Þýðingafræði


Þýðingafræði
MA gráða – 120 einingar
Helstu markmið með meistarámi í þýðingum eru að undirbúa nemendur fyrir störf á vettvangi þýðinga eða sem fræðimenn, stundum hvort tveggja. Þetta er nám sem tengir saman fræði og framkvæmd alveg frá upphafi og nemendur fá mikla æfingu í hinum praktíska þætti námsins samhliða hinum fræðilega.
Skipulag náms
- Haust
- Tungumál og menning I
- Þýðingafræði
- Þýðingar og þýðingatækni
- Vor
- Orðræðugreining, þýðingar og túlkun
- Þýðingasaga
Tungumál og menning I (MOM301F)
Viðfangsefni námskeiðsins eru margvísleg tengsl menningar og tungumála út frá hugmyndasögulegum, félags- og málvísindalegum forsendum. Gömul og ný heimsmál verða kynnt, tilurð þeirra, áhrif og afleiðingar. Fjallað verður um talmál og ritmál: Hvað er skrifað, hvers vegna og hvernig? Reglur og ólík viðhorf til tungumála eru rædd og velt verður upp spurningum um tengsl mannsins við hugsun og tungumál.
Þýðingafræði (ÞÝÐ027F)
Inngangsnámskeið í fræðunum þar sem farið verður yfir helstu kenningar tuttugustu aldar á þessu sviði. Nemendur lesa lykiltexta úr fræðunum (sem sumir eru nú til í íslenskri þýðingu), flytja erindi um einn höfundinn og verk hans, þýða einn slíkan fræðitexta og einn bókmenntatexta að eigin vali.
Þýðingar og þýðingatækni (ÞÝÐ028F)
Þetta námskeið er helgað þeirri tækni sem þýðendur og aðrir geta notað til við störf sín. Þýðingaminni verða skoðuð og þjálfuð notkun þeirra og gerð samsíða textasafna. Notkun orðabóka, rafrænna og annarra, gagnabanka og internetsins og annarra hjálpargagna. Málstefna og íðorðafræði. Starfsvið þýðenda. Nýtt verður verður reynsla þeirra í hópnum sem hafa starfsreynslu fyrir. Nemendur halda fyrirlestur um tiltekið svið, vinna við orðtöku og kynna nýjustu tækni í vinnuhópi.
Orðræðugreining, þýðingar og túlkun (ÞÝÐ029F)
Markmiðið með þessu námskeiði er að nota aðferðir málvísinda og þýðingafræða til að rannsaka mállegan grunn samfélagsins, hvaðan hann kemur og hvað mótar þá orðræðu sem myndar hann og myndast af honum. Með aðferðum orðræðugreiningar verða frumtextar og þýðingar lagatexta, viðskiptatexta, fjölmiðlatexta o.fl. greindir og síðan litið til þess hvernig þær þýðingar sem þar fara fram skila sér inn í almennari orðræðu samfélagsins. Í tengslum við þetta verða tekin fyrir praktísk verkefni á sömu sviðum þar sem nemendur spreyta sig á þýðingum skjala, samninga, vottorða og annarra nytjatexta og verða niðurstöður ræddar í vinnuhópum.
Þýðingasaga (ÞÝÐ030F)
Fjallað um sögu þýðinga, einkum á Vesturlöndum og svo á Íslandi. Farið verður yfir helstu hátinda þýðingasögunnar frá fornöld til nútíma. Litið verður á valda texta sem markað hafa þáttaskil í þýðingasögu eins og reyndar bókmennta- og mannkynssögunni (Cicero, Hóras, Hierónymus, Erasmus, Lúther, Oddur, Dolet o.fl.). Einkum verður litið til röksemda og verka þýðenda á sömu sviðum til samanburðar, t.d. biblíuþýðenda, ljóðaþýðenda o.s.frv. Nemendur taka fyrir einn fræðimann eða stefnu og halda erindi auk þess sem þýddur verður texti á því sviði. Einnig þýða nemendur bókmenntatexta frá því fyrir 1900. Námskeiðinu lýkur síðan með málstofu í þýðingarýni þar sem nemendur rýna í eina þýðingu að eigin vali.
