Skip to main content

Meistarafyrirlestur í hagnýtri tölfræði - Ólafur Jón Jónsson

Meistarafyrirlestur í hagnýtri tölfræði - Ólafur Jón Jónsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
2. júní 2020 14:00 til 15:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fyrirlestrinum verður streymt: https://eu01web.zoom.us/my/annahelga

Meistaranemi: Ólafur Jón Jónsson

Heiti verkefnis: Greining á niðurstöðum kennslukannana Háskóla Íslands 2013-17

___________________________________________

Deild: Raunvísindadeild

Leiðbeinandi: Anna Helga Jónsdóttir, dósent við Raunvísindadeild

Einnig í meistaranefnd: Margrét Sigrún Sigurðardóttir, lektor við Viðskiptafræðideild og Daði Már Kristófersson, prófessor og forseti Félagsvísindasviðs.

Prófdómari: Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild

Ágrip

Markmið þessa verkefnis var að greina ýmsa þætti úr niðurstöðum kennslukönnunar Háskóla Íslands. Greindur var munur á því hvernig mismunandi hópar nemenda gefa námskeiðum og kennurum einkunn í kennslukönnunum með sérstakri áherslu á því hvaða kyn kennara á í hlut. Skipulegur breytileiki þátta í líkani var einnig greindur og í framhaldi af því hægt að sjá hversu stóran hluta af heildarbreytileikanum í niðurstöðunum var útskýrður af þáttunum.

Rannsóknartímabilið spannaði níu skólaannir, frá haustönn ársins 2013 til og með haustannar ársins 2017. Gögnin skiptust óhjákvæmilega í tvo hluta; námskeiðshluta og kennarahluta. Fjöldi úrlausna í gagnasettunum voru 129.683 í námskeiðshluta og 183.815 í kennarahluta. Námskeiðshlutinn snéri að þeim hluta könnunarinnar þar sem spurt var um námskeið og honum var skipt í fimm meginþætti; framlag stúdents, afrakstur námskeiðs, skipulag námskeiðs, vinnuálag og heildareinkunn námskeiðs. Í kennarahluta var spurt um kennara í námskeiði og voru meginþættirnir þrír; kennsla, fræðileg hvatning og heildareinkunn kennara. Í heildareinkunnum námskeiða og kennara voru svörin á skalanum 1-10 en í öðrum meginþáttum var fullyrðingum svarað á fimm kvarða Likert skala þar sem nemendur tilgreindu hversu sammála eða ósammála þeir voru.

Notast var við slembiþáttalíkön við greininguna og voru gerð líkön fyrir hvern meginþátt. Niðurstöður voru á þann veg að ráðandi hluti heildarbreytileikans var óútskýrður í öllum líkönum. Í kennslukönnunum er almennt verið að meta námskeið og því væri ásættanleg niðurstaða að sjá að breytileiki vegna námskeiða myndi bera meiri þunga en óútskýrði breytileikinn gerði. Slík var ekki raunin og vekur upp spurningar um það mælitæki sem kennslukönnunin er. Breytileiki vegna nemenda var yfirleitt lítill sem gaf vísbendingar um að nemendur vissu hvað þeir voru að gera þegar þeir svöruðu könnuninni. Þar sem fjöldi gagnapunkta var gríðarlega mikill var yfirleitt tölfræðilega marktækur munur á milli fastaþátta í líkönum þó svo munurinn hafi verið lítill. Á milli kynja mátti sjá að sú samsetning sem hafði alltaf verstu útkomuna úr líkönum voru kvenkyns kennarar og karlkyns nemendur. Munurinn á hópunum var þó mjög lítill. Nánast eini munurinn milli fastaþátta sem taldist markverður í flestum líkönum var á milli þeirra nemenda sem féllu í námskeiði og þeirra nemenda sem stóðust námskeiðið.