Skip to main content

Kynjakvótar og stjórnun fyrirtækja

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

„Hvers vegna eru fáar konur við stjórn íslenskra fyrirtækja?“ spyr Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Félags- og mannvísindadeild, í rannsókn sem hún vinnur að þessi misserin. Athygli vekur að Íslendingar tróna hæstir þjóða heims á svokölluðum kynjabilskvarða (e. Gender Gap Index) sem snýr að jafnrétti kynjanna, sem þýðir að hér sé jafnrétti mest. Þó eru konur sjaldséðar í hópi æðstu stjórnenda í atvinnulífinu og hefur ríkisstjórn Íslands því sett lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja til þess að fjölga konum þar.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

Athygli vekur að Íslendingar tróna hæstir þjóða heims á svokölluðum kynjabilskvarða (e. Gender Gap Index) sem snýr að jafnrétti kynjanna, sem þýðir að hér sé jafnrétti mest.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir

Í rannsókn Guðbjargar, sem ber yfirskriftina „Vinnufyrirkomulag, vald og líðan æðstu stjórnenda og annarra starfshópa. Kynjasjónarhorn“ safnar hún upplýsingum meðal stjórnenda í atvinnulífinu um það hvort og þá hvernig bæta megi vinnuaðstæður og líðan og hvort þörf sé á því að endurskilgreina og endurbæta störfin til að gera báðum kynjum auðveldara að gegna stjórnendastörfum.

„Fyrstu niðurstöður mínar benda til þess að meirihluti stjórnenda telji að fyrirkomulag vinnu, s.s. langur og óreglulegur vinnudagur og löng ferðalög, vinni gegn konum. Stór hluti kvenkyns stjórnenda bendir auk þess á staðalmyndir, hefðir og venjur sem orsakir,“ segir Guðbjörg. Athygli vekur einnig að þrír af hverjum fjórum kvenstjórnendum og þriðjungur karlstjórnenda telur að karlar hafi ekki áhuga á að velja konur til að sinna æðstu stjórnunarstörfum.

„Meirihluti almennings hér á landi er hins vegar sammála því að auka þurfi hlut kvenna við stjórnun fyrirtækja. Til þess að hægt sé að koma því við þurfum við að finna þær skipulagslegu og félagslegu hindranir sem koma í veg fyrir að konur gegni þessum störfum og leiðir til þess að ryðja mögulegum hindrunum úr veginum. Þess vegna er þessi rannsókn mikilvæg,“ segir Guðbjörg enn fremur.