Skip to main content

Faraldsfræði

Faraldsfræði

Þverfræðilegt framhaldsnám

Faraldsfræði

MS gráða – 120 einingar

Meistaranám í faraldsfræðum leggur áherslu á rannsóknir á dreifingu og áhrifaþáttum ástands eða fyrirbæra er varða heilbrigði á tilteknum þýðum. Skilningur á lýðgrunduðum rannsóknum er grundvöllur stefnumótunar í heilsueflingu og forvörnum. 

Skipulag náms

X

Faraldsfræði - megindleg aðferðafræði (LÝÐ107F)

Námskeiðið er inngangur að faraldsfræðilegum rannsóknaraðferðum og nálgun orsaka. Námskeiðið gefur yfirlit yfir mælingar á tíðni sjúkdóma, áhættu og afstæðri áhættu, gerðir faraldsfræðilegra rannsókna (tilraunir og íhlutandi rannsóknir, hóprannsóknir, tilfella-viðmiðsrannsóknir). Áhersla er lögð á kerfisbundna skekkjuvalda og á aðferðir til að sneiða hjá þeim á undirbúningsstigi rannsókna svo og í úrvinnslu gagna. Nemendur fá þjálfun í því að ritrýna faraldsfræðilegar rannsóknarniðurstöður.

X

Lýðheilsa: Vísindi, stjórnmál, forvarnir (LÝÐ101F)

Í námskeiðinu er farið yfir skilgreiningar, sögu, markmið, gildissvið, siðfræði og aðferðir lýðheilsuvísinda svo og íslensk- og alþjóðleg lög og sáttmála sem tengjast lýðheilsu. Nokkur áhersla er lögð á lýðheilsu og heilbrigðisvísa í alþjóðlegu samhengi en einnig á íslenska heilbrigðiskerfið, stjórnun og fjármögnun þess svo og samanburð við heilbrigðiskerfi annara þjóða. Ennfremur er farið yfir söfnun heilbrigðisupplýsinga á Íslandi sem á alþjóðavísu og nýtingu þeirra til rannsókna og stefnumótunar í heilbrigðismálum. Einnig er lögð áhersla á þau svið lýðheilsu sem eru á döfinni hverju sinni.

X

Líftölfræði I (LÝÐ105F)

Inngangur að hagnýtri líftölfræði í lífvísindum. Yfirlit er gefið yfir tegundir breyta; flokkabreytur, strjálar og samfelldar talnabreytur. Lýsandi tölfræði; lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Fræðilegar líkindadreifingar; tvíkostadreifing, Poisson dreifing og normaldreifing. Skilgreiningar á slembiúrtaki og þýði. Dreifingar lýsistærða. Notkun á öryggisbilum og tilgátuprófum. Samanburður á meðalgildi hópa (samfelldar mælingar). Tölfræðipróf fyrir tíðnitöflur (flokkabreytur). Einföld og lógistísk aðhvarfsgreining og ROC greining. Lifunargreining með aðferð Kaplan Meier og Cox. Í fyrirlestrum og dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R og RStudio umhverfið.

X

Málstofa nýnema í lýðheilsuvísindum, faralds- og líftölfræði (LÝÐ108F)

Námskeiðið undirbýr nemendur fyrir rannsóknartengt og þverfræðilegt framhaldsnám. Farið verður yfir ýmsar hagnýtar upplýsingar, fræðileg vinnubrögð og skipulag náms, heimildaleit og vísindalæsi m.ö. Nemendur fá einnig nauðsynlega undirstöðuþjálfun í tölfræðiforritinu R.

X

Faraldsfræði II: Aðferðir í vísindum (LÝÐ085F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á ítarefnum í faraldsfræði og að efla hæfi nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.

Námskeiðið mun fjalla ítarlega um framhaldsaðferðir í faraldsfræði.  Fjallar verður um áhrif jákvæðrar og neikvæðrar blöndunar (positive and negative confounding), pörun (matching), líkindaskor (propensity score), áhrifsbreytingu (effect modification and interaction), nýlegar aðferðir til að takast á við blöndun (instrumental variables), orsakamyndir (causal diagrams), og hvað á að gera þegar gögn vantar í rannsóknina (missing data). Teknar verða fyrir vísindagreinar sem tengjast faraldsfræðilegum álitamálum í rannsóknum og þær ræddar ítarlega.