- Haust
- Meistararitgerð í þýðingafræðum
- Rannsóknarverkefni vegna MA-ritgerðar
- Vor
- Meistararitgerð í þýðingafræðum
Meistararitgerð í þýðingafræðum (ÞÝÐ444L)
Meistararitgerð í þýðingafræðum
Rannsóknarverkefni vegna MA-ritgerðar (ÞÝÐ904F)
Nemendur undirbúa lokaritgerðir sínar undir handleiðslu kennara. Þeir velja sér efni og aðferð, afla sér heimildir og undirbúa ritgerðina þannig að þeir geta klárað hana á innan við misseri.
Námsmat: Nemendur flytja munnlegt erindi. Þeir leggja fram heimildaskrá og beinagrind að ritgerðinni.
Umsjón: Gauti Kristmannsson, Marion Lerner
Meistararitgerð í þýðingafræðum (ÞÝÐ444L)
Meistararitgerð í þýðingafræðum
- Haust
- BókmenntaþýðingarV
- Málnotkun og framsetning: DanskaV
- SkáldsagnaþýðingarV
- Ritstjórn og fræðileg skrifV
- Menningarfræði og þjóðfélagsrýniV
- TrjábankarV
- Skjalaþýðingar og dómtúlkunE
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Nytjaþýðingar II/viðskiptiV
- Vor
- Þýðingar og málvísindiV
- Danskt stjórnkerfi, saga og menningV
- Franskar bókmenntir 19. og 20. aldarV
- Tungumál og menning II: Evrópsk menntahefðV
- Miðlun og menningV
- Mál og samfélagV
- Málfar EddukvæðaV
- ÍðorðafræðiE
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Nytjaþýðingar I /tækni-umhverfiV
- Óháð misseri
Bókmenntaþýðingar (DAN702F)
Fjallað verður um þýðingar bókmennta milli íslensku og dönsku. Nemendur fá yfirlit yfir sögu dansk-íslenskra bókmenntaþýðinga og fá þjálfun í þýðingarýni með því að greina mismunandi þýdd verk frá ólíkum tímum. M.a. þurfa nemendur að geta áttað sig á þeim áskorunum sem þýðandinn stendur frammi fyrir og hvaða leiðir hann hefur til úrlausnar.
Málnotkun og framsetning: Danska (DAN703F)
Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Nemendur rifja upp helstu reglur um danskt mál, málnotkun og stílbrögð. Þeir greina hvernig ólíkar textagerðir taka mið af mismunandi tilgangi tjáskipta. Áhersla verður einnig lögð á ritfærni nemenda á dönsku og þeir þjálfaðir í notkun hjálpargagna.
Skáldsagnaþýðingar (ÞÝÐ704F)
Námskeiðið snýst um þýðingar á skáldsögum og verða þær skoðaðar frá sögulegum sjónarhóli sem og fræðilegum. Lesnar verða greinar rithöfunda og þýðenda og skoðuð dæmi um mismunandi þýðingar; reynt verður að greina hvort þýðendur fylgi tilteknum aðferðum eða hvort afstaða þeirra almennt er breytileg á hverjum tíma. Nemendur skoða einn tiltekinn þýðanda að eigin vali og fjalla um verk hans í fyrirlestri. Auk þess verður farið yfir ýmis atriði í frásagnartækni og fjallað um þau í ritgerð. Loks þýða nemendur stuttan kafla úr áður óþýddri skáldsögu.
Ritstjórn og fræðileg skrif (ÍSL101F)
Þjálfun í ýmsum þáttum er varða ritun fræðilegs efnis og ritstjórn. Ólíkar gerðir fræðilegra ritsmíða skoðaðar og metnar. Þjálfun í því að gera athugasemdir við skipulag og framsetningu á fræðilegum texta og í öðrum þáttum ritstjórnar. Áhersla lögð á ritun fræðilegra greina, en einnig hugað að samningu smærri verka (ráðstefnuútdrátta, ritdóma) og stærri (M.A.-ritgerða, doktorsritgerða, bóka). Fjallað um rannsóknaráætlanir, frágang handrita og ritstuld. Tekin dæmi af textum um ýmis efni, einkum málfræðileg, bókmenntaleg og sagnfræðileg. Stuðst við bókina Skrifaðu bæði skýrt og rétt (Höskuldur Þráinsson 2015).
