Safnafræði - Viðbótardiplóma


Safnafræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Viðbótardiplómanám í safnafræði er stutt en gagnlegt nám sem veitir nemendum hagnýta þekkingu á safnastarfi.
Safnafræði er fræðigrein sem tekur til allra þátta safnastarfs og er bæði fjölbreytt og yfirgripsmikil.
Skipulag náms
- Vor
- Safn og samfélag: Sirkus dauðans?
- Inngangur að sýningarstjórnun
- Faglegt starf: Tilvik og álitamál
- Varðveisla safngripa og fyrirbyggjandi forvarslaB
Safn og samfélag: Sirkus dauðans? (SAF603M)
Fjallað verður um samfélagslegt hlutverk safna út frá margvíslegum sjónarhornum: efnahagslegum, pólitískum, menningarlegum, félagslegum og síðast en ekki síst alþjóðlegum. Fjallað verður meðal annars um hlutverk safna í hugmyndinni um þjóð, lagalegt umhverfi safna, rekstrarform, staða og hlutverk þjóðarsafna, safna í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkafyrirtækja, fjármögnun safnastarfs, stefna yfirvalda í málefnum safna, söfn og mannréttindi, söfn og áföll (trauma), kynjahugmyndir og fleira. Í námskeiðinu er einnig hugað að möguleikum safna á að virkja fólk og samfélög til þátttöku í starfsemi þeirra eins og söfnun, heimildaöflun, sýningarstjórnun, sýningargerð og annarri miðlun. Skoðuð verða innlend og erlend dæmi. Eftir því sem því verður komið við, eru farnar ein til tvær vettvangsferðir. Námskeiðið er eingöngu kennt í fjarnámi.
Inngangur að sýningarstjórnun (SAF019F)
Fjallað verður um helstu atriði sýningargerðar og störf sýningarhöfundar, sýningarstjóra og sýningarhönnuðar. Mismunandi aðferðir við sýningastjórnun verða skoðaðar með gagnrýnum hætti og hugmyndafræðilegur grunnur sýninga kannaður. Áhersla verður lögð á frásagnarafbrigði sýninga, handritsgerð og miðlunarleiðir. Einnig verður lögð áhersla á að skoða og greina sýningar listasafna, menningarminjasafna og náttúruminjasafna og kanna með gagnrýnu hugarfari hvernig ólíkar leiðir miðla upplýsingum og upplifunum. Hugað verður að innlendum og erlendum dæmum.
Faglegt starf: Tilvik og álitamál (SAF011F)
Í námskeiðinu verða tilvik tengd safnastarfi á Íslandi rædd út frá faglegum álitamálum, með tilvísun í þverfræðilegt lesefni og umræður. Námskeiðið hentar því nemendum úr greinum eins og safnafræði, fornleifafræði, listfræði, menningarfræði, mannfræði, þjóðfræði og fleiri. Tilvikin tengjast fjölbreyttu starfi safna, svo sem stjórnun, skipulagi, söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun.
Einnig verður í námskeiðinu fjallað um mat á starfsemi safna, bæði út frá safngestinum og einnig sjálfsmat (aðferðir og úrvinnsla), sem og stjórnunarlegum þáttum í safnastarfi. Umræðuefni álitamála eru mjög fjölbreytileg, svo sem STJÓRNSÝSLA, kynjamál, aðgengismál, varðveisla fornleifa, rannsóknir á sjónrænum menningararfi, tjáningarfrelsi, húsnæðismál, gjafir til safna og grisjun.
Námskeiðið er unnið í samvinnu við helstu safnastofnanir í landinu sem hafa yfir að ráða fjölda sérfræðinga um aðskiljanlegustu þætti í safnastarfi. Í staðlotum námskeiðsins munu sérfræðingar miðla af reynslu sinni með raunverulegum dæmum úr störfum sínum á söfnum innanlands og erlendis.
Nemendur velja einn dag yfir önnina til þess að mæta í starfsdag hjá safni á höfuðborgarsvæðinu (tveir og tveir nemendur í einu). Starfsmaður mun taka á móti þeim, fræða um starfsemi safnsins og veita þeim grunnþjálfun í skráningu. Nemendur vinna svo með starfsmanni það sem eftir er af degi.
Námskeiðið skiptist í fimm fyrirlestralotur; í hverri þeirra verða aðgengilegar upptökur á Canvas örfyrirlestrar og stuttar kynningar á lesefni frá kennara og gestafyrirlesara. Þrjár staðlotur/Zoomlotur (eftir aðstæðum) verða yfir misserið, þar sem hlustað er á gestafyrirlesara, sérfræðingar innan safna sem miðla af reynslu sinni, og/eða sem farið verður í vettvangsferðir á söfn í Reykjavík. Skyldumæting er í stað- og zoomlotur. Námsmat byggist á verkefnavinnu yfir misserið, mætingu í stað/zoomlotur og starfsdegi.
Varðveisla safngripa og fyrirbyggjandi forvarsla (SAF206F)
Ein ástæða fyrir tilvist safna er sú að safngripir hafa varðveist í gegnum aldirnar. Kröfur nútímans um að menningararfur sé ávallt aðgengilegur og sýnilegur eru sífellt að aukast. Því fylgir aukið álag á gripi (meðhöndlun og umhverfisbreytingar) og aukin hætta á því að þeir verði fyrir skemmdum. Á námskeiðinu verður farið yfir varðveisluaðferðir sem söfn nota til að tryggja framtíðarvarðveislu safngripa. Nemendur læra að skoða safngripi út frá þeim efnum sem þeir eru gerðir úr, meta ástand þeirra, mæla ljós, raka-og hitastig og finna hvaða umhverfisskilyrði henta gripum til varðveislu og sýninga. Námskeiðið er unnið í samstarfi við söfn á Reykjavíkursvæðinu. Námskeiðið er kennt í staðnámi á miðvikudögum og fimmtudögum 9.-24. mars með fyrirlestrum, umræðum og verkefnatímum. Námsmat byggir á mætingu (skylda), þátttöku og úrlausn verkefna.
Hafðu samband
Nemendaþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500 nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemendaþjónustu Félagsvísindasviðs
Fylgstu með Félagsvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.