X

Verklag í vísindum (LÝÐ202F)

Námskeiðið veitir hagnýta leiðsögn við undirbúning rannsóknar. Heimildaöflun, tilgátuþróun og gerð yfirlitsgreinar (systematic critical review) á fræðasviði fyrirhugaðaðrar rannsóknar. Nemendur fá einnig þjálfun í að vinna rannsóknaráætlun og kynna hana.

Námskeiðið er ætlað nemendum á meistara- eða doktorsstigi sem hafa valið sér svið/rannsóknarspurningu lokaverkefnis.

X

Faraldsfræði III (LÝÐ206F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á sérstökum sviðum innan faraldsfræði, kynna sérstaka aðferðafræði sem tilheyrir viðkomandi sviðum, og að efla hæfni nemenda í að meta gæði og túlka niðurstöður faraldsfræðilegra rannsókna.

Námskeiðið mun fjalla ítarlega um 4-6 sérstök rannsóknarsvið innan faraldsfræðinnar, sem dæmi faraldsfræði fæðinga, næringar, og smitsjúkdóma. Mismunandi umfjöllunarefni kunna að vera valin frá ári til árs. 

X

Verkefni til meistaraprófs í faraldsfræði (FAR301L)

Meistaranám í faraldsfræði (MS) er 120 eininga þverfræðilegt framhaldsnám og þar af skal rannsóknarverkefni vera 60 einingar. Að öllu jöfnu má skilgreina 60e verkefni sem sjálfstæða rannsókn sem lýkur í vísindagrein, tilbúinni til birtingar, ásamt fræðilegum inngangi. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl fyrir nýnema undir lok fyrsta misseris námsins, þar sem hugmyndir nemenda um rannsóknarverkefni eru ræddar. Í námskeiðinu Verklag í vísindum á öðru misseri fullvinna nemendur rannsóknaráætlun og velja leiðbeinanda og nefnd (þar sem við á). Nemendur geta nýtt námskeiðið Klínísk spálíkön, á þriðja misseri námsins, til úrvinnslu á gögnum fyrir lokaverkefni sitt. Þá er gert ráð fyrir að nemendur taki þátt í málstofum, æfingavörnum og mæti á að lágmarki í fimm opnar MPH/MS varnir á námsferlinum. Nánari leiðbeiningar um viðmið og framvindu lokaverkefnis er að finna á hópvef MPH/MS nema í Uglu. Nemar í faraldsfræði eru vistaðir innan Læknadeildar meðan á námi stendur, en brautskrást frá heimadeild leiðbeinanda.

Markmið meistaraverkefnis er að veita nemanum þjálfun í að hanna, skipuleggja, þróa og framkvæma rannsóknarverkefni í faraldsfræði, læra að taka tillit til þeirra takmarkana sem ráðast af aðferðum, tækni og reglum, að geta með sjálfstæðum hætti og í rituðu máli skilgreint rannsóknarviðfangsefni sitt, sett fram rannsóknarspurningar og tilgátur.

X

Líftölfræði II (Klínísk spálíkön) (LÝÐ301F)

Námskeiðið er beint framhald af Líftölfræði I og veitir nemendum praktíska handleiðslu í tölfræðiúrvinnslu í eigin rannsóknarverkefnum. Útreikningar á hlutfallslegri áhættu og leiðréttri hlutfallslegri áhættu. Fylgni og einföld aðhvarfsgreining, margvíð línuleg aðhvarfsgreining og lógistísk aðhvarfsgreining. Námskeiðið byggist á fyrirlestrum og dæmatímum. Í dæmatímunum verður notast við tölfræðiforritið R.