Námskeiðið er opið nemendum á mörgum námsleiðum í MA-námi á Hugvísindasviði skv. reglum viðkomandi greina. Nemendur á MA-stigi í íslenskum bókmenntum, íslenskri málfræði, íslenskum fræðum og íslenskukennslu geta fengið námskeiðið metið sem hluta af þeirri skyldu sem þeir þurfa að uppfylla í meistarastigsnámskeiðum í íslenskum bókmenntum eða íslenskri málfræði. Nemendur í MA-námi í íslenskukennslu geta þó ekki haft þetta námskeið sem eina málfræði- eða bókmenntanámskeiðið á MA-ferlinum.
Menningarfræði og þjóðfélagsrýni (MFR701F)
Í námskeiðinu er litið yfir sögu menningarfræðinnar og sjónum beint að gildi hennar sem róttæks forms þjóðfélagsrýni. Lesnir verða textar lykilhöfunda 19. öld og til samtímans. Í forgrunni er sjálft menningarhugtakið og spurningin um gildi þess fyrir gagnrýna umræðu um þjóðfélag, sögu og samtíma. Fjallað er um samspil gagnrýni og fræða og hvernig menningarfræðin setur slíkt samspil í forgrunn. Þetta kemur fram jafnt í textum eldri og yngri höfunda og skapar togstreitu sem hefur á undanförnum áratugum verið frjór jarðvegur allra hugvísinda og einkennt samhengi þeirra við menningarpólitíska hugsun. Til grundvallar eru lögð hugtök á borð við hugmyndafræði, vald, forræði, kyngervi og orðræða.
Trjábankar (MLT302F)
Í þessu námskeiði verður fjallað um setningafræðilega greindar málheildir eins og íslenska trjábankann, IcePaHC. Meðal annars verður fjallað um mismunandi tegundir trjábanka, þróun nýrra trjábanka og notkun trjábanka í máltækni og fræðilegri setningafræði. Megindlegar aðferðir í setningafræði verða kynntar í samhengi við sögulega setningafræði, samtímalegan breytileika og kenningar um samspil máltöku, málkunnáttu og málbreytinga. Nemendur munu þar að auki fá þjálfun í að nota hugbúnað sem hannaður er fyrir þróun trjábanka, leit í trjábanka og úrvinnslu á niðurstöðum og þeir munu gera tilraunir með vélræna greiningu á setningafræðilegum eiginleikum texta. Námskeiðið nýtist bæði nemendum í máltækni og málvísindum.
Skjalaþýðingar og dómtúlkun (ÞÝÐ102F)
Þetta er undirbúningsnámskeið fyrir próftaka í skjalaþýðingum og dómtúlkun. Farið verður yfir helstu svið skjalaþýðinga og dómtúlkunar, unnin verkefni á þeim sviðum, nemendur látnir þreyta æfingapróf og þeim kynntar helstu stefnur og straumar í þýðingarfræðum.
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ601F)
Einstaklingsverkefni í þýðingarfræði
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ602F)
Einstaklingsverkefni í þýðingarfræði
Nytjaþýðingar II/viðskipti (ÞÝÐ903F)
Nemendur æfa nytjaþýðingar á sviði laga, fjármála, ESB og markaðsmála á móðurmálið undir leiðsögn kennara. Kennari velur texta fyrir nemendur til æfingar í tíma og leggur fyrir verkefni. Nemendur æfa sjálfstæð vinnubrögð og samvinnu við þýðingar. Farið verður yfir gagnleg hjálpartæki og vinnulag sem nýtist í störfum þýðenda. Áhersla er á hagnýt verkefni og umræður um þýðingarvinnuna.
Þýðingar og málvísindi (DAN801F)
Orðaforði - rannsóknir og hagnýting.
Nemendur kynnast rannsóknum á orðaforða og setja sig inn í nýjustu kenningar á sviðinu. Skoðað verður sérstaklega hvernig nýta má upplýsingatækni og gagnasöfn við þýðingar, kennslu og rannsóknir.
