Skip to main content
4. apríl 2022

Kynjagleraugum beitt á sögu nunnuklaustra á Norðurlöndum

Kynjagleraugum beitt á sögu nunnuklaustra á Norðurlöndum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nunnuklaustur í Norður-Evrópu eru viðfangsefni Sigrúnar Hannesdóttur í doktorsverkefni hennar í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Að hennar sögn hafa slík klaustur hingað til notið mun minni athygli en munkaklaustur í rannsóknum og vísbendingar um að þau hafi ekki alveg notið sannmælis heldur.

Á Íslandi voru rekin fjölmörg klaustur á kaþólskum tíma. Þau heyrðu undir erkibiskupsdæmið í Niðarósi í Noregi eins og klaustur víðar í Norður-Evrópu, það er Noregi, Grænlandi, Færeyjum og eyjum í kringum Bretland. Í tveimur íslensku klaustranna höfðust nunnur við, Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu sem stofnað var 1186 og Reynistaðarklaustri í Skagafirði sem var sett á fót tæplega öld síðar, eða 1295. Rannsókn Sigrúnar snýr að þeim og sex öðrum nunnuklaustrum sem stofnuð voru í Noregi og Grænlandi, þau fyrstu snemma á 12. öld, en flest þeirra voru rekin fram að siðaskiptunum á 16. öld. 
„Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að greina hvernig nunnuklaustrin hafa áður verið sett fram í fræðilegum skrifum og kanna t.a.m. áhrif þjóðernishyggju og feminísma í klausturrannsóknum. Hins vegar að endurskoða sögu þeirra í samhengi evrópskrar kirkjusögu,“ útskýrir Sigrún.

Hún bendir á að í íslenskum og norskum klausturrannsóknum hafi aðallega verið lögð áhersla á þátt klaustranna í sögu sinna landa og tilhneiging til þess að nálgast þau fyrst og fremst sem einangraðar stofnanir sem þjónuðu innlendum höfðingjum og fjölskyldum þeirra. „Markmið þessarar rannsóknar er hins vegar að nálgast nunnuklaustrin í Niðaróssbiskupsdæmi sem eina heild og varpa þannig ljósi á sameiginlega hugmyndafræði klausturmenningar kvenna á svæðinu,“ útskýrir Sigrún sem sameinar þarna áhuga sinn á kirkjusögu miðalda og kynjasögu. 

Sigrún státar af BA-prófi í fornleifafræði frá Háskóla Íslands en meistaraprófi lauk hún við Oxford-háskóla í Englandi áður en hún sneri aftur heim til doktorsnáms. Hún er alls ekki ókunn klausturrannsóknum því Sigrún hefur m.a. unnið með leiðbeinanda sínum í doktornámi, Steinunni J. Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði og helsta sérfræðingi landsins á sviði klausturhalds, að uppgreftri að Þingeyrum þar sem langlífasta klaustur Íslandssögunnar var rekið.

Umfjöllun um nunnuklaustrin minni og vanmetur framlag kvenna

Hún segir kveikjuna að doktorsverkefninu áhuga sinn á að auka hlut nunnuklaustra í klausturrannsóknum almennt. Fræðimenn hafi hingað til almennt sýnt þeim minni áhuga þótt vissulega hafi verið fjallað um þau í yfirlitsritum, þar á meðal hér á landi og í Noregi. „Í Niðarósserkibiskupsdæmi var ekki nema fjórðungur allra klaustra sem voru stofnuð á miðöldum nunnuklaustur og þess vegna kemur ef til vill ekki á óvart að þau týnist gjarnan í slíkum umfjöllunum,“ bendir Sigrún á.

Engu að síðu hafi lengi verið tilhneiging til þess að líta á nunnuklaustur sem eins konar jaðarklaustur sem voru óæðri munkaklaustrunum. „Í eldri umfjöllunum eru þau auk þess víða sögð hafa verið illa rekin, abbadísirnar sagðar vanhæfar og nunnurnar jafnvel bendlaðar við syndsamlegan lifnaðarhátt þótt heimildirnar fyrir slíkum fullyrðingum séu ekki sérlega trúverðugar. Einnig má nefna að mjög lítið hefur verið fjallað um textílframleiðslu nunnuklaustranna í samanburði við handritaframleiðslu og mér finnst það mjög skýrt dæmi um það hvernig framlag kvenna til menningar og listar fyrr á öldum hefur verið minna metið en framlag karla,“ segir Sigrún enn fremur.

