Skip to main content
1. október 2021

Leita að minjum um ritmenningu miðalda

Leita að minjum um ritmenningu miðalda - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gullhringur og hátískuhúfa frá 17. öld er meðal þess sem fræðimenn og nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands hafa grafið upp í sumar í rústum langlífasta klausturs Íslandssögunnar að Þingeyrum. Markmið uppgraftarins er að varpa ljósi á bókagerð í klaustrinu en þar koma m.a. að gagni tæki og tól sem fornleifafræðin deilir með jarðfræðingum Háskólans.

Það er þrútið loft og rigningarlegt en hlýtt í veðri þegar við tökum hús á Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði, og nemendum hennar síðla ágústmánaðar að Þingeyrum í Austur-Húnavatnssýslu. Útsýnið af þessum forna klausturstað, sem liggur mitt á milli Hóps og Húnavatns, er stórfenglegt til allra átta og þau sem eiga leið um þjóðveg eitt komast varla hjá því að sjá kirkjuna á Þingeyrum þar sem hún lónar eins og bátur mitt á milli vatnanna tveggja. Það er því kannski ekki að undra að Benediktínamunkar hafi valið þar stað fyrir klaustur fyrir hartnær 900 árum.

Þingeyraklaustur tók til starfa árið 1133 og starfaði sleitulaust til 1551 þegar siðskipti urðu á Íslandi og híbýli klaustursins og jarðir þess féllu í hendur Danakonungs. „Við erum að leita að minjum eftir klausturhald hér á staðnum og þá erum við einkum að beina sjónum okkar að ritmenningunni hér. Þingeyraklaustur er þekkt fyrir mikla og merkilega bókagerð á miðöldum og við erum að leita að leifum eftir hana,“ segir Steinunn.

Sjónum er ekki bara beint að leifum af bókunum sjálfum heldur öllu ferlinu í bókagerðinni, allt frá því að nautgripur er ræktaður þar til húð hans verður að bók. „Síðan erum við líka að skoða samspil manns og náttúru, hvaða áhrif þessi bókagerð hafði á umhverfið, og jafnframt samfélagsleg áhrif en þá er ég að tala um svartadauða, hvaða áhrif hafði hann á bókagerðina,“ segir Steinunn um markmið rannsóknanna. 

Steinunn

Steinunn J. Kristjánsdóttir við gröf Jóns Þorleifssonar sem fannst í sumar.

Margra ára verkefni að komast niður á klausturminjar

Uppgröfturinn er hluti af stærra verkefni sem nýtur stuðnings úr sjóði sem heitið Ritmenning íslenskra miðalda. Markmið hans er ekki síst að að efla rannsóknir á heimildum um ritunarstaði miðaldahandrita á Íslandi og þá sérstaklega á þeim lærdómsmiðstöðvum og klaustrum þar sem ritmenning blómstraði, eins og á Þingeyrum.

Sjálf hefur Steinunn leitað að minjum um klaustur stóran hluta starfsævi sinnar, m.a. í Viðey og við Skriðurklaustur, og gaf m.a. út verðlaunabókina „Leitin að klausturunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir“ árið 2017.  „Þetta er þriðja sumarið sem við erum við uppgröft hér á Þingeyrum en við vorum nokkur sumur við forkannanir. Árin 2014-2017 tókum við könnunarskurði og mældum svæðið með jarðsjá og teljum okkur vera búin að undirbúa okkur nokkuð vel þótt það sé alltaf eitthvað sem komi á óvart. Jarðsjármælingar hafa hjálpað okkur einstaklega mikið við að finna hentuga staði til að grafa á,“ segir Steinunn þar sem hún stendur við skika sem hún og nemendur hennar hafa nýverið byrjað að grafa upp.

uppgroftur

Fjórir nemendur hafa unnið að verkefninu með Steinunni í sumar.

Aðspurð segir Steinunn einar 20 bækur varðveittar sem voru unnar á Þingeyrum en ljóst sé að mun fleiri hafi orðið þar til og umsvif á staðnum mikil. Í eitt miðaldahandrit þurfti jafnan 100 kálfskinn og því ljóst að nautgriparækt var stór hluti af rekstri lærdómssetra á miðöldum. 

