Rebekka Blöndal og Ragnheiður Gröndal á jólaháskólatónleikum
Stakkahlíð / Háteigsvegur
Skála
Hátíð ljóss og friðar nálgast óðfluga og við í Háskólatónleikaröðinni bregðumst ljúfmannlega við því og efnum til sannkallaðrar jólagleði í hádeginu miðvikudaginn 13. desember. Söngkonurnar Rebekka Blöndal og Ragnheiður Gröndal munu þá flytja jólatónlist Ellu Fitzgerald með pompi bæði og prakt en jólaplötur Ellu Fitzgerald njóta mikilla vinsælda og eru algerlega sígild verk í þeim fræðunum.
Tónleikarnir fara fram í Stakkahlíð, húsnæði Menntavísindasviðs HÍ. Tónleikarnir verða í Skála sem er gegnt Hámu á fyrstu hæð. Með tónleikunum verður húsnæðið kvatt en sviðið er að færa sig yfir á Sögu á nýju ári. Það verða því bæði gleði- og angurværðartár á hvörmum er þær Rebekka og Ragnheiður hjálpa okkur að kveðja Stakkahlíðina með ljúfum en þó ærslafullum tónum! Njótum því saman með vetrarsól í sinni og glóð í geði!
Tónleikarnir hefjast kl. 12.15. Tónleikunum verður einnig streymt og hægt verður að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls.
Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér.
Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir alla - Tónlist fyrir alla“ og er myndast við að endurspegla það í dagskránni.
Söngkonurnar Rebekka Blöndal og Ragnheiður Gröndal flytja jólatónlist Ellu Fitzgerald á jólaháskólatónleikum í Skála í Stakkahlíð miðvikudaginn 13. desember kl. 13.15.