Danskt stjórnkerfi, saga og menning (DAN802F)
Markmið þessa námskeiðs er að nemendur öðlist yfirsýn yfir sögulega, pólitíska og menningarlega þróun í dönskum stjórnarháttum á 20. öld og fram til dagsins í dag – með áherslu á tímabilið: Frá einveldi til fulltrúalýðræðis. Í námskeiðinu verður fjallað um danska velferðarmódelið og lýðræðislegt öryggisnet í ljósi þjóðarbúskapar, landafræði, lýðfræði og trúarbragða, aðstæðna á vinnumarkaði, stjórnmálakerfis, heilbrigðis- og menntunarkerfis, tengsla Danmerkur við alþjóðasamfélagið og almennra strauma í dönsku samfélagi. Nemendur munu kynna verkefni og ljúka námskeiðinu með skriflegu heimaverkefni.
Franskar bókmenntir 19. og 20. aldar (FRA429M)
Í námskeiðinu verður gefið yfirlit um þróun franskra bókmennta á 19. öld og 20. öld. Fjallað verður um verk franskra rithöfunda, ljóðskálda og leikritahöfunda. Lesin verða verk í bundnu og óbundnu máli sem samin eru í anda rómantíkur, raunsæis og nýrómantíkur á 19. öld og í anda súrrealisma, tilvistarspeki, nýsögunnar og póstmódernisma á 20. öld, m.a. með áherslu á endurkomu frásagnarinnar.
Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist yfirsýn um franska bókmenntasögu 19. og 20. aldar og kynnist höfundum tímabilsins með því að vinna með lykilverk. Við lok námskeiðsins skulu nemendur geta sýnt hæfni í að gera grein fyrir ákveðnum tímabilum, hugtökum og höfundaverkum. Á grundvelli bókmenntalegra sérkenna eiga nemendur að geta staðsett texta í bókmenntasögulegu samhengi og gert grein fyrir fagurfræðilegum straumum tímabilsins.
Tungumál og menning II: Evrópsk menntahefð (MOM402M)
Evrópsk mennta- og umræðuhefð einkennist af sterkum tengslum háskóla og samfélags. Margir áhrifamestu hugsuða Evrópu á 19. og 20. öld störfuðu utan háskólanna og margir þeirra sem áttu hefðbundinn starfsferil innan háskólanna voru líka virkir samfélagsgagnrýnendur, skiptu sér af stjórnmálaumræðu dagsins og höfðu jafnvel talsverð áhrif. Í námskeiðinu lítum við á verk nokkurra valinna evrópskra hugsuða sem eiga það sameiginlegt að hafa verið áhrifamiklir jafnt í fræðunum sem á vettvangi samfélagsumræðunnar. Um leið hugleiðum við stöðu hins „evrópska“ – að hvaða leyti verk þessara hugsuða eru í eðli sínu evrópumiðuð og að hvaða marki við sjáum skilning á menningarlegri óvissu koma fram.
Miðlun og menning (HMM240F)
Í námskeiðinu er menningarhugtakið teknar til gagnrýninnar skoðunar. Kenningar og skilgreiningar eru reifaðar samtímis því sem hlutverk, skilyrði og áhrif menningar í samtímanum eru vegin og metin. Markmiðið er að skapa samræðu fræðilegrar umræðu um menningararf, menningarstefnu og menningarlega sjálfbærni við praktísk úrlausnarefni sem tengjast miðlun menningar. Þannig er hugað að samspili menningarlífs við félagslegar, pólitískar og hagrænar aðstæður í sögu og samtíð og kannað hvernig þessir þættir bæði skilyrða og gera mögulega menningarmiðlun í samtímanum. Skoðað er hvernig menningararfur, hefðir, félagslegt minni, hugmyndir um upprunaleika og sjálfsmynd hafa áhrif á mótun og endursköpun menningar og hvernig nota má hugtök eins og „menningarlegt auðmagn“, „menningarlegt forræði“ og „orðræða um menningararf“ til að greina og skilja birtingarmyndir menningar.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Mál og samfélag (ÍSM015F)
Í þessu námskeiði verður fjallað um samspil tungumáls og samfélags með aðferðum og hugtökum félagslegra málvísinda og með hliðsjón af alþjóðlegum og innlendum rannsóknum á því sviði.
