Skip to main content
22. mars 2022

Útverðir hins akademíska samfélags í 20 ár

Útverðir hins akademíska samfélags í 20 ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tuttugu ára afmæli rannsóknarsetra Háskóla Íslands verður fagnað með veglegum hætti á ársfundi Stofnunar rannsóknasetra HÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði miðvikudaginn 23. mars kl. 13-16. Á fundinum, sem verður streymt, fæst afar góð innsýn í þau fjölbreyttu verkefni sem vísindamenn og nemendur innan rannsóknasetranna fást við og þau áhrif sem setrin hafa í nærsamfélögum sínum.

Það er við hæfi að fagna afmælinu á Höfn því þar var tók fyrsta setrið formlega til starfa 30. nóvember 2001 undir forystu Rannveigar Ólafsdóttur sem nú gegnir stöðu prófessors í land- og ferðamálafræði við HÍ. 

Páll Skúlason var rektor Háskólans á þeim tíma og hann tengdi stofnun setursins hlutverki Háskóla Íslands sem þjóðskóla sem ætti að vera með starfsemi í öllum fjórðungum. „Skólinn hefur gert gott betur en það því setrin eru nú orðin tíu um allt land, á Hornafirði, Suðurlandi, Suðurnesjum, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra, Austurlandi og Breiðdalsvík. Og þá er einnig starfsemi á vegum stofnunarinnar í Vestmannaeyjum,“ segir Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands.

kafarar

Við Rannsóknasetur Háskólans á Vestfjörðum fara fram neðansjávarfornleifarannsóknir.

Rannsóknaáhersla styrkt fyrir áratug

Fyrstu árin voru setrin kölluð fræðasetur en með breytingu á reglum um stofnunina í mars 2011 samþykkti háskólaráð að breyta heiti stofnunarinnar úr Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands í Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. „Með breytingunni var lögð áhersla á tengsl rannsóknasetranna við háskólann og að þau mynduðu eina heild en einnig var rannsóknaáherslan í starfi þeirra styrkt,“ segir Sæunn og bætir við að setrin sinni líka leiðbeiningu framhaldsnema víða um land.

Óhætt er að segja að rannsóknirnar sem fram fara við setrin séu afar fjölbreyttar og snerta ótal hliðar vísindanna, en á meðal þeirra eru loftslagsmál, lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, fornleifafræði, þjóðfræði og nú síðast jarðfræði.

Thorvardur

Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Höfn í Hornafirði.

Náttúra og menning í brennidepli á Höfn

Skýrt dæmi um fjölbreytileikann er einmitt að finna í elsta setrinu á Hornafriði þar sem þau Þorvarður Árnason, forstöðumaður setursins og umhverfishugvísindamaður, og Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður og séfræðingur í nútímabókmenntum, hafa starfað frá árinu 2006, en þau eru bæði meðal þátttakenda í afmælismálþinginu

„Verkefni setursins snúast því annars vegar um umhverfi og náttúru og hins vegar um menningu og bókmenntir. Setrið hefur verið að leggja síaukna áherslu á loftslagsmálin að undanförnu, ekki þá síst á sjónrænar rannsóknir á því sviði. Sú áhersla helgast að miklu leyti af staðbundnum aðstæðum – þ.e. nálægð okkar við Vatnajökul og skriðjökla hans – en bráðnun jökla er einkar skýr birtingarmynd þeirra ótal mörgu áhrifa sem loftslagsbreytingar eru að valda út um heim allan,“ segir Þorvarður sem unnið hefur með innlendum og erlendum vísindamönnum að því að kortleggja með sjónrænum hætti hvernig jöklar víða á Suðurlandi hopa en myndir þeirra hafa verið sýndar víða um heim og tilefndar til verðlauna.

Soffía Auður hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á íslenskar og erlendar nútímabókmenntir og kynjafræði. „Ég hef lagt mig sérstaklega eftir að fylgjast vel með íslenskum samtímabókmenntum og skrifa reglulega fræðigreinar á því sviði fyrir ritrýnd tímarit og ítarlega ritdóma um ný bókmenntaverk fyrir Tímarit Máls og menningar. Í ár á ég 40 ára afmæli sem bókmenntagagnrýnandi og hef verið virk á því sviði allan þann tíma. Árið 2019 kom út greinasafn mitt „Maddama, kerling, fröken, frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum“ sem inniheldur 31 ritverk, fræðigreinar og ítarlega ritdóma, frá ríflega þriggja áratuga skeiði,“ segir Soffía Auður.

