Skip to main content

Ráðstefna um smásögur

Ráðstefna um smásögur - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. september 2023 10:00 til 1. október 2023 17:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Auðarsal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Ráðstefnan Heimur smásögunnar verður haldin í Háskóla Íslands dagana 30. september og 1. október. Á þriðja tug bókmenntakennara á Hugvísindasviði og Menntavísindasviði fjalla þar um smásögur frá ýmsum hliðum og setja þær í alls konar samhengi. Hægt er að skoða dagskrá ráðstefnunnar og ágrip erinda á vefsíðu ráðstefnunnar, heimursmasogunnar.hi.is.

Á hálftíma fresti stígur nýr fyrirlesari í pontu og skoðar jafnt innlendar sem erlendar smásögur. Forverar smásögunnar verða teknir til athugunar sem og hugmyndir um smásöguna fyrr og nú. Félagslíf hennar verður einnig skoðað, s.s. þegar hún safnast í sveiga. Spurt verður hvaða hlutverki smásögur gegna í skólakerfinu, hvernig þær hafa verið matreiddar fyrir unga lesendur og hvernig þeim gengur að skilja þær. Gera smásögur að einhverju leyti meiri kröfur til lesenda og höfunda en lengri ritsmíðar? Hefur lengd eitthvert fagurfræðilegt gildi? Er kannski eitthvað hinsegin við smásöguna? Geta smásögur verið dagsannar eða verða þær að vera skáldverk? Og hvað með þýðingar á smásögum fyrr og nú? Eða sögur eftir höfunda af erlendum uppruna á Íslandi?

Heimur smásögunnar er þriðja ráðstefnan sinnar tegundar en áður hafa verið haldnar ráðstefnurnar Heimur skáldsögunnar og Heimur ljóðsins sem báðar gátu af sér samnefnd rit. Aðstandendur ráðstefnunnar nú eru Bókmennta- og listfræðastofnun sem og STUTT, rannsóknastofa í smásögum og styttri textum.

Heimur smásögunnar verður gaumgæfður í Auðarsal (stofu 023) í Veröld og er ráðstefnan öllum opin. Hún stendur frá 10–17 báða dagana en gert verður klukkutíma hádegishlé.