Skip to main content
21. febrúar 2023

Áhugi og ástríða fyrir að vinna náið með fólki

Áhugi og ástríða fyrir að vinna náið með fólki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Áhugi og ástríða fyrir að vinna náið með fólki varð til þess að Kristófer Kristófersson ákvað að venda kvæði sínu í kross eftir viðskiptafræðinám og skrá sig í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Hann brautskráðist föstudaginn 17. febrúar með hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið í BS-námi í hjúkrunarfræði og stefnir ótrauður á það að starfa innan heilbrigðisgeirans þar sem hann hefur unað sér vel undanfarin þrjú ár.

Saga Kristófers er um margt einstök því ekki einungis náði hann frábærum námsárangri heldur lauk hjúkrunarfræðináminu á þremur og hálfu ári í stað fjögurra eins og venja er. Þá lét hann enn fremur til sín taka í starfi deildarinnar og sat m.a. í námsnefnd grunnnáms öll árin sem hann nam við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Árangur hans í náminu vakti mikla athygli og hafa fjölmargir fjölmiðlar rætt við hann á undanförnum dögum.

Upphaflega stóð hugur Kristófers til annars náms innan heilbrigðisvísindanna, nefnilega læknisfræði en hann lauk tveimur árum í þeirri grein að lokinni útskrift úr MR. „Það gekk vel í því námi og ég grínast kannski smá með það í dag að þar hafi metnaðurinn kannski verið fullmikill því eftir tvö ár fann ég að ég var svolítið hugsi yfir því hvert ég stefndi. Ég kenni því ef til vill um að hafa ekki fundið nægilega gott jafnvægi milli náms og þess að rækta sjálfan mig ef ég á að vera hreinskilinn. Ég ætlaði því að taka pásu og koma aftur í læknisfræðina en ég fann einhvern veginn að ég var ekki tilbúinn í það þá,” útskýrir Kristófer. 

Einnig með ágætiseinkunn í viðskiptafræði

Hann ákvað því að fara í nám sem gæti opnað honum fjölbreytta möguleika og valdi viðskiptafræði við HÍ. „Með grunnnáminu í viðskiptafræði vann ég við sölustörf og fjármál og hjá fyrirtæki við innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfi í tengslum við BS-verkefnið mitt,“ segir Kristófer sem virðist brillera hvar sem hann nemur því hann fékk einnig viðurkenningu fyrir að útskrifast með ágætiseinkunn í BS-námi í viðskiptafræði.

Eftir grunnnám tók við meistaranám í markaðsfræði við Háskólann í Reykjavík sem leiddi hann út í störf að markaðsmálum. „Svo má segja að ég hafi farið heilan hring eftir að hafa unnið í þeim geira því ég fann það hjá sjálfum mér að áhugi minn og ástríða var frekar að vinna meira náið með fólki. Á þessum tíma hafði mér aldrei dottið í hug að fara í hjúkrunarfræði og var jafnvel að hugsa um að fara í læknisfræðina aftur en eftir að ég hugsaði um nokkrar breytur, eins hvar ég væri á mínu lífskeiði, mína fyrri reynslu úr viðskiptafræði og ýmislegt annað þá varð hjúkrunarfræði fyrir valinu og ég hef ekki séð eftir því í eitt augnablik,“ segir Kristófer.

Kristofer

Hjúkrunarfræði er fyrir öll

Stærstur hluti nemenda í hjúkrunarfræði eru konur en stjórnvöld og háskólar hafa um langt skeið unnið að því að fjölga körlum í greininni. Að sögn Kristófers var afar vel tekið á móti honum. „Það er kannski tekið meira eftir strákum tekið þar sem þeir eru fáir. Á mínu ári erum við ekki margir og náum ekki 5% af heildarfjöldanum. Ég hef stundum heyrt það að strákar í hjúkrun fái meiri athygli en aðrir nemendur og það er kannski rétt en við þurfum að passa upp á koma eins fram við alla burtséð frá kyni og öðrum þáttum,“ bendir Kristófer á.

Hann segist hafa vanist því fljótt að nemendahópurinn hafi oft verið ávarpaður „stelpur mínar“ og það hafi alls ekki truflað hann „en við þurfum að vanda okkur þegar við tölum og senda sömu skilaboð til stéttarinnar inn á við eins og við erum að reyna senda út á við með því að reyna draga það fram að hjúkrunarfræði sé fyrir öll kyn.“ 

Aðspurður um hvers vegna hann telji að svo fáir strákar sæki í hjúkrunarfræði segist Kristófer telja að mörgum karlmönnum detti hjúkrunarfræði hreinlega ekki í hug sem starfsvettvang fyrir sig. „Það var alla vega þannig í mínu tilfelli þegar ég var yngri. Það er ekki til nein töfralausn í þessu en ég held við verðum bara halda áfram að reyna sýna fram á það að hjúkrun sé fyrir öll, ekki bara kvenfólk. Strákar í hjúkrun er verkefni sem hefur verið í gangi í nokkur ár með það að markmiði að opna augu stráka fyrir þessu. Þá held ég að við verðum að reyna kveikja þessi ljós hjá yngstu börnunum og sýna börnum að öll geta verið hjúkrunarfræðingar, ekki bara konur,“ segir Kristófer spurður um leiðir til að fjölga körlum í stéttinni. 

