Skip to main content
11. mars 2021

Nýtt form snjallmiðlunar varpar skýru ljósi á bráðnun íslenskra jökla

Nýtt form snjallmiðlunar varpar skýru ljósi á bráðnun íslenskra jökla - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvernig orkar fegurð jökla á okkur? Hvers vegna hrífumst við af þeim? Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur sem manneskjur ef jöklarnir hverfa?

Fræðimaðurinn Þorvarður Árnason við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði svarar spurningunni um tilurð kvikmyndarinnar After Ice með framangreindum spurningum. Vissulega segja þessar spurningar á suman veg meira en flókin svör í löngu máli um afleiðingar þess að jöklar Íslands bráðni. Myndin After Ice verður frumsýnd á fjölmörgum netveitum þann 11. mars nk. en hana vann Þorvarður í félagi við Kieran Baxter, sem er vísindamaður og kennari í samskiptahönnun við Háskólann í Dundee í Skotlandi. 

Í myndinni er tekist á við áskoranir mannkyns út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sjónum beint að áhrifum loftslagsbreytinga á jökla með framangreindar spurningar að leiðarljósi að sögn Þorvarðar. Kveikjan að þessu verkefni var ekki bara brennandi áhugi þeirra Kierans á mynd- og snjallmiðlun því að baki liggur sameiginleg ástríða beggja fyrir jöklum og jöklalandslagi, einkum frá fagurfræðilegu sjónarhorni. Þulartextinn í stuttmyndinni er líka ljóðrænn en hann er að mestu úr smiðju M Jackson, jöklafræðings og rithöfundar, en hún hefur tvívegis verið Fulbright-styrkþegi við Rannsóknasetrið á Höfn. 

After Ice from Kieran Baxter on Vimeo.

Þorvarður eða Þorri eins og hann er oftast kallaður er vanur að velja fagurfræðilega sjónarhornið því hann er listfengur ljósmyndari með afbrigðum þess á milli sem hann setur upp rannsóknagleraugun. Í þessi verkefni má segja að hann geri hvort tveggja; þarna er vísindaleg þekking hans og annarra í öndvegi og fagurfræðileg myndataka Þorra í háskerpu auk þess sem mynd- og tæknivinnsla Kierans gerir mögulegt að fletta upp í sögu jöklanna eins og ekkert sé einfaldara. 

Sjóngervingar og endursköpun

„Í myndinni skoðum við þetta risaviðfangsefni, eina stærstu áskorunum mannkyns, hamfarahlýnun. Í hnotskurn, þá töldum við Kieran rétt að koma okkar tilteknu sérþekkingu á bráðnun jökla á framfæri við almenning, helst um heim allan, og þá í gegnum miðil sem við þekkjum báðir mjög vel, kvikmyndina. En jafnframt þá með þeim hætti að sjóngervingarnar sem við bjuggum til væru kyrfilegar jarðtengdar við vísindalegu þekkingu á jöklum og bráðnun þeirra.“

Þorri notar oft nýyrði og orð sem leyna hreint ekki merkingu sinni. Hann notar eins og margir vísindamenn nú á dögum orðið hamfarahlýnun yfir alvarlegt ástand í umhverfi okkar og lífríki. Hlustendur RÚV og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum voru samdóma um að hamfarahlýnun væri orð ársins 2019. Sjóngervingar sem Þorri nefnir er í raun nýyrði og orðaleikur yfir endursköpun fortíðar í myndrænni miðlun. 

„Segja má að þessi vinna gangi út á það að finna leið fyrir vísindi og listir til að vinna að sameiginlegu markmiði, miðlun traustra upplýsinga um raunveruleika hamfarahlýnunar, á skýran en um leið áhrifaríkan hátt.“

Gögnin í kvikmyndinni og rannsókninni eru myndræn, ljósmyndir, kvikmyndir og drónamyndir og þeirra er aflað með þartilgerðum tækjakosti, þ.e. myndavélum af ýmsum toga. 
„Það er tæknileg hlið á þessu verki,“ segir Kieran, „en ég hef meiri áhuga á því inntaki sem felst í mismunandi tegundum mynda og hvernig þær eru notaðar við að miðla upplifun sem tengist jökullandslagi.“ 

Þorri segir að myndirnar sem Kieran talar um sé um leið gögn og heimildir um ásýnd jöklanna á þeim tíma þegar þeirra var aflað og leggi þannig grunn að áframhaldandi langtímavöktun á breytingunum. 

