Skip to main content
30. maí 2023

Háskóli framtíðarinnar - Kennsluþróun í anda Aurora-hugsjónar 

Háskóli framtíðarinnar - Kennsluþróun í anda Aurora-hugsjónar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

AURORA er bandalag evrópskra rannsóknaháskóla sem vinnur að því að koma á laggirnar háskóla framtíðarinnar með markvissri kennsluþróun og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum nútímans. 

Markmið Aurora er að útskrifa nemendur með þá hæfni og það hugarfar sem nauðsynlegt er fyrir komandi kynslóðir til að þrífast í síbreytilegum samfélögum og á kvikum vinnumarkaði. Auk þess er lögð áhersla á að nemendur skólanna tileinki sér frumkvöðla- og nýsköpunarfærni og búi yfir því hugarfari og drifkrafti sem þarf til að takast á við þær miklu samfélagsbreytingar sem heimurinn stendur frammi fyrir. 

Viltu taka þátt í að skapa háskóla framtíðarinnar? 

„Aurora-samstarfið er metnaðarfullt verkefni sem hefur tekið mörg ár að þróa. Fyrsti áfangi verkefnisins hefur einkennst af mikilli vinnu starfsfólks skólanna, stjórnsýslu jafnt sem akademísks starfsfólks, við að stilla saman strengi ólíkra stofnana og finna flöt á samvinnu skólanna,“ segir Sandra Berg Cepero, verkefnisstjóri Aurora á Kennslusviði HÍ. Teymi skólanna voru sett saman og samstarfsverkefni skilgreind. Sandra segir að næsti áfangi verði meira sniðinn að efnivið samstarfsins, hinni eiginlegu vinnu við að skapa Auroranámskeið, mynda fræðileg tengsl þvert á skólana og starfs- og kennsluþróun kennara. Jafnframt verður einnig mikil áhersla lögð á kynningarefni um menntasýn og hugsjón Aurora. „Kennarar eru hvattir til að fylgjast vel með og geta alltaf haft samband við mig (sandra@hi.is) ef áhugi er fyrir hendi að kynna sér kennsluþróun Aurora betur og jafnvel taka þátt í gerð Aurora-námskeiða, sameiginlegum námsleiðum eða öðrum spennandi tækifærum sem snúa að samstarfinu.“   

„Aurora-samstarfið er metnaðarfullt verkefni sem hefur tekið mörg ár að þróa. Fyrsti áfangi verkefnisins hefur einkennst af mikilli vinnu starfsfólks skólanna, stjórnsýslu jafnt sem akademísks starfsfólks, við að stilla saman strengi ólíkra stofnana og finna flöt á samvinnu skólanna,“ segir Sandra Berg Cepero, verkefnisstjóri Aurora á Kennslusviði HÍ.

Menntasýn Aurora í námi og kennslu 

Vettvangur samstarfsins verður stafrænn og byggist fyrst og fremst á stafrænu háskólasvæði (e. virtual campus) þar sem nemendur og starfsfólk fá tækifæri til hreyfanleika (e. mobility) á ýmsum sviðum og með ólíkum útfærslum. Nám og kennsla mun raungerast á þeim vettvangi og auðvelda mjög hönnun og þróun sameiginlegra námskeiða og prófgráða í anda Aurora-hugsjónarinnar. Til að ná fram hugsjónum sínum hefur Aurora sína eigin menntasýn að leiðarljósi sem styður við markmið hennar og framkvæmd þeirra. 

Menntasýn Aurora byggist á fjórum lykilþáttum; heimsmarkmiðum SÞ, kennsluþróun, hæfni nemenda og alþjóðavæðingu náms og er samstarfsskólum ætlað að: 

  • Takast á við samfélagslegar þarfir og áskoranir og finna rannsóknarefni þvert á hefðbundin akademísk landamæri fræðigreina. 
  • Innleiða nemendamiðaðar og inngildandi náms-og kennsluaðferðir. 
  • Efla námslega og persónulega hæfni nemenda, ekki síður en faglega færni. 
  • Nota alþjóðavæðingu náms til að auka gæði náms og hæfni nemenda.

Háskóli framtíðar

Háskólar Aurora-bandalagsins eru tíu talsins og ólíkar stofnanir að gerð og inntaki en sjá hag sinn í samvinnu í þágu samfélagslegra áhrifa með því að nýta sér tækniframfarir til að efla nám, kennslu og rannsóknir. Starfsfólk skólanna fær tækifæri til að kynnast nýjum kennsluaðferðum, taka þátt í viðburðum erlendis, laða að alþjóðlega nemendur í námskeið og finna evrópska samstarfsaðila í rannsóknum og kennslu. 

Háskóli Íslands hefur verið virkur þátttakandi í samstarfinu frá upphafi, eða frá 2016. Áhersla hefur verið lögð á að auka fjölbreytni í námsvali og stuðla að samstarfi og nýsköpun í námi og kennslu. Dæmi um slíkt er t.d. námskeið sem sumir skólanna hafa boðið upp á og eru opin nemendum Aurora-skólanna. Auk þess hefur kennurum staðið til boða að sækja Aurora-vinnustofur í kennsluþróun sem veita mikilvæg tækifæri til að þróa sig í starfi. „Þannig munu þessar kennsluaðferðir og verkfæri veita kennurum tækifæri til kennsluþróunar þar sem samfélagslegar breytingar eru drifkrafturinn, hönnun og miðlun námskeiða nútímaleg og alþjóðavæðing náms og kennslu í brennidepli,“ segir Sandra að lokum.

""