Skip to main content

Með fróðleik í fararnesti: Sveppum safnað í Heiðmörk

Með fróðleik í fararnesti: Sveppum safnað í Heiðmörk - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. ágúst 2023 17:00 til 19:00
Hvar 

Heiðmörk – við Rauðhóla

Nánar 
Klæða sig eftir veðri og taka með ílát undir sveppina - Sveppabækur koma að góðu gagni

Langar þig að þekkja góða sveppi frá þeim vondu? Þá ættirðu að koma með í sveppaferð í Heiðmörk, fimmtudaginn 24. ágúst með Háskóla Íslands og Ferðafélagi barnanna. Núna er nefnilega rétti tíminn – sveppatíminn.

Sveppir eru algert sælgæti og það sem er einna skemmtilegast við þá – þeir vaxa villtir í íslenskri náttúru og ekki síst í skóglendi eins og í Heiðmörk. Það er hins vegar afar mikilvægt að þekkja þá ætu og sniðganga þannig þá vondu og sumir sveppir geta verið eitraðir.

Gísli Már Gíslason, prófessor emerítus í líffræði við Háskóla Íslands og fararstjóri hjá FÍ tekur vel á móti göngufólki ásamt fríðu föruneyti sérfræðinga frá HÍ. Gísli Már hefur verið kennari við HÍ í áraraðir auk þess að fjalla um allskyns þætti í lífríki og umhverfi í ferðum og fjölmiðlum.

Mæting er kl. 17 á einkabílum á bílastæði við Rauðhóla. Haldið verður í halarófu frá bílastæðinu lengra inn í Heiðmörkina og ætla má að ferðin í heild sinni taki um tvær klst. Gísli Már hvetur fólk til að koma með körfur eða ílát undir fenginn og að klæða sig eftir veðri.

Gangan er hluti af samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna: Með fróðleik í fararnesti sem hefur staðið yfir frá aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011.

Ókeypis er í gönguna eins og allar aðrar í röðinni um Fróðleik með fararnesti. Ekkert að panta, bara mæta! 

Langar þig að þekkja góða sveppi frá þeim vondu? Þá ættirðu að koma með í sveppaferð í Heiðmörk, fimmtudaginn 24. ágúst með Háskóla Íslands og Ferðafélagi barnanna. Núna er nefnilega rétti tíminn – sveppatíminn.

Með fróðleik í fararnesti: Sveppum safnað í Heiðmörk