Skip to main content
20. október 2023

HÍ er fjólublár í þágu málþroskaröskunar DLD 

HÍ er fjólublár í þágu málþroskaröskunar DLD  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðalbygging Háskóla Íslands skiptir litum í dag í tilefni alþjóðadags málþroskaröskunar, DLD (e. Developmental Language Disorder). Byggingin er fjólublá sem er litur alþjóðlegs átaks sem stendur yfir í þágu þeirra sem hafa þessa röskun. Þessi dagur er nú haldinn í sjöunda sinn en markmiðið með honum er að vekja athygli á börnum og fullorðnum með málþroskaröskun, DLD en hún á við þegar börn eða fullorðnir eiga í erfiðleikum með að skilja tungumálið og tjá sig. 

Á vefsíðu Máleflis kemur fram að málþroskaröskun DLD sé dulin skerðing. Fólk með þessa röskun geri fleiri villur í máli en flestir, noti einfaldari setningar og eigi erfiðara með að halda uppi og skipuleggja samræður. Afleiðinga röskunarinnar gæti víða en mörg hver eiga erfitt með nám og einangrast félagslega svo dæmi séu tekin. Þessir erfiðleikar séu ekki alltaf augljósir þeim sem ekki hafa sérhæft sig á þessu sviði.

Málþroskaröskun DLD er taugaþroskaröskun sem kemur oftast snemma fram hjá börnum og eldist ekki af þeim. Einkenni röskunarinnar viðhaldast þannig fram á fullorðinsár en eru breytileg eftir aldri og álagi í málþroska á hverjum tíma. Röskunin kemur fram hjá fólki um allan heim, óháð því hvaða tungumál það talar eða fjölda tungumála sem það talar. Eitt af hverjum fjórtán börnum er með málþroskaröskun DLD samkvæmt niðurstöðum rannsókna og er hún þannig með algengari taugaþroskaröskunum. Samt er ekki nægileg almenn vitneskja um þessa röskun. Með því að lýsa Aðalbyggingu HÍ er verið að beina sjónum fólks að málþroskaröskun DLD sem þarfnist athygli en hún getur haft áhrif á félagslega og tilfinningalega velferð einstaklinga og hvernig þeim vegnar í lífinu, jafnt í skóla sem vinnu.

Aðalbygging HÍ er lýst í samstarfi við samtökin Málefli sem voru stofnuð þann 16. september 2009. Markmið þeirra er að vekja athygli á nauðsynlegri þjónustu við börn með tal- og/eða málþroskaröskun DLD, fræða aðstandendur og fagfólk, vinna að auknum réttindum barna með tal- og/eða málþroskaröskun DLD og hvetja til rannsókna tengdum málefninu.

Málþroskapróf þróað við HÍ

Innan Háskóla Íslands hafa verið stundaðar rannsóknir sem tengjast málþroskaröskun DLD. Máltakan er að margra dómi sjálfgefin en hún er í raun mikið undur sem smám saman gerir okkur manneskjunum kleift að tjá okkur hvert við annað um stórt og smátt. Málþroski er undirstaða málfærninnar sem í raun vex með okkur ævina á enda. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að allir nái tökum á málinu með sama hætti og á sama hraða eins og fram kom hér að framan. Þess vegna er mjög mikilvægt að meta málþroska og málfærni snemma til að geta brugðist við ef veita þarf börnum stuðning við máltöku svo þau eigi sem besta möguleika á því að halda í við jafnaldra.
 
„Það er afar mikilvægt að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um málþroska barna til að finna börn sem glíma við málþroskaröskun svo hægt sé að aðstoða þau sem á því þurfa að halda og veita þeim þjálfun svo þau nái jafnöldrum sínum,“ segir Þóra Másdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands, sem hefur unnið að nýju málþroskaprófi sem ætlað er að meta málfærni leikskólabarna á aldrinum fjögurra til sex ára. Höfundar prófsins eru ásamt henni þau Jóhanna T. Einarsdóttir, prófessor við Læknadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingur og Sigurgrímur Skúlason aðjunkt. 

Lesa má nánar um verkefni þeirra hér. 

Nánari upplýsingar um málþroskaröskun eða DLD er að finna á vefsíðu Máleflis.
 

Aðalbygging fjólublá