X

Verkefni til meistaraprófs í faraldsfræði (FAR301L)

Meistaranám í faraldsfræði (MS) er 120 eininga þverfræðilegt framhaldsnám og þar af skal rannsóknarverkefni vera 60 einingar. Að öllu jöfnu má skilgreina 60e verkefni sem sjálfstæða rannsókn sem lýkur í vísindagrein, tilbúinni til birtingar, ásamt fræðilegum inngangi. Boðið er upp á einstaklingsviðtöl fyrir nýnema undir lok fyrsta misseris námsins, þar sem hugmyndir nemenda um rannsóknarverkefni eru ræddar. Í námskeiðinu Verklag í vísindum á öðru misseri fullvinna nemendur rannsóknaráætlun og velja leiðbeinanda og nefnd (þar sem við á). Nemendur geta nýtt námskeiðið Klínísk spálíkön, á þriðja misseri námsins, til úrvinnslu á gögnum fyrir lokaverkefni sitt. Þá er gert ráð fyrir að nemendur taki þátt í málstofum, æfingavörnum og mæti á að lágmarki í fimm opnar MPH/MS varnir á námsferlinum. Nánari leiðbeiningar um viðmið og framvindu lokaverkefnis er að finna á hópvef MPH/MS nema í Uglu. Nemar í faraldsfræði eru vistaðir innan Læknadeildar meðan á námi stendur, en brautskrást frá heimadeild leiðbeinanda.

Markmið meistaraverkefnis er að veita nemanum þjálfun í að hanna, skipuleggja, þróa og framkvæma rannsóknarverkefni í faraldsfræði, læra að taka tillit til þeirra takmarkana sem ráðast af aðferðum, tækni og reglum, að geta með sjálfstæðum hætti og í rituðu máli skilgreint rannsóknarviðfangsefni sitt, sett fram rannsóknarspurningar og tilgátur.

X

LÍftölfræði III (Lifunargreining) (LÝÐ079F)

Námskeiðið fjallar um tölfræðigreiningu á nýgengi (incidence) og eftirfylgnitíma (survival time) í ferilrannsóknum. Kennd verður notkun Poisson aðhvarfsgreiningarlíkana og aðferða í lifunargreiningu (survival analysis) eins og Kaplan-Meier aðferðarinnar (log-rank), Cox aðhvarfsgreiningar, Poisson aðhvarfsgreiningar og líkana með óstikuðum hættuföllum. Notast verður við tölfræðiforritin R. 

X

Internetið og upplýsingaleitir (UPP215F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á mikilvægi aðgangs að þekkingu og upplýsingum og þeir kynnist og geti beitt aðferðum við að meta þekkingar- og upplýsingalindir, einkum á rafrænu formi. Fjallað verður um notkun internetsins við upplýsingaleit og til samskipta t.d. með samfélagsmiðlum og farið í leitartækni og leitarvélar á internetinu. Enn fremur verður fjallað um  mismunandi tegundir rafrænna heimildalinda á ólíkum fræðasviðum og gerð grein fyrir leitaraðferðum. Nemendur munu öðlast reynslu í rafrænni upplýsingaleit og þjálfun í að leiðbeina öðrum við leitir.

X

Faraldsfræði næringar (NÆR701F)

Markmið námskeiðsins er að auka skilning nemenda á helstu rannsóknaraðferðum í faraldsfræði næringar og að efla skilning nemenda á notkun erfðafræði innan þessa sviðs.

Námskeiðið mun í byrjun fjalla um grunnatriði faraldsfræðinnar og svo verður farið ítarlega í rannsóknaraðferðir innan faraldsfræði næringar.  Þar á eftir verða kynnt sérstök viðfangsefni innan þessa sviðs.  Í lokin verður fjallað um notkun erfðafræði í faraldsfræði næringar (nutrigenomics).

X

Áhrifavaldar heilbrigðis, forvarnir og heilsuefling (LÝÐ104F)

Stærstu áhættuþættir ótímabærra dauðsfalla svo sem hár blóðþrýstingur, tóbaksnotkun, yfirþyngd og hreyfingarleysi valda um 22 milljónum dauðsfalla árlega á heimsvísu. Bæta mætti allt að 5 árum við meðalaldur jarðarbúa með því að draga hóflega úr algengi átta algengstu áhættuþáttanna. Markmið námskeiðsins er að undirbúa nemendur fyrir þetta viðfangsefni og skiptast áherslur í nokkra meginþætti:

1. Áhrifavaldar heilbrigðis: Hvaða þættir hafa mest áhrif á heilsu og heilbrigði?