Þetta altarisklæði, sem sýnir atvik úr ævi heilags Marteins og er nú geymt á Louvre-safninu í París, var áður í kirkjunni að Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er talið hafa verið búið til einhvern tíma á árabilinu 1300-1600, hugsanlega í Reynisstaðarklaustri en ekki er hægt að staðfesta það. Myndin er fengin af vefsíðu Louvre: https://collections.louvre.fr/en/ark:/53355/cl010096504

Mikilvægt að geta nýtt aðferðir fornleifafræðinnar í heimildavinnu

Starf fornleifafræðingsins snýst ekki eingöngu um að leita minja um horfna tíð í jörðu því hvers kyns heimildavinna er ekki síður stór partur af því að varpa nýju ljósi á söguna. Þetta þekkir Sigrún vel úr öðru verkefni sem hún tók þátt í innan Háskólans og nefnist Dysjar hinna dæmdu. Markmið þess var að safna upplýsingum og búa til starfrænt Íslandskort með yfirliti yfir þá tæplega 250 eintaklinga sem teknir voru af lífi hér á landi á árunum 1550-1830. 

Sigrún segir að sér finnist mikilvægt að geta nýtt sér aðferðir fornleifafræðinnar í rannsóknum sem eru ef til vill að miklu leyti sagnfræðilegar í grunninn. „Fyrir utan að greina helstu strauma og stefnur í klausturrannsóknum á Íslandi og Noregi snýst verkefnið að miklu leyti um það að púsla saman þeim brotakenndu heimildum sem til eru um nunnuklaustrin, bæði rituðum heimildum eins og máldögum, sem eru skrár um eignir kirkna og klaustra, og öðrum fornbréfum og niðurstöðum fornleifarannsókna. Markmiðið er að fá skýrari mynd af hlutverki klaustranna, daglegu lífi og framleiðslu innan þeirra, byggingargerð og landnýtingu svo fátt eitt sé nefnt,“ segir hún.

Svarar kalli um aukna rannsóknir á klausturmenningu kvenna

Þótt heimildavinnan skipi stóran sess í rannsókninni reiknar Sigrún þó með að reyna jafnframt að leita merkja um klaustrin á jörðunum þar sem þau stóðu. „Rústir sumra nunnuklaustranna hafa þegar verið rannsakaðar af fornleifafræðingum, þar á meðal rústir Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi, rústir Nonneseter í Björgvin og mögulegar rústir nunnuklausturs í Uunartoqfirði sem tilheyrði Eystribyggð norrænna manna á Grænlandi. Þannig hafa fengist mikilvægar vísbendingar um klaustrin. Ekkert nunnuklaustranna hefur þó verið grafið upp í heild sinni en ég stefni að því að gera ratsjármælingar á einhverjum klausturjörðum. Með slíkum mælingum er hægt að greina rústir sem liggja undir yfirborði jarðar og ef vel tekst til er þannig hægt að fá hugmynd af gerð og umfangi bygginga án þess að grafa þær upp,“ útskýrir hún.

Sigrún hóf doktorsnám sitt á síðasta ári og því liggja ekki fyrir niðurstöður í rannsókninni. Hún segir að það hafi hingað til komið sér mest á óvart hversu lík rannsóknarsaga íslensku og norsku nunnuklaustranna er og að hversu miklu leyti hún einkennist af sömu straumum og stefnum. „Rannsóknin svarar ákalli fræðimanna um auknar rannsóknir á klausturmenningu kvenna og þverþjóðlega nálgun innan þeirra. Ég held líka að kynjafræðilegur vinkill rannsóknarinnar eigi erindi í uppgjörinu við þau karllægu sjónarmið sem hafa ef til vill litað sýn okkar á söguna og stýrt því hvaða þættir þykja áhugaverðir eða merkilegir,“ segir Sigrún að endingu.

Sigrún Hannesdóttir