Rannsóknir Soffíu Auðar snerta líka nærumhverfi rannsóknasetursins því einn af þekktustu höfundum 20. aldarinnar, Suðursveitarmaðurinn Þórbergur Þórðarson, hefur verið viðfangsefni hennar um langt skeið, m.a. í doktorsrannsókn Soffíu Auðar, en á henni byggist fræðiritið „Ég skapa þess vegna er ég – um skrif Þórbergs Þórðarsonar“ sem gefið var út árið 2015.

Soffia Audur

Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við Rannsóknasetur HÍ á Höfn.

Soffía Auður fæst nú við rannsóknarverkefni sem hún nefnir Saga systra og snertir ævi sex systra, dætra Sveinbjarnar Egilssonar, rektors og skálds, og Helgu Benediktsdóttur Gröndal, en þær eiga sér afar merkilegt lífshlaup. „Rannsóknin er tímafrek því heimildir eru af skornum skammti og þarf til að mynda að grafa í skjalasöfnum og rannsaka sendibréf og önnur gögn á handritadeild Landsbókasafns-Háskólabókasafns og á Þjóðskjalasafni Íslands. Lífshlaup systranna sex varpa ljósi á ýmsa mikilvæga þætti í sögu íslenskra kvenna á nítjándu öld og í gegnum þær má greina viðamikla þætti íslenskrar menningar er varða konur og hlutskipti þeirra á þessum tíma,“ segir Soffía Auður sem hefur þegar birt tvær fræðigreinar byggðar á rannsóknunum og er með fleiri í smíðum. 

Náið samstarf við nærsamfélagið

Snar þáttur í starfi setranna er samstarf við nærsamfélögin, bæði á sviði rannsókna, kennslu og miðlunar. „Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnulíf og samfélag,“ segir Sæunn.

Þorvarður og Soffía Auður segjast aðspurð að samstarfið við nærsamfélagið hafi almennt gengið mjög vel. „Eitt skýrasta dæmið um gott samstarfi við nærsamfélagið eru tengsl setursins við Þórbergssetur á Hala í Suðursveit, en þar hefur skapast mikil og skemmtileg samlegð á milli fræðilegra rannsókna og margvíslegs uppbyggingar- og miðlunarstarfs á safninu sjálfu,“ segir Þorvarður.

Soffía Auður tekur undir þetta: „Svo til á hverju ári síðan ég hóf störf á Hornafirði hef ég verið í samstarfi við Þórbergssetur um málþing og ráðstefnur. Þá hef ég einnig staðið að málþingum og ráðstefnum í samvinnu við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og Náttúrustofu Suðausturlands. Ég hef haldið námskeið og fyrirlestra fyrir almenning og verið gestakennari við framhaldsskólann. Þá má að lokum nefna að ég hef verið fús til að liðsinna hornfirskum háskólanemum sem eru í fjarnámi og hafa vinnuaðstöðu í Nýheimum, þar sem rannsóknasetrið er.“

Í Nýheimum, þar sem ársfundurinn fer einnig fram, er sambúðin einnig náin við ýmsa aðila og það hefur haft mjög afgerandi áhrif á starfsemi rannsóknasetursins að sögn Þorvarðar. „Setrið hefur verið virkur þátttakandi í þróun Nýheima alveg frá upphafi og hefur þannig lagt töluverðan skerf af mörkum varðandi tilurð og viðhald þess ríka samstarfsanda sem er hornsteinn og aðall þekkingarsamfélagsins í Nýheimum. Fyrir lítið setur skiptir einnig verulegu máli að geta leitað til annarra svæðisbundinna stofnana, bæði til að auka slagkraftinn en líka einfaldlega til þess að njóta samstarfsins og félagsskaparins sem slíks. Þannig getur skapast ákveðin heild í kringum einstök viðfangsefni – við tölum í því sambandi gjarnan um „community of practice“ – sem er mjög gefandi fyrir alla þátttakendur. Nýheimar hafa ávallt leitast við að vera „vettvangur skapandi samstarfs“; það kallar ekki bara á samheldni heldur markvissa vinnu allra sem miðar að því að raungera þessi kjörorð í daglegu starfi einstakra stofnana,“ segir Þorvarður.
 