2. Aðferðafræði:

a) Hvernig skipuleggjum við forvarnar- og heilsueflingarverkefni?

b) Hvar er hagkvæmast að byrja? Hagfræðileg greining á inngripum.

c) Hvernig höfum við jákvæð áhrif á atferli einstaklinga? Líkön í atferlisfræði, áhugahvetjandi samtöl, atferlishagfræði, samskiptafræði og félagsleg markaðsfærsla.

d) Hvernig höfum við áhrif á ,,kerfið”? Hagsmunagæsla (lobbyismi), bréfaskrif til þingmanna, umfjöllun í fjölmiðlum.

3. Nánari umfjöllun um helstu viðfangsefni: háþrýsingur, sykursýki, hjarta- og æðasjúkdomar, næring og mataræði, ofþyngd og offita, hreyfing, tóbaksvarnir, krabbamein, áfengi og vímuefni, slysavarnir, umhverfi og atvinna, geðrækt og sjálfsvígsforvarnir, kynheilbrigði og sjálfsmynd, sértækar lausnir fyrir börn og unglinga.

Framsetning: Fyrirlestrar umsjónarkennara og valinna gestafyrirlesara sem eru meðal fremstu sérfræðinga þjóðarinnar á sínu sviði. Lagt verður upp úr umræðum, virkni og þátttöku nemenda í tímum. Einnig vinna nemendur hópverkefni þar sem þeir kynna sér til hlítar valinn áhættuþátt og gefa tillögur að úrbótum.

X

Siðferðileg álitamál samtímans (HSP723M)

Áleitin siðferðileg úrlausnarefni ofarlega á baugi í nútímasamfélagi eru meginviðfangsefni þessa námskeiðs. Sjónum er beint að möguleikum siðfræðinnar á að takast á við klemmur sem upp koma, jafnt í lífi einstaklinga sem á samfélagsgrundvelli. Val á viðfangsefnum getur breyst milli ára en meðal mögulegra viðfangsefna námskeiðsins má nefna tjáningarfrelsi, stöðu flóttafólks, réttindi dýra, fátækt og ójöfnuð, kynjamisrétti, kynþáttamisrétti, umhverfismál og ýmis álitamál úr heilbrigðiskerfinu. Farið er í tengsl fræðilegrar og hagnýttrar siðfræði. Námskeiðið byggir á fyrirlestrum með ríkri áherslu á virka þátttöku nemenda í umræðum.

X

Inngangur að lyfjavísindum (LYF107M)

Lyfjafræðin er fjölbreytt faggrein. Með samþættingu ólíkra raungreinafaga eins og lífrænnrar efnafræði, líffræði og lífefnafræði getum við skilið hvernig hægt er að þróa ný lyf sem geta bætt núverandi sjúkdómsmeðferðir eða verið alfarið ný á markaði. Rannsóknir á eðlisefnafræðilegum eiginleikum þeirra, formúleringu í hentug lyfjaform og áhrif lyfsins á líkamann eru því mikilvægar. Í þessu námskeiði verður farið yfir þessa þætti á yfirgripsmikinn hátt með það að markmiði að gefa heildarsýn á þessa faggrein og er ætluð þeim sem hafa ekki grunn í lyfjafræði eða lyfjavísindum. Þetta námskeið er ætlað þeim sem hafa ekki bakgrunn í lyfjafræði eða lyfjavísindum

X

Meinalíffræði - hvernig sjúkdómar verða til - áhrif erfða og umhverfis (LÆK015F)

Í námskeiðinu er fjallað um hvaða líffræðilegar breytingar liggja að baki sjúklegu ástandi og hvaða þátt erfðir og/eða umhverfi eiga þar í. Námskeiðið er fyrst og fremst ætlað nemendum í framhaldsnámi í læknadeild sem ekki hafa lesið læknisfræði.  Fyrirlesarar flytja yfirlitserindi um valið efni innan þess efnisflokks sem nefndur er og velja síðan eina nýlega vísindagrein um skylt efni sem nemandi er fenginn til að kynna og gagnrýna. Greinum um hvert umfjöllunarefni er dreift til nemenda í upphafi námskeiðsins svo að allir geti komið undirbúnir og tekið þátt í umræðum.

Form: Tíu skipti, tvöfaldir tímar, fyrirlestur í fyrri tímanum og kynning nemanda á viðeigandi tímaritsgrein í þeim seinni.

Námskeiðið fer fram á ensku.

