Meistarafyrirlestur í umhverfisverkfræði -Sunna Viðarsdóttir

VR-II
Stofa 156
Meistaranemi: Sunna Viðarsdóttir
Heiti verkefnis: Reiknilíkan fyrir öldur og strauma við Landeyjahöfn
___________________________________________
Deild: Umhverfis- og byggingarverkfræðideild
Leiðbeinandi: Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild
Aðrir í meistaranefnd: Sigurður Sigurðarson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni
Prófdómari: Helgi G. Gunnarsson, umhverfisverkfræðingur hjá Vatnaskilum
Ágrip
Landeyjahöfn er staðsett á suðurströnd Íslands, sandströnd sem er útsett fyrir háum, orkumiklum öldum og með miklum sandflutningum. Frá opnun hafnarinnar árið 2010 hefur hún oft verið lokuð á veturna þar sem ekki hefur tekist að viðhalda öruggu siglingadýpi. Þrátt fyrir tíðar dýptarmælingar og öldu-, straum-, og vindmælingar er þörf á betri skilningi á sandflutningum á svæðinu, t.d. svo hægt sé að skipuleggja fyrirbyggjandi dýpkunaraðgerðir út frá veðurspám. Markmið verkefnisins var að gera tvívítt reiknilíkan af öldum og straumum sem hægt væri að nota sem grunn fyrir hermun á sandflutningum við Landeyjahöfn. Opni hugbúnaðarpakkinn TELEMAC-MASCARET var notaður ásamt frjálsa hugbúnaðinum QGIS og BlueKenue fyrir for- og eftirvinnslu. Líkanið var kvarðað fyrir veður með ölduhæð yfir 3 metrum úr suðvestri, sem er ríkjandi ölduátt og jafnframt sú orkumesta. Hermaðir straumar og öldur pössuðu vel við mæld gildi frá öldudufli og radar. Straumstefnumynstrið á mismunandi tímum á sjávarfallabylgjunni var nánast alveg eins og straumarnir sem radarinn mældi og meðalhæð hermaðrar kenniöldu við ölduduflið var innan við 2% frá mældri kenniöldu. Kvarðaða líkanið var notað til að herma storm úr suðaustri og staðbundnar straumstefnur voru í stórum dráttum í samræmi við radarmælingar en hermaða ölduhæðin var vanmetin. Ástæða fráviks í öldu var skortur á raunhæfum gögnum um úthafshöldu til að nota sem jaðarskilyrði í líkaninu.
Sunna Viðarsdóttir