Setrin vinna jafnframt með yngri skólastigum að ýmiss konar fræðsluverkefnum. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og grunnskóli Bláskógabyggðar á Laugarvatni eru t.a.m. í samstarfsverkefni sem gengur út á að meta áhrif loftslagsbreytinga á fuglastofna. Hér er Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður setursins, með grunnskólanemum við fuglatalningu við Laugarvatn. MYND/Kristinn Ingvarsson

Setrin mikilvæg í vísindastarfi Háskólans og almennri stefnumörkun

Sæunn bendir enn fremur á að nærsamfélög og umhverfi rannsóknasetranna gegna lykilhlutverki sem rannsóknavettvangur setranna og eru mikilvæg viðbót við þróun vísindastarfs innan Háskóla Íslands. „Með virkri starfsemi rannsóknasetranna undirstrikar háskólinn gildi landsbyggðarinnar fyrir mennta- og vísindastarf Háskóla Íslands. Forstöðumenn og starfsfólk rannsóknasetranna leggja sitt af mörkum til byggðaþróunar með svæðisbundinni uppbyggingu vísindastarfs, þátttöku í samfélaginu og með því miðla af reynslu sinni, þjálfun, vinnubrögðum og akademískum hugsunarhætti,“ segir hún.

Saeunn

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra HÍ.

Starfsfólk rannsóknasetranna leggur einnig sitt af mörkum með þátttöku í ýmiss konar stefnumörkun á vegum stjórnvalda, sem mörg hver snerta brýnustu viðfangsefni samtímans. „Þar má nefna nefna faghópa Rammaáætlunar, gerð landsáætlunar í skógrækt, stýrihópi um endurskoðun stefnu Íslands í vernd líffræðilegrar fjölbreytni og ýmislegt fleira. Þá hefur verkefni Þorvarðar um þróun sjónrænna aðferða við rannsóknir og miðlun á áhrifum hnattrænna loftslagsbreytinga í samstarfi Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði og dr. Kieran Baxter við Dundeeháskóla hlotið mikla athygli,“ segir Sæunn enn fremur.

Unnið með yngri skólastigum

Setrin vinna jafnframt með yngri skólastigum að ýmiss konar fræðsluverkefnum. „Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi og grunnskóli Bláskógabyggðar á Laugarvatni eru t.a.m. í samstarfsverkefni sem gengur út á að meta áhrif loftslagsbreytinga á fuglastofna. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum kemur að líffræðikennslu í 9. og 10 bekk grunnskóla Bolungarvíkur. Nýjasta rannsóknasetrið okkar á Breiðdalsvík er svo að kynna undur jarðfræðinnar fyrir efri bekkingum í Breiðdals- og Stöðvarfjarðaskóla og svona mætti áfram telja. Mikill samhljómur er með starfsemi setranna og áherslna í nýrri stefnu Háskólans til 2026,“ bætir Sæunn við. 

fiskrannsoknir

Setrin leggja töluvert til kennslu og leiðbeiningar innan Háskólans. Á Vestfjörðum fara fram rannsóknir á undirstöðutegundinni þorski.

„Rannsóknasetrin skipta gríðarlegu máli fyrir lítil samfélög. Þau hafa ýmis margfeldisáhrif, laða fólk til staðarins til þátttöku í verkefnum og viðburðum. Ég tel að þau séu mikilvæg fyrirmynd fyrir ungt fólk varðandi menntun og störf, t.a.m. geta háskólanemar fengið sumarvinnu hjá okkur,“ segir Soffía Auður og undirstrikar þannig byggðahlutverk setranna.

