Skip to main content
3. nóvember 2023

Fjarnám í safnafræði í stöðugri þróun

Fjarnám í safnafræði í stöðugri þróun - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Stefna okkar í safnafræðinni er að bjóða upp á nám sem er krefjandi, hagnýtt og talar inn í málefni líðandi stundar. Við teljum að fjarnám sé besta leiðin til að ná fram þeim markmiðum. Það krefst sjálfsaga og skipulags af nemendum en gerir þeim einnig kleift að móta námið að eigin þörfum,“ segir Guðrún Dröfn Whitehead, lektor í safnafræði, en námsleiðin hefur nú eingöngu verið í boði í fjarnámi undanfarin sjö ár. Guðrún ræddi við okkur um helstu áskoranir við þróun fjarnámsins og þau fjölbreyttu tækifæri sem bíða útskrifaðra að loknu námi.

Háskóli Íslands vinnur nú að því að fjölga þeim námsleiðum sem eru í boði í fjarnámi og við þá vinnu er m.a. tekið mið af þeim leiðum sem þegar eru í boði og hafa notið vinsælda. Safnafræði er þar á meðal en námsleiðin er á framhaldsstigi og býðst bæði sem styttra diplómanám, sem meistaranám og jafnframt doktorsnám.

Guðrún segir að frá árinu 2009 hafi verið boðið upp á þann möguleika að stunda nám í safnafræði í jafnt fjarnámi sem staðnámi. „Árið 2014 var orðið ljóst að töluverður hluti nemenda var skráður í fjarnám og ég var því fengin til þess að vinna skýrslu þar sem staða fjarnáms í námsbraut var tekin saman og metin. Niðurstöðurnar leiddu í ljós nauðsyn þess að huga betur að þörfum fjarnemenda og hvers konar fjarnám væri í boði. Í ljósi þess var sú ákvörðun tekin að hanna námslínuna í safnafræði alfarið út frá forsendum fjarkennslu,” segir Guðrún en boðið hefur verið upp á öll kjarnanámskeið í safnafræði eingöngu í fjarnámi frá árinu 2016.

Að sögn Guðrúnar fylgja náminu staðlotur eins og flestu öðru fjarnámi og leitast er við að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti í fyrirlestrum og verkefnum í náminu. „Staðlotur mynda kjarna í öllum námskeiðum og samanstanda af eins til þriggja daga fyrirlestrum og leiðsögnum frá reyndum sérfræðingum sem vinna á söfnum og vinnu nemenda við hagnýt verkefni. Staðloturnar hafa verið unnar í náinni samvinnu við fjölmörg söfn víða um landið,“ útskýrir Guðrún og bætir við að í staðlotu geti líka falist að mæta á tilteknum tíma á Zoom. „Við fáum fyrirlestra frá erlendum og innlendum sérfræðingum, starfandi í háskólum, söfnum og öðrum tengdum stofnunum.“ 

Samhæft átak kennara og virkt samtal við nemendur

Aðspurð segir Guðrún að samhæft átak fastra kennara og stundakennara hafi gert það kleift að færa námsleiðina alfarið í fjarnám. „Virkt samtal við nemendur og söfn í landinu skiptir einnig mjög miklu máli. Við höfum unnið í samstarfi við Kennslumiðstöð frá upphafi, sótt þangað aðstoð, stuðning og sérþekkingu, auk þess sem við sækjum styrki til að bæta námið,“ bætir hún við.  
 
Þá hefur námsbrautin enn fremur aflað styrkja til tækjakaupa fyrir fjarnámið og aðstandendur kynnt sér vel slíka kennslu í erlendum háskólum. „Við hlutum einnig styrk 2022 til að auka gæði í fjarnámi, sem nýttur var til þess að vinna rannsókn á viðhorfum fyrri og núverandi nemenda gagnvart því fjarnámi sem er í boði með það fyrir augum að þróun námsins í framtíðinni taki mið af þörfum nemenda,“ segir Guðrún og bætir við að deildin hyggist einnig vinna með námsbraut í upplýsingafræði að sameiginlegri stefnumörkun í fjarnámi innan Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideildar. 

