Hagnýt jafnréttisfræði - Viðbótardiplóma
Hagnýt jafnréttisfræði
Viðbótardiplóma – 30 einingar
Diplómanám í hagnýtri jafnréttisfræði veitir nemendum hagnýta þekkingu og undirbúning fyrir störf að jafnréttismálum.
Í framhaldi af diplómanáminu geta nemendur sótt um í MA-nám í kynjafræði. Fjarnám.
Skipulag náms
- Haust
- Almenn kynjafræði
- Vor
- Kenningar í kynjafræði
- Hagnýting jafnréttisfræða: Frá bróðurparti til systkinalags
Almenn kynjafræði (KYN101F)
Í námskeiðinu er fjallað um helstu viðfangsefni kynjafræða í ljósi margbreytileika nútímasamfélaga. Kynjafræðilegu sjónarhorni er beitt til að gefa yfirlit yfir stöðu og aðstæður ólíkra hópa í samfélaginu. Fjallað er um upphaf og þróun kvennabaráttu og kynjafræða. Kynnt verða helstu hugtök kynjafræða svo sem kyn, kyngervi, eðlishyggja og mótunarhyggja. Skoðað er hvernig kyn er ávallt samtvinnað öðrum samfélagslegum áhrifabreytum.
Kenningar í kynjafræði (KYN211F)
Í námskeiðinu er fjallað um heimspekilegan og kenningalegan grundvöll kynjafræða og gagnrýnið og þverfræðilegt inntak þeirra. Fjallað er um birtingarform og merkingu kyns (e. sex) og kyngervis (e. gender) í tungumáli og menningu, sögu, samfélagi og vísindum. Sjónarmið fræðanna eru kynnt og tengsl þeirra við aðferðafræði. Þá eru nemendur þjálfaðir í að beita á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt fræðilegum hugtökum og aðferðum.
Hagnýting jafnréttisfræða: Frá bróðurparti til systkinalags (KYN202F)
Jafnréttismál eru hluti af hinu opinberu regluverki á Íslandi og sífellt meiri kröfur eru gerðar á því sviði. Námskeiðið veitir hagnýtan undirbúning fyrir margvísleg störf í almenna og opinbera geiranum þar sem þekking og þjálfun í jafnréttismálum er nauðsynleg.
Námskeiðið er hagnýtur undirbúningur fyrir störf í stjórnun, opinberri stjórnsýslu, fræðslu, kennslu, fjölmiðlun og önnur sérhæfð störf. Markmið námskeiðsins er að kynna grundvallaratriði jafnréttisfræða og þjálfa nemendur í hagnýtu jafnréttisstarfi. Fjallað er um sögu og merkingu jafnréttishugtaksins, með sérstakri áherslu á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða (e. gender mainstreaming) og kynjaða fjárlagagerð (e. gender budgeting). Fjallað er um birtingarform kyns og mikilvægi kynjavitundar í samfélagslegri umræðu og stefnumótun. Þá eru kynntar hugmyndir um jafnrétti margbreytileikans og samtvinnun ólíkra mismunarbreyta (e. intersectionality). Í nútímasamfélögum eru gerðar síauknar kröfur um þekkingu á jafnréttismálum. Ísland er aðili að alþjóðasamþykktum um jafnrétti og í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins. Slík samþætting krefst þekkingar á jafnréttismálum og gera jafnréttislög ráð fyrir jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.
Hafðu samband
Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500
Netfang: nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs
Stjórnmálafræðideild á samfélagsmiðlum
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.