Sterk samkennd meðal setranna

En hvernig skyldi samstarfi setranna sjálfra vera háttað? „Setrin eiga sér í senn samnefnara og sameiginlegan vettvang í Stofnun rannsóknasetra. Fjölgun setranna á undanförnum misserum hefur eflt stofnunina sem heild – styrkt tengsl hennar við samfélögin á landsbyggðinni enn frekar, aukið fjölbreytnina í rannsóknum og eflt mannauðinn. Þar sem hvert einstakt setur er lítið – nokkur setur eru með tvo fastráðna starfsmenn en önnur aðeins með einn – þá hafa þau þó alla jafnan litla möguleika á því að sinna öðru en því sem er allra brýnast fyrir þeirra eigið starf. Þrátt fyrir þetta er sterk samkennd á meðal setranna og ríkur samstarfsvilji. Draumurinn er að geta sótt fram á grundvelli þeirrar fjölbreyttu reynslu, færni og þekkingar sem setrin til samans búa yfir. Vonandi rætist sá draumur, með einhverjum hætti, á næstu misserum,“ segir Þorvarður.

Það er engum vafa undirorpið að starf setranna hefur eflst mjög á þeim 20 árum sem liðin eru frá stofnun þess fyrsta og Þorvarður bendir á að þróunin þar hafi að mörgu leyti fylgt þróun háskólans. „Þróun starfsins á Hornafirði á þessu tímabili hefur mótast bæði af ytri og innri áhrifaþáttum. Ytri þróunarferlarnir lúta einkum að umbreytingu Háskóla Íslands í heild frá því að vera íslenskur þjóðskóli yfir í það að verða alþjóðlegur rannsóknaháskóli. Á setrunum hefur þessi umbreyting m.a. komið fram með aukinni áherslu á rannsóknir og fjölþjóðlegt samstarf af ýmsum toga, sem er út af fyrir sig mjög jákvæð þróun en getur þó leitt til minni áherslu á verkefni sem varðar nærsamfélagið, einfaldlega vegna þess að tími og fjármunir eru af skornum skammti,“ segir hann.

handrit

Rannsóknir innan rannsóknasetranna snerta menningu þjóðarinnar á ýmsan hátt.

Innri þróunarferlarnir snerti hins vegar vöxt í þekkingu og færni á setrinu sjálfu í gegnum þátttöku í verkefnum af fjölbreyttum toga yfir langt, samfellt tímabil. „Mörg þessara verkefna hafa enn fremur snúið að málefnum sem varða nærsamfélagið; slík verkefni geta boðið upp á leiðir til að tengja saman hið staðbundna og hið hnattræna og þannig skapað setrunum ákveðna sérstöðu sem rannsóknastofnanir. En meginatriðið er þó kannski það að hnattræn sýn á akademíska starfsemi eyðir að verulegu leyti þessum greinarmun á „miðju“ og „jaðri“ sem okkur er svo tamur, sbr. til dæmis hugtökin „höfuðborg“ og „landsbyggð“ – hnattræn akademísk miðja helgast af viðfangsefninu hverju sinni og þeirri þekkingu á því sem er til staðar, ekki af pólitískum eða landfræðilegum aðstæðum,“ bendir Þorvarður á.

Breitt starfssvið setranna harla óvenjulegt

Sæunn segir að ekki megi gleyma því að eflingu rannsóknasetranna og vísindastarfsins sem þar fer fram sé fyrst og fremst því að þakka setrin hafi á að skipa öflugu og metnaðarfullu starfsfólki og einvalalið er í hlutverki forstöðumanna. „Þeir hafa síðan með því að leggja ríka áherslu á samstarf og sjóðasókn getað fengið með sér samstarfsfólk, verkefnisstjóra, framhaldsnema og nýdoktora og þannig hefur umfang margra setranna margfaldast. Önnur ástæða fyrir árangrinum er að mínu mati áherslan á virka þátttöku í samfélagi og atvinnulífi í starfsemi rannsóknasetranna. Hvort sem það er með rannsóknum á brýnum viðfangsefnum samtímans, eins og loftslagsmálum, með samstarfi við önnur skólastig eða miðlun rannsókna og þekkingar,“ segir Sæunn og bætir við: „Þessi áhersla hefur einnig ýtt undir stuðning sveitarfélaganna og stjórnvalda við fjármögnun setranna sem er okkur afar mikilvægur.“

