Skip to main content
11. apríl 2023

Sjálfvirk textaskrif kennd í máltækninámi

Sjálfvirk textaskrif kennd í máltækninámi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Boðið verður upp á námskeið í sjálfvirkum textaskrifum í MA-námi í máltækni við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands á haustmisseri 2023. Námskeiðið nefnist Sjálfvirk textamyndun með vélrænu námi og kennari er Elena Callegari nýdoktor.

Nýverið var greint frá því að bandaríska gervigreinarfyrirtækið OpenAI væri að þróa nýjustu kynslóð GPT líkansins til að búa til texta á íslensku. Í námskeiðinu verður unnið með opna útgáfu af GPT líkaninu og kenndar nýjustu aðferðir til að búa til sjálfvirkan texta, hvort sem það eru til dæmis svör við spurningum, minnisblöð eða kóðar fyrir forritun. Elena Callegari segir að nemendur geti að námskeiði loknu búið til texta með LSTM-aðferðum og GPT-Neo og að þeir öðlist skilning á virkni transformera. Elena Callegari starfar sem fræðimaður hjá rannsóknarstofunni Mál og tækni við Háskóla Íslands og hefur auk þess stofnað sprotafyrirtækið SageWrite sem vinnur að þróun textagerðakerfa og textabætandi lausna fyrir fræðileg skrif.

Hægt er að sækja um framhaldsnám við Háskóla Íslands til og með 15. apríl. Inntökuskilyrði fyrir nám í máltækni er BA-próf með fyrstu einkunn í íslensku eða almennum málvísindum sem aðalgrein eða BS-próf í tölvunarfræði eða hugbúnaðarverkfræði. Þau sem hafa lokið háskólaprófi í öðrum skyldum greinum geta einnig sótt um inngöngu og þá undirstaðan metin sérstaklega.

Elena Callegari