Skip to main content
15. febrúar 2021

Þróar nýtt málþroskapróf  

Þróar nýtt málþroskapróf   - á vefsíðu Háskóla Íslands

Máltakan er að margra dómi sjálfgefin en hún er í raun mikið undur sem smám saman gerir okkur manneskjunum kleift að tjá okkur hvert við annað um stórt og smátt. Málþroski er undirstaða málfærninnar sem í raun vex með okkur ævina á enda. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að allir nái tökum á málinu með sama hætti og á sama hraða. Þess vegna er mjög mikilvægt að meta málþroska og málfærni snemma til að geta brugðist við ef veita þarf börnum stuðning við máltöku. 

„Það er afar mikilvægt að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um málþroska barna til að finna börn sem glíma við málþroskaröskun svo hægt sé að aðstoða þau sem á því þurfa að halda og veita þeim þjálfun svo þau nái jafnöldrum sínum.“ 

Þetta segir Þóra Másdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands, sem nú vinnur að nýju málþroskaprófi sem ætlað er að meta málfærni leikskólabarna á aldrinum fjögurra til sex ára. Höfundar prófsins eru ásamt henni þau Jóhanna T. Einarsdóttir, dósent í talmeinafræði við Háskóla Íslands, Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingur og Sigurgrímur Skúlason, aðjunkt við Sálfræðideild.

Próf sem tekur mið af íslenskunni

Þóra hefur haft hljóðþróun barna og frávik í tali og framburði í fókus í sínum rannsóknum. Hún hefur einnig unnið áður við að þróa og staðla málþroskapróf. Nú þegar eru tvö málþroskapróf komin út með hennar aðkomu og þetta sem nú er í þróun verður það þriðja í röðinni. Til viðbótar þessu eru hún og samstarfsfólk hennar að hefja vinnu á málþroskaprófi fyrir sex til tíu ára börn. Ekki þarf að fjölyrða um samfélagslegt mikilvægi þess að þróa þessi próf. 

„Eldri málþroskapróf sem talmeinafræðingar nota eru komin til ára sinna auk þess sem þau eru þýdd og staðfærð og byggjast ekki endilega á íslenskum máltökurannsóknum,“ segir Þóra þegar hún er spurð um forsendur þessa verkefnis. „Við höfundarnir vildum hanna próf sem styðst við rannsóknir á íslensku og sem byggist á grunnþáttum tungumálsins.“

Skort hafi áreiðanleg og réttmæt mælitæki hér til að meta málþroska íslenskumælandi barna og markmiðið sé að þróa slíkt mælitæki. „Talmeinafræðinga hefur vantað slíkt próf sem ætlað er börnum á aldrinum fjögurra til sex ára. Við höfundarnir gerum okkur vonir um að prófið endurspegli almennan málþroska hjá þessum aldurshópi óháð búsetu. Með því færumst við nær því að veita börnum með málþroskaröskun á þessum aldri viðeigandi aðstoð,“ segir Þóra. 

Gagnreyndar rannsóknir mikilvægar

Gagnkvæm tjáning er grundvöllur nánast alls sem við sýslum í mannlegum samskiptum. Þess vegna eru rannsóknir á málþroska svo mikilvægar. Þóra segir að enn sé unnið að stöðlun prófsins en það hafi nú verið lagt fyrir um 750 börn en í heildina verði úrtakið um 850 börn. Hún segir að nemendur í talmeinafræði hafi einnig komið að verkefninu með því að gera nokkrar rannsóknir á prófinu, einkum á áreiðanleika þess og réttmæti.

„Á sviði talmeinafræðinnar er mikilvægt að notast við gagnreyndar rannsóknir þegar kemur að því að veita skjólstæðingum, börnum og fullorðnum, aðstoð ef þeir glíma við tjáskiptaraskanir,“ segir Þóra. „Til þess að svo megi verða þurfum við að geta greint á áreiðanlegan hátt þá sem þurfa á þjónustu talmeinafræðings að halda. Þess vegna eru áreiðanleg og réttmæt mælitæki ómetanleg í verkfærakistu talmeinafræðingsins.“

Þóra Másdóttir