„Vandinn við uppgröftinn er hversu mikil byggð hefur verið hér í meira í 1000 ár,“ bendir Steinunn á og bætir við að búið sé að kolefnisaldursgreina bein frá staðnum sem virðast vera úr kirkjugarði eða að minnsta kosti kristnum gröfum frá því fyrir klausturtímann.

„Við höfum verið lengi að komast niður á klausturminjarnarnar því það eru svo miklar minjar ofan á þeim,“ segir Steinunn, „Við vorum bara í sumar, á þriðja sumri, að komast niður í klausturminjarnar.“

 „Við höfum lagt áherslu á það í þessu verkefni að skoða samspil manns og náttúru og ég held að við getum lært ýmislegt af því í nútímanum hvernig þetta var áður fyrr. Hvaða áhrif hafði það á náttúruna að vera með stóra bústofna,“ segir Steinunn og bendir á unnið sé að sambærilegum rannsóknum í nágrannalöndunum. „Eins geta rannsóknir okkar á áhrifum svartadauða í kringum 1400 fært okkur þekkingu sem við getum speglað og nýtt í tengslum við farsóttir síðari tíma, eins og t.d. COVID-19.“

Gullhringur og hátískuhúfa meðal þess sem fundist hefur

Ljóst má því vera að verkið er ærið en það hefur þó þegar skilað ýmsum merkilegum munum. „Við fundum í sumar gröf eins klausturhaldarans hér, Jóns Þorleifssonar, og þar var gullhringur, svokallaður innsiglishringur. Jón var líka jarðaður með húfu sem var mikið í  tísku meðal fyrirmenna á þessum tíma,“ segir Steinunn og vísar til síðari hluta 17. aldar en Jón var jarðaður árið 1683. Þessi fundur er talinn meðal merkilegri fornleifafunda á síðari árum en áður hafði fundist við uppgröftinn kirkjukambur sem munkar notuðu í trúarlegum tilgangi ásamt leifum af skóm, bænaperlum og sveskjusteinum sem eru frá tímum klausturhaldara.

hringur

Innsiglishringurinn sem fannst við uppgröft í sumar.

Klaustrið var ekki bara rekið lengst allra klaustra á Íslandi heldur var það líka eitt af þeim farsælustu að sögn Steinunnar. Þrátt fyrir þennan langa rektstartíma sé þó minna varðveitt af heimildum þaðan en t.d. um nágrannaklaustrið að Munkaþverá í Eyjafirði. „Þetta voru tvö stærstu klaustrin í Hólabiskupsdæmi og bæði Benediktínaklaustur þannig að við höfum aðeins getað stuðst við upplýsingar úr Munkaþverárklaustri við vinnu okkar hér, en heimildir um Þingeyraklaustur eru því miður ekki eins nákvæmar.“

Jón Þorleifsson var líka jarðaður með húfu sem var mikið í  tísku meðal fyrirmenna á þessum tíma.

Meðal heimilda sem þó megi finna um klaustrið séu ýmsir samningar sem rannsóknarhópurinn hafi getað nýtt til að túlka það sem finnst á svæðinu. „Við erum að vona að fornleifarnar hjálpi okkur enn frekar og fylli svolítið upp í það sem vantar og við höfum þegar fundið eitthvað af klausturgripum en vonandi finnum líka við eitthvað eftir bókagerðina,“ segir Steinunn um verkefnið sem standa mun til 2024. 

Bókasafn í sýndarveruleika

Uppgröftur sem þessi felur í sér spennandi tækifæri fyrir nemendur Háskólans og þegar okkur bar að garði voru doktorsneminn Sigrún Hannesdóttir, Ómar Valur Jónasson meistaranemi og BA-nemarnir Almar Smári Óskarsson og Klara Ósk Gunnarsdóttir einbeitt að störfum. Sú síðastnefnda vann m.a. að nýsköpunarverkefni með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna í sumar þar sem markmiðið er að gera sýndarveruleikabókasasafn fyrir Þingeyraklaustur. 

Klara

Klara Ósk Gunnarsdóttir, BA-nemi í fornleifafræði.

„Við viljum geta miðlað þessu til almennings og því höfum við verið að setja upp bókasafn eins og við teljum líklegast að klaustrið hafi verið að innan. Þá á fólk að geta labbað inn í herbergi þar sem bækurnar voru, eins og í tölvuleik, og tekið bók að eigin vali upp og skoðað hana, um hvað hún var og þess háttar,“ segir Klara.

