Skip to main content
8. maí 2023

Aflýst! - Ungar konur og samfélagsmiðlar í brennidepli í erindi HÍ

Aflýst! - Ungar konur og samfélagsmiðlar í brennidepli í erindi HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stelpur sem sækja í netmiðla upplifa mikinn kvíða og þrýsting um að vinna með líkama sína og hugarfar. Þetta sýna rannsóknir dr. Rosalind Gill, prófessors við City háskólann í Bretlandi, sem heldur erindið Undir smásjánni: Ungar konur og samfélagsmiðlar 10. maí kl. 12 í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnar viðburðinn.

Rosalind Gill er heimsþekktur félagssálfræðingur. Hún hefur gert umfangsmiklar rannsóknir á fjöl- og samfélagsmiðlum og áhrif þeirra á mótun sjálfsmyndar. Hún hefur enn fremur verið leiðandi í feminískri umræðu um jafnréttismál, móðurhlutverkið, ungar konur og þann þrýsting sem þær upplifa í nútíma samfélagi.

Í fyrirlestrinum mun dr. Gill greina þá menningu og samfélag sem ungar konur/stelpur lifa og hrærast í á netmiðlum. Í neyslusamfélagi nútímans er oft erfitt að greina anga og virkni valdsins og þá sérstaklega vegna þess að það hefur greypt sig í vitund okkar, tungutak, skýringar og lausnir. Gill lýsir samfélagsmiðlum sem svo að þeir séu póstfemínískir. Það þýðir að gengið er út frá því að jafnrétti sé náð og undir einstaklingsframtaki hvers og eins komið hversu vel viðkomandi gengur í samfélaginu. Áhugi á að ræða kerfisbundið misrétti er lítill að hennar sögn og konur metnar út frá því hversu viljugar þær eru til að rýna í eigin galla, bæta þá og halda áfram að vinna í að verða besta útgáfan af sjálfum sér.

„Ungar konur í dag standa frammi fyrir fordæmalausum fjölda myndrænna skilaboða á samfélagsmiðlum og upplifa ákafan þrýsting um að útlit þeirra eigi að vera fullkomið og líf þeirra sömuleiðis. Þær takast á við þessar kröfur af vandvirkni og einstöku fjölmiðlalæsi, en margar þeirra segja engu að síður að þetta valdi þeim kvíða og þunglyndi,” segir Gill. 

Hún telur mikilvægt að foreldrar átti sig á þessum þessar kröfum til að geta leiðbeint börnum sínum og hjálpað þeim að lesa úr þeim skilaboðum sem beint er að þeim á samfélagsmiðlum. Það sé líka mikilvægt að foreldrar og aðrir sem vinni með börnum hafi í huga að börnin lesi mögulega ekki úr þessum skilaboðum á sama hátt og þeir. 

„Samfélagsmiðlar gegna þarna lykilhlutverki og langflestar ungar konur verja nokkrum klukkustundum á dag á Instagram, Snaphcat og í auknum mæli á TikTok. Það getur fært með sér mikla gleði og fiðring jákvæðrar athygli að pósta á samfélagsmiðlum og sumar hafa lýst því sem ávanabindandi, en á sama tíma upplifa ungar konur mikinn kvíða við það að pósta myndum og undirstrika að þær telji sig á ýmsan hátt geta klúðrað því,“ segir Gill enn fremur.

Viðbrögð samfélagsins við þessari vanlíðan hafi verið að endurskapa þá hugmynd um að það þurfi fyrst og fremst að vinna með hugarfar og einstaklinginn til að vinna úr henni. Heill iðnaður hefur sprottið upp þar sem sérstaklega konur fá ráðleggingar um hvernig þær eigi að hugsa og bera sig að til að njóta velgengni í lífinu. Hvað ungar konur og stelpur snertir þá hefur viðkvæðið verið að það þurfi bara að efla sjálfstraust þeirra en skortur er á meðvitund og greiningu á samfélagslegri rót vandans.

„Það er ekki aðeins sláandi hversu lík umræðan, áætlanir og viðbrögðin við þessu eru í hinum ólíkum kimum samfélagsins heldur einnig hvernig einkenni hins ójafna samfélags eru kerfisbundið (endur)römmuð inn í sjálfstraustsmenningu sem sálfræðileg vandamál einstaklinga sem fela í sér að það þurfi að breyta konum en ekki heiminum,“ segir Gill.“ 

RannKyn (Rannsóknarstofa um jafnrétti, kyngervi og menntun) og Menntavísindasvið bjóða til þessa opna fyrirlestrar. 

Öll velkomin!

Nánar hér um viðburðinn Undir smásjánni: Ungar konur og samfélagsmiðlar

Rosalind Gill