„Í þessu sambandi má nefna að við Kieran erum með tvo jökla í nokkurs konar gjörgæslu vegna þess að þar óttumst við hamfarahop á næstu árum.“

Endurskapaðar aðstæður fyrri tíma

Þorra finnst endursköpun Kierans á hornfirskum jöklum frá fyrri tímum einna merkasta afrek myndarinnar. Kieran framkallar þetta í tölvunni, með því að tengja saman sögulegar loftmyndir og landhæðarlíkön. 

Kieran, sem er jafnframt í hlutastarfi sem nýdoktor við Rannsóknasetrið í Hornafirði, segir að rannsóknir sínar helgist af því að kanna hvernig hægt sé að nota snjallmiðlun til að koma vísindalegri sérfræðiþekkingu til almennings. „Þetta felur í sér að sameina þekkingu og tækni frá jarðvísindum við skapandi snjallmiðlunaraðferðir sem eru oftar notaðar í kvikmyndum til dæmis.“ 

Kieran Baxter

Kieran Baxter við drónamyndatökur við Heinabergsjökul, einn þeirra jökla sem skoðaðir eru í myndinni. MYND/Alice Watterson

Þorri tekur undir þetta og segir að þrívíddar tölvulandslagið sem Kieran skapi bjóði upp á allskyns úrvinnslumöguleika, meðal annars sýndarflug eftir sömu flugleið og raunverulegt flygildi, og þannig megi klippa á milli raunflugs og sýndarflugs. „Þetta er mjög áhrifarík leið til að sýna breytingar, en um leið fyllilega raunsæ, þótt í sýndarheimi sé. Þannig má sýna fram á þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið vegna jöklabráðnunar á undanförnum áratugum. Að mínu mati markar þessi aðferð Kierans verulegt stökk fram á við í sjónrænni miðlun þekkingar um bráðnun jökla, stökk sem e.t.v. mætti jafna við byltingarkenndar skeiðmyndatökur James Balogs í Extreme Ice Survey verkefninu á síðasta áratug.“

Sjálfur hefur Þorri getið sér afar gott orð fyrir snilli sína í skeiðmyndum en hann átti fjölda slíkra skota í verðlaunavísindaseríunni Fjársjóður framtíðar þar sem fjallað var um fjölmargar áskoranir mannkyns. 

Hamfarahlýnun ógnar menningu og samfélagi 

Þorri segir að hamfarahlýnun ógni ekki aðeins öllu lífríki jarðar heldur einnig menningu og samfélagi okkar mannanna. „Hamfarahlýnun er því ekki umhverfisvandamál í hefðbundnum skilningi. Baráttan gegn hamfarahlýnum er ótvírætt ein af stærstu áskorunum mannkyns og þá um leið brýnustu viðfangsfangsefnum okkar manna, þar með talið vísindamanna. Vísindarannsóknir á birtingarmyndum hamfarahlýnunar, sem eru ótal margar, skipta höfuðmáli í glímunni við viðfangsefni af áður óþekktri stærðargráðu og flækjustigi. Í þessu ljósi er bæði mikilvægt að sem flestar fræðigreinar láti sig málið varða og enn fremur að vísindamenn með ólíkan faglegan bakgrunn komi saman, beri saman bækur sínar og stilli saman strengi. Eins og staðan er í dag erum við því miður órafjarri því að ná þessu opna, heildstæða, þverfaglega samtali velflestra, ef ekki allra, vísindagreina sem baráttan við hamfarahlýnun kallar á. En það þýðir auðvitað ekki að gefast upp, það er alltof mikið í húfi.“

„Í myndinni skoðum við þetta risaviðfangsefni, eina stærstu áskorunum mannkyns, hamfarahlýnun. Í hnotskurn, þá töldum við Kieran rétt að koma okkar tilteknu sérþekkingu á bráðnun jökla á framfæri við almenning, helst um heim allan, og þá í gegnum miðil sem við þekkjum báðir mjög vel, kvikmyndina. En jafnframt þá með þeim hætti að sjóngervingarnar sem við bjuggum til væru kyrfilegar jarðtengdar við vísindalegu þekkingu á jöklum og bráðnun þeirra,“ segir Þorvarður Árnason MYND/Kieran Baxter

Snjallmiðlun nýtt í þágu vísindanna

Þorri segir að hann og Kieran séu alls ekki einir um að nýta sér alls konar mynd- eða snjallmiðlun í þágu vísindanna. Þetta sama geri margir án þess þó kannski að velta því mikið fyrir sér. 
Hann segir að kort, ljósmyndir og allskyns línu- og súlurit séu dæmi um myndmiðlun sem iðulega sé beitt í þeim tilgangi að koma vísindalegum niðurstöðum á framfæri, hvort heldur á fræðilegum vettvangi eða til almennings. „Listamenn sumir hafa síðan tekið slík gröf og unnið áfram með þau, til að gefa staðreyndunum aukinn slagkraft, ef svo mætti að orði komast,“ segir Þorri. 