Hún bendir á að á tíma klaustursins hafi líklega ekki verið til bókahillur og bækur því mögulega geymdar í kistum eða kistlum með öðrum hlutum. „Þannig að við fengum þá hugmynd að skoða þær kistur á Þjóðminjasafninu sem eru frá svipuðum tíma. Þá getum við séð fyrir okkur hvernig bækurnar hafa getað legið og reynt að gera þetta sem réttast,“ segir Klara sem gerði sér lítið fyrir og lærði kóðun og þrívíddarhönnun til þess að búa til þennan heim sem verður aðgengilegur á Facebook-síðu Þingeyraverkefnisins þegar fram líða stundir.

syndarveruleik

Sýnishorn af sýndarveruleikanum sem Klara hefur hannað.

En það er ekki síður gaman og lærdómsríkt fyrir fornleifafræðinema að fá tækifæri til að stinga skeiðum og höndum í jörðina í von um að finna minjar sem varpað geta nýju ljósi á söguna. „Þetta er náttúrlega bara það besta sem þú getur fengið að gera þegar þú ert að læra fornleifafræði,“ segir Klara glaðbeitt.

Einstakt samstarf við Jarðvísindastofnun

Í nýrri stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er lögð mikil áhersla á samstarf þvert á fræðigreinar og samnýtingu innviða og búnaðar. Steinunn og samstarfsfólk hefur áralanga og góða reynslu af slíku. „Við höfum átt mjög gott samstarf við Jarðvísindastofnun og þá sérstaklega Ármanns Höskuldsson. Námsbraut í fornleifafræði og Jarðvísindastofnun eiga tæki sem við höfum keypt í sameiningu og eins hefur Jarðvísindastofnun lánað okkur tæki,“ segir Steinunn og bætir við: „Mér finnst sjálfri ekki alveg nógu mikill skilningur á því hvað fornleifarannsóknir kosta, ekki síst tækjabúnaður, og það skiptir gríðarlega miklu máli að vera í samstarfi við aðrar stofnanir innan Háskólans eins og verið hefur í okkar tilviki við Jarðvísindastofnun.“

Þá á fornleifafræðin einnig í samtarfi við Egil Erlendsson, prófessor í umhverfisfræðum við Háskóla Íslands, ekki síst þegar kemur að greiningu á frjókornum og gróðri. „Hann hefur stýrt rannsóknum sem snúa að breytingum á gróðurfari með tilkomu Þingeyraklausturs og eins hvað gerist á tímum svartadauða og þegar klaustrinu er lokað,“ segir Steinunn. „Fornleifafræðin er náttúrulega nátengd umhverfisfræðum og einnig jarðvísindum hvers kyns þannig að þetta hefur gefist mjög vel.“

Tæki

„Mér finnst sjálfri ekki alveg nógu mikill skilningur á því hvað fornleifarannsóknir kosta, ekki síst tækjabúnaður.

Þá er ótalinn náinn samstarfsmaður Steinunnar, Gottskálk Þór Jensson, rannsóknardósent við Deild norðurlandafræða og málvísinda við Kaupmannahafnarháskóla og gestaprófessor við Háskóla Íslands. Hann leiðir þann hluta ritmenningarverkefnisins sem snýr að handritum úr Þingeyraklaustri.

Getum lært ýmislegt af fortíðinni

En hvaða máli skipta rannsóknir sem þessar fyrir okkur í nútímanum? „Við höfum lagt áherslu á það í þessu verkefni að skoða samspil manns og náttúru og ég held að við getum lært ýmislegt af því í nútímanum hvernig þetta var áður fyrr. Hvaða áhrif hafði það á náttúruna að vera með stóra bústofna,“ segir Steinunn og bendir á unnið sé að sambærilegum rannsóknum í nágrannalöndunum.

„Eins geta rannsóknir okkar á áhrifum svartadauða í kringum 1400 fært okkur þekkingu sem við getum speglað og nýtt í tengslum við farsóttir síðari tíma, eins og t.d. COVID-19. Svo er einfaldlega mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að þekkja fortíð okkar og sögu,“ segir Steinunn að endingu.

Fólk að störfum