Menntunarfræði leik- og grunnskóla - Viðbótardiplóma


Menntunarfræði leik- og grunnskóla
Viðbótardiplóma – 60 einingar
Viðbótarnám til 60 eininga á meistarastigi. Hægt er að velja á milli tveggja kjörsviða: Mál og læsi og Menntun fyrir alla og sérkennslufræði.
Nemendur geta óskað eftir því að fá námið metið upp í meistaranám á Menntavísindasviði.
Skipulag náms
- Haust
- Málþroski og þróun málnotkunar
- Menntunarfræði yngri barna
- Nám og kennsla í grunnskólaB
- Leikur og hlutverk leikskólakennaraB
- Vor
- Námsmat og námskrá grunnskóla
- Stefnumótun, námskrá og mat
- Lestrarkennsla á yngsta stigi grunnskóla
- Leikur og skapandi starf
- Heildstæð yngri barna kennslaE
- Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðumB
- Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðumB
- Rannsóknir með börnum og ungmennumB
Málþroski og þróun málnotkunar (KME104F)
Námskeiðinu er ætlað að efla skilning nemenda á þróun málþroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár og á mikilvægum áhrifsþáttum á málþroska þeirra. Megin áhersla námskeiðsins er á að auka færni nemenda við að veita börnum árangursríka málörvun sem undirstöðu undir nám og lestur. Ennfremur eru nemendur hvattir til að tengja saman fræði og vettvang og máta viðfangsefnin við eigin reynslu. Áhersla er lögð á að nemendur kynnist íslenskum og erlendum rannsóknum á sviðinu og ígrundi hvaða lærdóm kennarar geta dregið af rannsóknaniðurstöðum um það hvers konar reynsla, uppeldi, samskipti og örvun heima og í skóla veita bestu forsendur fyrir góðan málþroska.
Meginumfjöllunarefni: Þróun málnotkunar í sögulegu samhengi, hvati, lífshættir og meðfæddir hæfileikar. Þróun málþroska frá fæðingu, hljóðþróun, þróun orðaforða, málfræði, og setningagerðar. Mikilvægi málörvunar heima og í skóla. Tengsl málþroska við annan þroska svo sem vitsmuna, félagsþroska og læsisþróun. Helstu frávik í máli og tali svo sem málþroskaröskun (DLD), framburðarfrávik og stam. Málþroski fjöl/tvítyngdra barna. Mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og almennrar málörvunar. Mat á málþroska barna og margvísleg málörvun með það að meginmarkmiði að gefa börnum næg tækifæri til að efla málþroska sinn og til að verða öflugir málnotendur
Menntunarfræði yngri barna (KME109F)
Á námskeiðinu verður fjallað um sýn á börn, rannsóknir á námi þeirra og þá hugmyndafræði sem þær byggja á og athyglinni beint að ýmsum áherslum og álitamálum á sviðinu. Kynntar verða innlendar og erlendar rannsóknir og kenningar á eftirfarandi sviðum:
- Sýn á börn og nám í nútíma samfélagi: Fjallað verður um grundvallarhugmyndir um nám barna og hvernig þeim eru skapaðar námsaðstæður í skólum þar sem þátttaka, valdefling, lýðræði og vellíðan eru í brennidepli.
- Félagslegur raunveruleiki barna og áhrif hans á virka þátttöku þeirra í skólastarfi, m.a. jafnrétti í víðum skilningi, foreldrasamskipti, tækni í lífi barna.
- Þróun náms, skipulag námsumhverfis og fjölbreyttar leiðir til að meta nám ungra barna sem snerta meðal annars námssvið í leik- og grunnskóla.
Vinnulag:
Mætingarskylda er í tveimur staðlotum. Vikulegar kennslustundir eru yfir önnina þar sem nemendur geta valið mismunandi tíma dagsins í kennslustofu eða á neti (kennt er á þriðjudögum.).
Kennsla verður í formi fyrirlestra, umræðna og verkefna sem nemendur kynna og ræða. Nemendur athuga hvernig nýta má kenningar og niðurstöður rannsókna í skólastarfi. Þeir velja sér afmarkað svið til að dýpka þekkingu sína á með því að kynna sér niðurstöður rannsókna og starf á vettvangi. Dæmi um viðfangsefni eru: Mat í skólastarfi, margbreytilegur barnahópur (svo sem menningarlæsi, kynjagervi, fjölmenning) ákveðið námssvið, leik og námssamfélag barna, foreldrasamstarf, læsi, samfella í námi barna og skapandi starf.
