda til að undirbúa ákvörðun háskólarektors um ráðningu forseta fræðasviða Háskóla Íslands, sem samþykktar voru í háskólaráði 8. maí sl., að við bætist nýr málsliður svohljóðandi: „Gæta skal að ákvæðum 15. gr. laga nr. 10/2008."
- Samþykkt samhljóða, en fulltrúi deilda raunvísindasviðs sat hjá.

2.7 Tillaga frá verkfræðideild um veitingu heiðursdoktorsnafnbótar.
Ólafur Þ. Harðarson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Tillaga verkfræðideildar samþykkt einróma.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Nýr Háskóli Íslands 1. júlí 2008. Dagskrá.

3.2 Skýrsla Háskóla Íslands til menntamálaráðuneytis vorið 2008 um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011.
Jón Atli Benediktsson prófessor, aðstoðarmaður rektors og þróunarstjóri Háskólans, gerði grein fyrir málinu.

3.3 Jafnréttisskóli og alþjóðlegt rannsóknasetur í jafnréttisfræðum.
Magnús Diðrik Baldursson gerði grein fyrir málinu. Var gerður góður rómur að þessu framtaki.

3.4 Fyrirlestur S. Ramadorai, forstjóra TATA Consultancy Services, í Hátíðasal Háskóla Íslands, föstudaginn 27. júní nk.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.40.