Skip to main content

Tækifæri í hindrunum

Svanborg Rannveig Jónsdóttir, doktorsnemi í menntunarfræðum

„Ég tel mikilvægt að nemendur fái tækifæri gegnum alla skólagöngu sína til að vinna skapandi og raunveruleikatengd verkefni sem eru þeim sjálfum mikilvæg," segir Svanborg Rannveig Jónsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið, en hún vinnur að rannsókn á stöðu nýsköpunarmenntar í íslenskum grunnskólum. „Í minni eigin kennslu í grunnskóla sá ég fleiri markmið rætast í nýsköpunarmennt en öðrum greinum sem ég hafði kennt, svo sem að nemendur væru skapandi, virkir og framkvæmdasamir og að þeir öðluðust þau viðhorf að þeir gætu gert ýmislegt gagnvart margvíslegum vandamálum en væru ekki óvirkir viðtakendur og þolendur."

Svanborg Rannveig Jónsdóttir

„Ég tel mikilvægt að nemendur fái tækifæri gegnum alla skólagöngu sína til að vinna skapandi og raunveruleikatengd verkefni sem eru þeim sjálfum mikilvæg.“

Svanborg Rannveig Jónsdóttir

Í nýsköpunarmennt eru nemendur fyrst og fremst að vinna með að bæta tilveruna á einn eða annan hátt, þjálfast í að lesa umhverfi sitt, náttúrulegt og tæknilegt. Þeir þróa stundum hugmyndir yfir í afurðir sem verða söluvörur. „Nemendur kynnast því hvernig hugmyndir verða að verðmætum ásamt því að læra og þjálfast í skipulagningu, stjórnun og samvinnu."
Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hvar skólafólk staðsetur nýsköpunarmennt í skólastarfinu, hvernig það upplifir hana og hvaða stuðningur er nauðsynlegur til að koma henni fyrir. Gagnasöfnun felst í að fylgjast með kennslu í grunnskólum og ræða við nemendur, kennara og skólastjórnendur.

Ein af vísbendingunum sem hefur komið í ljós í rannsókn Svanborgar er sú að almenningur og skólafólk veit almennt lítið um nýsköpunarmennt. Úr rannsókninni hafa einnig verið þróuð hugtakalíkön til að skoða ferli nýjunga í skólastarfi. Vonast er til að líkönin komi vísindasamfélaginu, stjórnvöldum, kennaranemum, skólafólki á vettvangi og almenningi til góða svo að betri yfirsýn fáist yfir hversu margir þættir spila saman og á hvaða hátt þeir hafa áhrif hver á annan.

Svanborg vonast einnig til að niðurstöðurnar nýtist til að þróa markvisst nám fyrir íslenska kennaranema og starfandi kennara í nýsköpunarmennt og í framhaldi af því að þróa samfellt og stígandi nám á þessu sviði fyrir grunnskólanemendur. „En aðallega vonast ég þó til að niðurstöður nýtist til að ýta undir að íslenskum nemendum verði töm möguleikahugsun, þ.e. að þeir geti komið auga á möguleika frekar en hindranir og jafnvel að búa til möguleika og tækifæri úr hindrunum," segir Svanborg.

Aðalleiðbeinandi er Allyson Macdonald prófessor við Menntavísindasvið og meðleiðbeinendur eru Örn Daníel Jónsson, prófessor í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Anna Craft, prófessor við Háskólann í Exeter.