Nám og kennsla í grunnskóla (KME102F, LSS101F)
Meginmarkmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í helstu kenningar og rannsóknir um nám, kennslu og kennarastarfið. Sérstök áhersla er lögð á kennsluaðferðir og skipulag kennslu sem sýnt hefur stuðning við áhugahvöt nemenda. Fjallað er um starfsumhverfi grunnskólakennara m.a. þeim lögum og reglum sem gilda um grunnskóla og nemendur kynnast vettvangi með vikulöngu vettvangsnámi.
Inntak / viðfangsefni:
Fjallað er um nám og kennslu frá mörgum sjónarhornum. Nemendur kynnast námi og kennslu á öllum stigum skyldunáms og setja fram markmið, skipuleggja ólíkar kennsluaðferðir og námsumhverfi, auk þess að skipuleggja einnig samskipti og samstarf á vettvangi. Leitast er við að tengja þessi viðfangsefni hugmyndum um fagmennsku kennara og þróun eigin starfskenningar. Í fyrri hluta námskeiðsins verður fjallað sérstaklega um áhugahvöt til náms, verkefnaval, notkun umbunar/umbunarkerfa, námsmat og hópaskiptingu. Í síðari hluta námskeiðsins verður einnig fjallað um þróun sjálfsmyndar nemenda, foreldrasamstarf, stuðning við sjálfræði nemenda, félagsleg tengsl, væntingar nemenda og kennara og skólaforðun. Einstakir efnisþættir verða ræddir og settir í samhengi við árangursríkar kennsluaðferðir sem eru til þess fallnar að ýta undir áhugahvöt nemenda til náms.
Leikur og hlutverk leikskólakennara (KME102F, LSS101F)
Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar kenningar um leik og áhrif þeirra á sýn á börn og leikskólastarf. Rýnt verður í ólíkar birtingarmyndir leiks og náms, annars vegar út frá sjónarhorni barna og hins vegar sjónarhorni fullorðinna. Áhersla er lögð á rannsóknir um samskipti barna og leik. Fjallað verður um hlutverk leikskólakennara og námskrár í tengslum við leik. Kynntar verðar athugunar- og skráningarleiðir sem nýttar eru í þeim tilgangi að meta og gera nám barna í leik sýnilegt. Auk þess verður skoðað hvernig námsumhverfi leikskólans hefur áhrif á þátttöku barna í leik.
Hluti námskeiðsins er tveggja vikna vettvangsnám (4Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Í vettvangsnámi taka nemendur þátt í daglegum viðfangsefnum leikskóla, samhliða verkefnum námskeiða.
Námsmat og námskrá grunnskóla (KME006F, LSS204F)
Meginmarkmiðið er að nemendur öðlist þekkingu, leikni og hæfni sem snýr að námskrárfræðum og námsmati og verði færir um að beita þekkingu sinni á því í skólastarfi. Fjallað er nokkur lykilhugtök námskrárfræða og matsfræða eins og þau hafa birst í íslensku skólakerfi. Þannig er fjallað um áherslur og hugmyndastefnur sem greina má í opinberum námskrám, lögum, reglugerðum og öðrum stefnuritum. Þætti sérfræðinga (kennara, stjórnenda og fleiri) í námskrárgerð, þróun skólanámskrár og þróun námsmats eru gerð skil . Fjallað er um forsendur, tilgang og aðferðir við mat á námi og námsárangri (sbr. leiðsagnarmat, lokamat, gerð prófa og annarra matstækja og beitingu einkunna og vitnisburða). Þátttakendur lesa og ræða einnig um álitamál og ólíka hugmyndafræðilega strauma sem tengjast grundvallarspurningum um tilgang og markmið skyldunáms.
Vinnulag á námskeiðinu felst í lestri greina og bókakafla, fyrirlestrum og kynningum ásamt gagnrýninni umræðu í málstofum og hópverkefnum.
Lesefni er kynnt í námsáætlun hverju sinni.
Stefnumótun, námskrá og mat (KME006F, LSS204F)
Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu á þeim meginhugmyndum sem hafa áhrif á stefnumótun, námskrárgerð og mat í leikskólum, ásamt því að ígrunda eigin viðhorf og hvernig þau hafa áhrif á uppeldissýn, starfkenningu og starf á vettvangi.
Viðfangsefni
Í námskeiðinu er fjallað um þær hugmyndafræðilegu stefnur sem hafa áhrif á leikskólastarf nútímans og hvernig þær birtast í stefnumótun (aðalnámskrá), skólanámskrám, skipulagi og mati í leikskólastarfi. Fjallað er um hlutverk og fagmennsku leikskólakennara, þætti sem móta uppeldissýn og starf í leikskólum með áherslu á grunnþætti menntunar, starfslýsingar, siðareglur og jafnrétti. Jafnhliða er lögð áhersla á að nemendur temji sér gagnrýna hugsun og afstöðu til viðfangsefna í leikskólastarfi, ígrundi eigin viðhorf og meti hvernig þau hafa áhrif á uppeldissýn og starfskenningu.
Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar af vettvangi, umræður, hópverkefni og vettvangstengd verkefni. Hluti námskeiðsins er sem svarar 30 klst. viðveru á vettvangi – nemendur geta valið að fara í samfellt vettvangsnám eða dreifa vettvangstímum yfir lengri tíma þar sem þeir tengjast einum leikskóla og útfæra verkefni sín þar.
Mætingarskylda er í staðlotur.
Lestrarkennsla á yngsta stigi grunnskóla (GKY401G)
Á námskeiðinu er megináhersla lögð á að kennaranemar dýpki þekkingu sína á lestrarkennslu í fimm meginþáttum lestrarnáms: hljóðkerfis og hljóðavitund, umskráningu, lesfimi, orðaforða og lesskilningi auk ritunar og öðlist skilning á ábyrgð og hlutverki kennarans í lestrarnámi barna. Fjallað er um forsendur lestrarnáms, raunprófaðar kennsluaðferðir í tengslum við lestrarkennslu og lestrarerfiðleika. Einnig hvernig grundvallarþættir í lestri: hljóðkerfisvitund, umskráning, lesfimi, orðaforði, lesskilningur/hlustunarskilningur og ritun flettast saman og stuðla að öryggi og fimi hjá lesandanum. Áherslur beinast að mikilvægi snemmtækrar íhlutunar og kennslu nemenda í áhættu vegna lestrarerfiðleika.
Rætt er hvernig lestrarhvetjandi og skapandi námsumhverfi, markviss kennsla og námsgögn við hæfi geta glætt lestraráhuga og aukið lestrargetu. Kynnt verða ýmis matstæki í lestrarkennslu; símat, fyrirbyggjandi mat (skimun) og greinandi próf. Ábyrgð og hlutverk kennara verður gaumgæft í tengslum við lestrarkennslu í margbreytilegum nemendahópi þar sem tekið er mið af einstaklingsmun og aðferðum sem beinast að því að hjálpa nemendum að ná sem bestum tökum á lestri.
Vettvangshluti námskeiðsins (3Ve) fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs og samsvarar einni og hálfri viku á vettvangi, 6 tíma á dag.
Leikur og skapandi starf (KME210F)
Fjallað verður um leik og sköpun almennt og aðferðir til að ýta undir leik og listir sem námsleiðir barna. Einnig verður fjallað um kenningar, rannsóknir og hugtök sem varpa ljósi á gildi leiks og skapandi starfs fyrir nám ungra barna og leik sem námsleið barnsins og kennsluaðferð kennarans. Nýjar áherslur og rannsóknir um leik og tengsl hans við félagslega færni og skilning barna á t.d. frásögnum, sögugerð, stærðfræði, vísindum, gildum, máli, læsi og skrift verða ræddar auk þess sem fjallað verður um skipulag og uppbyggingu skapandi námsumhverfis; þ.e. umhverfis sem styður við leik og sköpun. Þá verður einnig fjallað um listgreinar sem uppsprettu fyrir nýjar hugmyndir og leiðir sem hvetja og örva börn í skapandi starfi. Rædd verða tiltekin grundvallar hugtök og þau tengd við menntun barna í leik- og grunnskólum. Kynnt verða hugtök úr kenningum Bernsteins, einkum umgerð og flokkun og hvernig má nýta skilning hans í skráningu og ígrundun um skipulag og framkvæmd skapandi skólastarfs.
Í upphafi námskeiðs verður lagt upp með ákveðna hugmyndalega nálgun, tiltekin fræðilegur grunnur og hugtök verða rædd (t.d. sköpun, fegurð, lýðræði, vald, þátttaka, merking, samkennd, sameiginleg skynjun og sameiginleg uppbygging þekkingar). Þessi hugtök tengjast megin viðfangsefnum námskeiðsins og verða nýtt sem stuðningur við ígrundun nemenda og samræðu þar sem nemendur deila hugmyndum sínum með öðrum. Verkefni fela í sér símat á námsferli nemenda.