„Kvikmyndin getur verið einkar áhrifaríkur miðill, ekki síst í vefumhverfi þar sem sjónrænir þættir eru býsna ráðandi. Í ljósi þeirra gagna sem við Kieran erum að vinna með liggur beint við að beita kvikmyndinni sem miðlunarleið fyrir gögnin.  Þá eru hrágögnin, þ.e. myndskeiðin sjálf tekin, og reynt að setja þau saman í eina heild, þar sem framsetningin fylgir bragreglum kvikmyndalistarinnar,“ segir Þorri og gerist skáldlegur. „Þar sem drónamyndskeið, ýmist tekin í raunheimi eða sýndarheimi, eru veigamesti þátturinn í nálgun okkar, þá má segja að við séum að reyna að hjálpa staðreyndum um bráðnun jökla að hefja sig til flugs, bæði í þeim skilningi að auðvelda viðtöku þeirra hjá almenningi og koma þeim á framfæri við fólk út um allan heim, á formi sem allir ættu að geta skilið, þó svo að þeir hafi aldrei séð jökul berum augum.“

Hefur myndað breytingar á jöklum í langan tíma

Þorri segir að loftslagsmálin hafi lengst af verið hálfgerð aukabúgrein hjá sér, eins og hann kemst að orði. „Meginþunginn í rannsóknavinnu minni laut að öðrum viðfangsefnum, þar sem náttúruvernd var þó oftast í forgrunni. Grunnurinn að núverandi rannsóknum mínum á hamfarahlýnun var lagður í útivistar- og ljósmyndaferðum mínum um jöklalandslag Hornafjarðar sem hófust fljótlega eftir að ég tók við núverandi starfi. Í stuttu máli uppgötvaði ég að vegna nálægðar minnar við jöklana og möguleikanna sem ég hafði á að fylgjast reglulega með þeim, allt árið um kring þá væri ég í þeirri stöðu að vera beinn sjónarvottur að áhrifum hamfarahlýnunar. Jafnframt að ég sjálfur, vegna bakgrunns míns í kvikmyndagerð og ljósmyndun, gæti helst reynt að fanga þessar breytingar sem augu mín urðu vitni að í gegnum rað- eða endurmyndun, það er taka myndir á sömu stöðum með reglulegu millibili.“

Þannig varð m.a. Hoffellsjökulsserían til; röð mynda sem Þorri tók, eina i hverjum mánuði, yfir átta ára tímabil frá 2008 til 2015. Samhliða þessum myndatökum reyndi hanna að átta mig á merkingu þessa alls fyrir sig sem manneskju, þá ekki síst manneskju sem hefur tilhneigingu til að mynda sterk tengsl við hrífandi náttúrufyrirbæri af ýmsum toga.

Fjöl- eða þverfaglegar rannsóknir í háskerpu

Þorri er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Hin síðustu ár hafa rannsóknir hans að mestu beinst að fimm sviðum. „Loftslagsmálin eru núorðið í töluverðum forgangi hjá mér en einnig ýmis eldri, langtímaviðfangsefni, einkum þá náttúrlegt landslag, óbyggð víðerni og hugmyndafræði náttúruverndar. Þá taka ferðamálin sinn tíma, meðal annars nýtt verkefni sem hófst á síðasta ári um þróun vísindaferðaþjónustu.“

Rannsóknir Þorvarðar hafa gjarnan verið fjöl- eða þverfaglegar og falla undir tiltölulega nýtt fræðasvið sem á íslensku kallast umhverfishugvísindi. 

„Hið sjónræna verður æ stærri þáttur í nánast öllu því sem ég er að gera, til dæmis ýmis konar kortlagningarvinnu og þróunarvinnu við vefsjár. Ef allt gengur að óskum munum ég og samstarfsfólk mitt eiga þess kost að rannsaka áhrif snjallmiðlunar af ýmsum toga um áhrif hamfarahlýnunar með heildstæðum og kerfisbundnum hætti á næstu misserum. Það er kannski stærsta draumaverkefnið mitt, nú um stundir.“

Þorvarður Árnason er fæddur í Reykjavík árið 1960 en er búsettur í faðmi jöklanna á Höfn í Hornafirði. Hann lauk BS-námi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1985, BFA-námi í kvikmyndagerð frá Concordia-háskóla árið 1992 og doktorsnámi í umhverfisfræðum frá háskólanum í Linköping árið 2005.

Meira má lesa um Þorvarð á Vísindavef Háskóla Íslands. 

Þorvarður Árnason við jökul