Rætt verður m.a. um málviðhorf, málsnertingu, mállýskur, málsnið og málstýringu. Hugað verður að ýmsum birtingarmyndum málnotkunar og breytileika í máli og að því hvernig þættir á borð við umhverfi, samhengi og bakgrunn málnotanda hafa áhrif á málnotkun og val málsniðs.
Yfirlit verður veitt um helstu rannsóknaraðferðir, eigindlegar og megindlegar, nýlega strauma í félagslegum málvísindum og aðferðir metnar með tilliti til rannsóknarefnis.
Kynntar verða rannsóknir á viðhorfum til málnotkunar og máls, eigin máls og annarra, ásamt því að ræða hvað óhefðbundin málnotkun hefur í för með sér. Í því samhengi verður sérstök áhersla lögð á mál þeirra sem tala íslensku sem erlent mál og stöðu innflytjenda.
Fjallað verður um stöðu íslensku í dag, einkum gagnvart ensku og öðrum tungumálum. Hugað verður að lögmálum um málstýringu og að hugmyndum fólks um tungumálið fyrr og síðar. Fjallað verður um íslenska málstefnu, málstýringu, málstöðlun og hreintunguhneigð frá ýmsum hliðum, m.a. í samtímalegu og sögulegu ljósi og með hliðsjón af erlendum málsamfélögum.
Til umræðu verður málnotkun tiltekinna félagshópa (t.d. unglinga) með tilliti til félagslegs hlutverks málnotkunarinnar innan hópsins annars vegar og innan málsamfélagsins í heild sinni hins vegar.
Gert er ráð fyrir að nemendur vinni verkefni, hópverkefni eða einstaklingsverkefni, þar sem leitað er svara við ýmsum spurningum sem bornar verða fram í kennslu og umræðu.
Málfar Eddukvæða (ÍSM025F)
Farið verður yfir nokkur eddukvæði og málfar þeirra athugað. Einkum verður þeim þáttum gefinn gaumur sem varpa ljósi á aldur einstakra kvæða (beygingarfræði, setningafræði, orðfræði, bragfræði). Í því samhengi verður vitnisburður eddukvæða borinn saman við vitnisburð annarra málheimilda. Rætt verður um ýmsar aðferðir sem beitt er við aldurgreiningu eddukvæða.
Íðorðafræði (ÞÝÐ001F)
Markmið þessa námskeiðs: Að nemendur fái undirstöðuþekkingu á íðorðafræði. Að þeir læri um tengsl íðorðafræði við aðrar greinar og skilji mun á almennu máli og sérhæfðu máli. Að þeir læri vensl milli hugtaka og íðorða, einkenni hugtaka, inntak og umtak hugtaka, hugtakakerfi og hugtakasvið, skilgreiningar, einyrt og fleiryrt íðorð, umdæmistap (domænetab), íðorðasöfn og íðorðaverkefni. Kennsla er formi í fyrirlestra, umræðna og æfinga- og verkefnatíma.
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ601F)
Einstaklingsverkefni í þýðingarfræði
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ602F)
Einstaklingsverkefni í þýðingarfræði
Nytjaþýðingar I /tækni-umhverfi (ÞÝÐ803F)
Námsmarkmið: Nemendur æfa nytjaþýðingar á umhverfis-, tækni- og vísindatengdum textum. Nemendur þýða á móðurmál sitt undir leiðsögn kennara. Nemendur æfa sjálfstæð vinnubrögð og samvinnu við þýðingar. Farið verður yfir gagnleg hjálpartæki og vinnulag sem nýtist í störfum þýðenda. Áhersla er á hagnýt verkefni og umræður um áskoranir tengdar þýðingarvinnunni. Námskeiðið er unnið í samvinnu við kennara innan íslensku- og menningardeildar og erlendra tungumála.
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur geta einnig nýtt sér þjónustuborð í Gimli og þjónustuborð Háskólans á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.