Samstarf við samfélagið, og þá sérstaklega söfn um allt land, myndar ákveðinn grunn í náminu sem veitir nemendum í senn fræðilega, faglega og hagnýta þjálfun.

Náið samstarf við söfn landsins

Eins og nafn námsleiðarinnar bendir til er áhersla í lögð á að gefa nemendum kost á að kynnast ítarlega safnastarfi hér á landi en jafnframt að fylgjast með því sem hæst ber erlendis. Nemendur koma úr afar ólíkum greinum að sögn Guðrúnar. „Safnafræði, listfræði, kennslufræði, sýningarstjórnun, hagnýtri menningarmiðlun, sagnfræði, þjóðfræði, viðskiptafræði, náttúruvísindum og fleiri greinum.“

Í nemendahópnum er fólk sem starfar nú þegar á söfnum og er að sækja sér viðbótarmenntun, starfi sínu til framdráttar. „Einnig sækja til okkar þeir sem hafa áhuga á að starfa á söfnum og öðrum menningarstofnunum, þeir sem hafa áhuga á miðlun, menningarmálum, íslensku samfélagi og fleira. Þá fáum við til okkar nemendur sem hafa áhuga á að læra að miðla því efni sem það kynnist í öðru námi Háskóla Íslands,“ segir Guðrún.

Söfn af ýmsu tagi eru eins og gefur að skilja vinsæll vettvangur útskrifaðra. „Nemendur sem lokið hafa MA-námi í safnafræði hafa seytlast út í atvinnulífið og eru þar virkir þátttakendur. Eins og gefur að skilja hafa margir haslað sér völl á vettvangi safna og þar á meðal er að finna safnstjóra og sérfræðinga á ýmsum sviðum safnastarfs. Nokkrir af okkar fyrri nemendum eru í lykilstöðum í menningarmálum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Þá nemendur hafa einnig sótt í annað framhaldsnám eftir útskrift eða lokið doktorsgráðu í greininni,“ bendir Guðrún á.

Hvað segja nemendur um námið? – Myndband

Mikilvægt að bjóða upp á nám óháð búsetu

Ýmsar áskoranir felast í þróun fjarnámsins, að sögn Guðrúnar, sem helgast m.a. af skorti á tíma, mannafla, fé og sérþekkingu. Tveir fastráðnir starfmenn við námsbrautina nái ekki að sinna öllum þeim verkefnum sem þeir vilja. „Við erum með mjög virkan og skemmtilegan hóp á Facebook, umræðuvettvang um safnafræði, þar sem lifandi umræður fara fram um menningarmál á Íslandi. Við erum með Facebook- og Instagram-síðu, en höfum ekki fyllilega áttað okkur á því hvernig við getum nýtt þær síður okkur til framdráttar og lítinn tíma til að móta stefnu í þeim málum. Það er einnig nauðsynlegt að auka enn samtalið um kosti fjarnáms innan Háskóla Íslands og finna leiðir til þess að vinna enn betur með námsleiðum sem ekki eru kenndar í fjarnámi,“ segir Guðrún. 

Samstarf við samfélagið, og þá sérstaklega söfn um allt land, myndar ákveðinn grunn í náminu sem veitir nemendum í senn fræðilega, faglega og hagnýta þjálfun. „Við erum stöðugt að þróa námið, með hliðsjón af fjarnámskennslu við innlenda og erlenda háskóla, auk okkar eigin reynslu og með tilliti til kennslufræðinnar, þarfa nemenda, safna og samfélagsins í heild. Við teljum mikilvægt að bjóða upp á nám sem hentar fólki óháð búsetu og að tekið sé tillit til þess að meirihluti nemenda vinnur með námi. Með því að bjóða einungis upp á fjarnám er hægt að þróa nám sem er sérhæft, fjölbreytt og gefur öllum nemendum svigrúm til að sinna náminu óháð persónulegum aðstæðum,“ segir Guðrún að endingu.
  
Safnafræði á Facebook

Safnafræði á YouTube

Fjarnám í Háskóla Íslands

Guðrún Dröfn Whitehead