X

Faraldsfræði hreyfingar (ÍÞH211F)

Markmið: Að nemendur

– dýpki þekkingu sína á samspili lífshátta sem tengjast hreyfingu og heilbrigði og skoði rannsóknir á því sviði

– öðlist aukna þekkingu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum og á áhrifum hreyfingar og þjálfunar á þá, bæði gegnum fyrirbyggjandi aðgerðir (fyrsta stigs forvarnir) og sem meðferðarúrræði (annars stigs forvarnir).

Námskeiðinu er ætlað að kynna faraldsfræðilegar rannsóknaraðferðir á sviði tengsla hreyfingar og heilsufars og auka skilning og færni nemenda í að lesa vísindagreinar með gagnrýnum hætti. Farið verður í saumana á því hvernig hreyfing hefur áhrif á heilbrigði og minnkar áhættu á ýmsum lífsstílstengdum sjúkdómum. Rannsóknir og athuganir á samspili hreyfitengdra lífshátta og ólíkra heilsufarsþátta verða reifaðar. Námskeiðið verður kennt í fyrirlestraformi.

X

Spurningalistakannanir (FÉL089F)

Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning og verklega færni til að hanna og framkvæma spurningalistakannanir. Rætt verður um helstu úrtaksaðferðir og tegundir spurningalistakannanna (símakönnun, netkönnun o.s.frv.). Fjallað verður um helstu atriði í spurningalistagerð; einkanlega um orðalag og samhengi mælitækja (spurninga). Enn fremur verður fjallað um grundvallaratriði í mælingafræði og aðferðir til þess að meta áreiðanleika og réttmæti mælitækja. Í þessu samhengi verður farið yfir notkun þáttagreiningu (factor analysis) og atriðagreiningu (item analysis). Áhersla er lögð á að nemendur fái verklega reynslu af framkvæmd og úrvinnslu kannanna.

Að jafnaði er þetta námskeið kennt annað hvert ár.

X

Heilbrigðis- og lífssiðfræði (HSP823M)

Fjallað verður um nokkur helstu álitamál á sviði lífsiðfræði á síðustu árum, einkum í tengslum við þróun á sviði erfðavísinda, og erfðarannsókna og hugsanleg áhrif þeirra á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu.

Námskeiðið verður kennt samþjappað frá 2.–25. mars. Fyrirlestrar eru á þriðjudögum og fimmtudögum 15–17:20. 

Í lok námskeiðsins verður haldin málstofa með framsögum nemenda og verður tilhögun hennar ákveðin í samráði við nemendur. 

X

Siðfræði vísinda og rannsókna (HSP806F)

Námskeiðið er ætlað framhaldsnemum eingöngu. Tekið verður mið af þörfum nemenda af ólíkum fræðasviðum við útfærslu námskeiðsins. 

Kennsla fer fram frá 13. janúar til 17. febrúar á föstudögum kl. 13:20 til 15:40.

Viðfangsefni:
Fjallað verður meðal annars um eftirfarandi efni: Fagmennska og ábyrgð vísindamanna. Kröfur um fræðilega hlutlægni og hlutleysi vísinda. Jafnréttissjónarmið og ríkjandi viðmið í vísindastarfi. Vald og vísindi. Hagsmunaárekstrar í vísindastarfi. Vísindin og samfélagið. Siðfræði rannsókna.

Markmið: 
Nemendur öðlist þekkingu á siðferðilega vídd vísinda og rannsókna og fái þjálfun í að greina og rökræða um siðferðileg ágreiningsefni tengd vísindum og rannsóknum í nútímasamfélagi.

Kennsla er í formi fyrirlestra og umræðna. Námskeiðið er hugsað sem akademískt samfélag þar sem nemendur taka virkan þátt í markvissri umræðu um viðfangsefnin. Hver nemandi flytur framsöguerindi samkvæmt áætlun sem gerð er í upphafi misseris og jafnframt kynna aðrir nemendur sér efnið og ræða það í málstofunni undir handleiðslu kennara.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hafðu samband

Miðstöð í lýðheilsuvísindum

Sturlugata 8, 102 Reykjavík
Sími 525 4956
Netfang: publichealth@hi.is 

Opið mánu- til fimmtudaga 10-16 og föstudaga 10-12.

Fylgstu með okkur
 Facebook Logo Twitter PNG, Logo Twitter Transparent Background - FreeIconsPNGTwitter

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.