Hagnýtt nám í nytjaþýðingum - Viðbótardiplóma
Hagnýtt nám í nytjaþýðingum
Viðbótardiplóma – 60 einingar
Diplómanám á meistarastigi þar sem nemendur fá þekkingu og þjálfun í hagnýtum vinnubrögðum við nytjaþýðingar. Að námi loknu ættu nemendur að hafa öðlast næga hæfni til þess að veita þýðingarþjónustu.
Skipulag náms
- Haust
- Nytjaþýðingar II/viðskiptiE
- Þýðingafræði
- Þýðingar og þýðingatækni
- SkáldsagnaþýðingarV
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Vor
- Nýjar raddir í þýðingafræði
- Nytjaþýðingar
- ÞýðingasagaV
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
- Einstaklingsverkefni í þýðingafræðiV
Nytjaþýðingar II/viðskipti (ÞÝÐ903F)
Nemendur æfa nytjaþýðingar á sviði laga, fjármála, ESB og markaðsmála á móðurmálið undir leiðsögn kennara. Kennari velur texta fyrir nemendur til æfingar í tíma og leggur fyrir verkefni. Nemendur æfa sjálfstæð vinnubrögð og samvinnu við þýðingar. Farið verður yfir gagnleg hjálpartæki og vinnulag sem nýtist í störfum þýðenda. Áhersla er á hagnýt verkefni og umræður um þýðingarvinnuna.
Þýðingafræði (ÞÝÐ027F)
Inngangsnámskeið í fræðunum þar sem farið verður yfir helstu kenningar tuttugustu aldar á þessu sviði. Nemendur lesa lykiltexta úr fræðunum (sem sumir eru nú til í íslenskri þýðingu), flytja erindi um einn höfundinn og verk hans, þýða einn slíkan fræðitexta og einn bókmenntatexta að eigin vali.
Þýðingar og þýðingatækni (ÞÝÐ028F)
Þetta námskeið er helgað þeirri tækni og tólum sem þýðendur og aðrir geta notað til við störf sín. Nemendur kynnast mikilvægi þýðingaminna, hvernig menn og vélar nota minnin, og hvernig má samtvinna texta og búa til máltæknigögn og orðabækur. Notkun orðabóka á netinu, gagnabanka og annarra hjálpargagna. Málstefna og íðorðafræði. Fjallað um starfsumhverfi þýðandans og farið yfir atriði sem geta hjálpað einyrkja að fá verkefni og lifa af í gigg-hagkerfinu. Nýtt verður verður reynsla þeirra í hópnum sem hafa starfsreynslu fyrir. Nemendur vinna verkefni í tímum sem undirbúa þá fyrir heimaverkefnin.
Skáldsagnaþýðingar (ÞÝÐ704F)
Námskeiðið snýst um þýðingar á skáldsögum og verða þær skoðaðar frá sögulegum sjónarhóli sem og fræðilegum. Lesnar verða greinar rithöfunda og þýðenda og skoðuð dæmi um mismunandi þýðingar; reynt verður að greina hvort þýðendur fylgi tilteknum aðferðum eða hvort afstaða þeirra almennt er breytileg á hverjum tíma. Nemendur skoða einn tiltekinn þýðanda að eigin vali og fjalla um verk hans í fyrirlestri. Auk þess verður farið yfir ýmis atriði í frásagnartækni og fjallað um þau í ritgerð. Loks þýða nemendur stuttan kafla úr áður óþýddri skáldsögu.
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ601F)
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði í samráði við umsjónarkennara.
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ602F)
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði í samráði við umsjónarkennara.
Nýjar raddir í þýðingafræði (ÞÝÐ029F)
Ath.: Þetta námskeið er vanalega kennt á vormisseri en 2025 verður það í boði á vor- og haustmisseri. Svo verður það aftur á kennsluskrá á vormisseri 2027.
Á undanförnum áratugum hefur ný orðræða haslað sér völl innan þýðingafræði. Félagsfræðileg og menningarfræðileg viðhorf skipta meira máli en áður. Athyglin beinist þannig að hlutverki þýðinga í hinum hnattvædda heimi, einkum í fjölmála samfélögum og jafnvel á átaka- og hættusvæðum. Starfsemi félaga- og andspyrnuhreyfinga fer oftar en ekki fram á sviði þýðinga. Feminísk þýðingafræði er sterk og blómstrandi grein fagsins.
Rannsóknir beinast einnig að hlutverki þýðenda, starfsumhverfi þeirra og samstarfi við aðra aðila í þýðingarferlinu. Þannig eru t.d. hliðartextar rannsakaðir sem þýðendur semja eða gögn í einkaskjalasöfnum þeirra athuguð. Ekki má gleyma að ný þýðingartækni breytir starfi þýðenda en getur einnig haft mótandi áhrif á textagerð og þróun tungumála.
Í málstofunni kynnast nemendur nýjum rannsóknum í þýðingafræði.
Nemendur flytja erindi í tíma, þeir geta valið að skrifa fræðilega ritgerð, stunda þýðingarýni eða þýða texta að eigin vali. Málstofan er vettvangur akademískrar samvinnu nemenda og kennara þar sem virk þátttaka, gagnrýnin hugsun og opinská skoðanaskipti eru í fyrirrúmi.
Nytjaþýðingar (ÞÝÐ803F)
Nemendur æfa nytjaþýðingar á mismunandi nytjatextum. Nemendur þýða á móðurmál sitt undir leiðsögn kennara. Nemendur æfa sjálfstæð vinnubrögð og samvinnu við þýðingar. Farið verður yfir gagnleg hjálpartæki og vinnulag sem nýtist í störfum þýðenda. Áhersla er á hagnýt verkefni og umræður um áskoranir tengdar þýðingarvinnunni.
Þýðingasaga (ÞÝÐ030F)
Fjallað um sögu þýðinga, einkum á Vesturlöndum og svo á Íslandi. Farið verður yfir helstu hátinda þýðingasögunnar frá fornöld til nútíma. Litið verður á valda texta sem markað hafa þáttaskil í þýðingasögu eins og reyndar bókmennta- og mannkynssögunni (Cicero, Hóras, Hierónymus, Erasmus, Lúther, Oddur, Dolet o.fl.). Einkum verður litið til röksemda og verka þýðenda á sömu sviðum til samanburðar, t.d. biblíuþýðenda, ljóðaþýðenda o.s.frv. Nemendur taka fyrir einn fræðimann eða stefnu og halda erindi auk þess sem þýddur verður texti á því sviði. Einnig þýða nemendur bókmenntatexta frá því fyrir 1900. Námskeiðinu lýkur síðan með málstofu í þýðingarýni þar sem nemendur rýna í eina þýðingu að eigin vali.
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ601F)
Einstaklingsverkefni í þýðingarfræði
Einstaklingsverkefni í þýðingafræði (ÞÝÐ602F)
Einstaklingsverkefni í þýðingarfræði
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.