Kristófer tekur við brautskráningarskírteini sínu í Háskólabíói á föstudag. „Ég man varla eftir leiðinlegu augnabliki og maður er búinn að fá að kynnast ótrúlega góðu fólki, bæði samstúdentum og kennurum sem ég er afar þakklátur fyrir og hlakka til að starfa með í framtíðinni. Ég veit að Ísland er að fá fullt af afar metnaðarfullum og duglegum hjúkrunarfræðingum til starfa árið 2023,“ segir hann. MYND/Kristinn Ingvarsson

Fjöldi metnaðarfullra hjúkrunarfræðinga á leið til starfa

Sjálfur segist Kristófer hafa haft mjög gaman af náminu. „Ég man varla eftir leiðinlegu augnabliki og maður er búinn að fá að kynnast ótrúlega góðu fólki, bæði samstúdentum og kennurum sem ég er afar þakklátur fyrir og hlakka til að starfa með í framtíðinni. Ég veit að Ísland er að fá fullt af afar metnaðarfullum og duglegum hjúkrunarfræðingum til starfa árið 2023. Það heillaði mig líka mikið hvað maður fékk að kynnast heilbrigðiskerfinu á mörgum stöðum í verknámi og mér fannst sá tími sem maður er í því afar dýrmætur en einnig krefjandi. Það er ekkert auðvelt að skipta um „vinnustað“ á tveggja til þriggja vikna fresti í 5 mánuði en maður þroskaðist afar mikið faglega á þessum tíma,“ bætir hann við.

Sem fyrr segir lauk Kristófer náminu á þremur og hálfu ári og aðspurður þakkar hann sveigjanleika deildarinnar það. „Það hafa margir spurt mig hvort ég sé á tveggja ára leiðinni sem HÍ býður upp á í hjúkrunarfræði en ég fór hefðbundnu fjögurra ára leiðina,“ segir Kristófer og vísar í nýlega tveggja ára námsleið í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem lokið hefur öðru háskólaprófi áður.

„Tveggja ára leiðin var ekki byrjuð þegar ég hóf nám og ég vildi svo fylgja mínum árgangi. Ég náði að útskrifast núna í febrúar vegna þess að Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ hefur verið það sveigjanleg að meta þætti úr fyrra námi, hvort sem fólk fer tveggja ára eða fjögurra ára leiðina, og ég hvet fólk sem er með aðra háskólagráðu eindregið að kynna sér hvort tveggja ef það hefur áhuga á því að fara vinna við hjúkrunarfræði,“ segir Kristófer.

kristofer i hjukrun

Vinnur með frábæru fólki á móttökugeðdeild fíknimeðferðar

Kristófer hefur samhliða námi starfað á geðsviði Landspítalans frá árinu 2020. Hann segist ætla starfa þar áfram nú þegar hann hefur brautskráðst sem hjúkrunarfræðingur. „Mér líkar mjög vel í vinnunni og starfa með frábæru og skemmtilegu samstarfsfólki á Móttökugeðdeild fíknimeðferðar. Enginn dagur er eins og þverfagleg samvinna er alveg til fyrirmyndar sem ég er sérstaklega ánægður með.“

Þrjár háskólagráður mikið afrek og því vaknar spurning hvort frekara nám sé á döfinni. „Það er orðið smá grín hjá sumum að ég verði að enda í fimm af augljósum ástæðum fyrir þau sem horfðu á Næturvaktina,“ segir Kristófer kíminn þegar hann vísar í einn frægasta karakter íslenskrar þáttagerðar, Georg Bjarnfreðarson. „Hver veit nema maður bæti einhverju við sig seinna! Ég ætla þó að byrja á því að fagna þessum áfanga núna og njóta þess en það er ekkert leyndarmál að mér finnst gaman í skóla.“

Háskóli Íslands óskar Kristófer og öllum brautskráningarkandídötum innilega til hamingju með áfangann og velgengni í þeim verkefnum sem taka við að lokinni útskrif.

Kristófer með brautskráningarskírteinið í Háskólabíói