Hún bendir jafnframt á að setrin eigi bakland í deildum og stjórnsýslu skólans sem sé lífsnauðsynlegt. „Rannsóknasetrin víkka út starf háskólans um leið og háskólinn er bakland þeirra. Akademískir starfsmenn rannsóknasetranna koma flestir að kennslu í deildum skólans, fyrst og fremst með leiðbeiningu framhaldsnema í meistara- og doktorsnámi. Þá eru haldin sérhæfð vettvangsnámskeið á meistarastigi við nokkur rannsóknasetranna,“ segir hún enn fremur.  

aedur

Við Rannsóknasetur HÍ á Snæfellsnesi hafa lengi verið stundaðar rannsóknir á æðarfugli.

Þorvarður segir enn fremur að hið breiða starfssvið setranna sé harla óvenjulegt, hvort heldur í innlendu eða erlendu samhengi. „Segja má að þau séu nokkurs konar „útverðir“ hins akademíska samfélags eða, kannski öllu heldur, tilraunir til að teygja akademískt starf til „jaðarbyggða“ sem hafa orðið útundan í tilurð og þróun nútíma þekkingarsamfélags,“ segir hann enn fremur. 

Starfið verður sífellt alþjóðlegra

Þegar talið berst að framtíðinni segir Þorvarður að hjá rannsóknasetrinu á Höfn sé mikill áhugi fyrir því að styrkja enn frekar rannsóknir og annað starf á sviði loftslagsmála, þessa stóra viðfangsefnis samtímans. „Okkur langar jafnvel gera setrið á Hornafirði að fjölþjóðlegri miðstöð rannsókna, fræðslu og miðlunar um loftslagsmál. Þá hafa rannsóknir á náttúrlegu landslagi og óbyggðum víðernum lengi verið í forgrunni hjá setrinu og ætlunin er að halda áfram á þeirri braut,“ segir Þorvarður.

Soffía Auður segist munu halda áfram langtímarannsókn á ævi sex dætra Sveinbjarnar Egilssonar og Helgu Benediktsdóttur Gröndal, rannsóknum á íslenskum samtímabókmenntum og bókmenntum kvenna og á höfundarverki Þórbergs Þórðarsonar. „Við tökum einnig þátt í tveimur þverfaglegum, fjölþjóðlegum verkefnum, Nordic Connections: learning from the past to shape the future og Fôlego, en það endurspeglar vel hvernig starfið innan setranna verður sífellt alþjóðlegra,“ segir hún. 

Marianne

Hvalir og hvalaskoðun eru í brennidepli á Húsavík þar sem Marianne Rasmussen veitir rannsóknasetri HÍ forstöðu.

Sæunn segir að þrátt fyrir vöxt rannsóknasetranna hafi það markmið ekki náðst að á hverju setri starfi tveir fastráðnir starfsmenn. „Við reiðum okkur mjög á sértekjur. Til marks um það er mikill fjöldi starfsfólksins, en ársverkin við setrin 2021 voru 35 talsins, ráðið tíma- eða verkefnabundið, nemendur og sumarstarfsfólk. Því miður eru vísbendingar um að mikið álag sé á okkar fremsta fólki og því leitum við nú ráða til að efla grunnfjármögnun Stofnunar rannsóknasetra HÍ þannig að á hverju setri séu tveir fastráðnir starfsmenn. Með stuðningi stjórnvalda, sem einmitt benda á í stjórnarsáttmála sínum á mikilvægi þess að fjárfesta í rannsóknasetrunum á landsbyggðinni, erum við bjartsýn á að það markmið okkar náist,“ segir hún.
 
Sæunn bætir við að slík fjárfesting skili sér sannarlega margfalt til baka. „Ég held að óhætt sé að segja að starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands hafi sannað gildi sitt við eflingu rannsókna, háskóla- og atvinnustarfsemi víða um land og aukið tengsl skólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á umliðnum tveimur áratugum.“ 

Hægt er að kynna sér glæsilega afmælisdagskrá ársfundar Stofnunar rannsóknarsetra á vef Háskólans en viðburðurinn verður sendur út í streymi fyrir þau sem ekki eiga heimangengt.

Tjaldur