Heildstæð yngri barna kennsla (GKY201F)
Á námskeiðinu verður lögð áhersla á þróun náms hjá börnum í yngstu bekkjum grunnskóla og tengsl þess við skipulag kennslu og námsefnis fyrir yngsta stigið. Áhersla verður lögð á innlendar og erlendar rannsóknir um nám og kennslu barna á þessu aldursstigi sem snerta námsgreinar grunnskólans og einnig félagslega þætti sem tengjast skólastarfi á yngsta stigi grunnskóla án aðgreiningar. Nemendur velja sér afmarkað svið í verkefnavinnu t.d., ákveðna námsgrein, læsi, námssamfélag, fjölmenningu eða skapandi starf og dýpka þekkingu sína í gegnum lestur rannsókna og annara fræðilegra skrifa.
Inngangur að megindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F, MVS212F)
Markmiðið er að nemendur
- hafi innsýn í megindlega aðferðafræði á sviði rannsókna í uppeldis- og menntunarfræði
- þekki helstu rannsóknaraðferðir og hugtök sem þeim tengjast
- geti beitt algengum rannsóknaraðferðum og þannig aflað gagna, unnið úr þeim og túlkað á agaðan og viðurkenndan hátt
- séu færir um að rýna í rannsóknir og nýta sér niðurstöður þeirra
- hafi tileinkað sér rannsakandi hugarfar og gagnrýna hugsun
Kynnt verða algeng rannsóknarsnið megindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur nota tölvuforrit til að reikna algenga tölfræðistuðla og halda utan um og vinna úr gögnum. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í túlkun matsniðurstaðna sem líklegt er að verði á vegi þeirra hópa sem taka námskeiðið.
Fyrirlestrar á vef, umræður og verkefni. Námskeiðið er kennt vikulega en fyrirlestrar verða eingöngu á vef. Verkefnatíma verða ekki teknir upp. Ekki er mætingarskylda í námskeiðið en nemendur eru hvattir til að mæta í kennslustundir.
Nemendur verða að hafa Jamovi (sjá nýjustu útgáfu á https://www.jamovi.org) uppsetta á fartölvum sem þeir mæta með í kennslustundir.
Lesefni: Kaflar 1-11 í Navarro DJ and Foxcroft DR (2019). Learning statistics with jamovi: a tutorial for psychology students and other beginners. (Version 0.70). DOI: 10.24384/hgc3-7p15. Rafræn ókeypis kennslubók sem hala má niður á síðunni https://www.learnstatswithjamovi.com.
Inngangur að eigindlegum rannsóknaraðferðum (MVS213F, MVS212F)
Fjallað verður um ólíkar rannsóknarstefnur og tengsl þeirra við uppbyggingu og útfærslu rannsókna. Einnig um siðfræði vísinda með áherslu á hagnýt atriði og um gæðahugtök, s.s. réttmæti, trúverðugleika og ólíka sýn á þessi hugtök. Í námskeiðinu beinist athyglin að eigindlegum aðferðum. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemar fá nokkra þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a. vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum. Þá vinna nemar með öflun, skráningu, flokkun, greiningu og túlkun gagna, og með framsetningu þeirra og gera heildstæða rannsóknaræfingu.
Fyrirlestrar, umræður og verkefni. Skyldumæting er í staðlotum.
Rannsóknir með börnum og ungmennum (KME201F)
Í námskeiðinu verður fjallað um eigindlegar rannsóknaraðferðir með sérstakri áherslu á að fá fram sjónarmið barna og ungmenna. Kynnt verða algeng rannsóknarsnið eigindlegra rannsókna, aðferðir við öflun gagna og greiningu þeirra, og fjallað um ritun og framsetningu niðurstaðna. Nemendur fá þjálfun í að beita algengum aðferðum rannsókna m.a., vettvangsathugunum, viðtölum og heimildaathugunum og gera heildstæða rannsóknaræfingu. Fjallað er um rannsóknir með börnum og ungmennum, þ.e. rannsóknir þar sem þátttakendur eru börn, ungmenni og aðrir sem eiga hættu á að vera jaðarsettir í samfélaginu. Gengið verður út frá Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna til að hafa áhrif á eigið líf og félagsvísindalegum rannsóknum á bernskunni þar sem litið er á barnæsku sem afmarkað rannsóknarefni. Einnig verður byggt á félags- menningarkenningum og síðtímahugmyndum um börn sem sterk og hæf með eigið sjónarhorn á veröldina og réttindi þeirra sem borgara virt.
Í umfjöllun námskeiðs verður velt upp álitamálum sem upp koma þegar börn og/eða ungmenni eru þátttakendur í rannsóknum. Fjallað verður m.a. um hugmyndafræði, siðferðislega þætti og áhersla lögð á ýmsar aðferðir sem nota má í rannsóknum með börnum. Nemendur vinna eigin rannsókn og fá tækifæri til að glíma við fjölbreyttar aðferðir.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.