Skip to main content

Kvikmyndasýning: Skuggar gleymdra forfeðra

Kvikmyndasýning: Skuggar gleymdra forfeðra - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
7. febrúar 2023 18:00 til 20:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Auðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þann 7. febrúar sýnir Úkraínuverkefni Háskóla Íslands kvikmyndina: Skuggar gleymdra forfeðra (Тіні забутих предків – enska: Shadows of Forgotten Ancestors) eftir leikstjórann Sergei Parajanov. Myndin sem er frá árinu 1964 er aðlögun á skáldsögu frá 1911 eftir úkraínska rithöfundinn Mykhailo Kotsiubynsky. Myndin verður sýnd í Auðarsal í Veröld kl. 18:00-20:00. 

Kvikmyndin er tekin í úkraínsku Karpatafjöllunum en sagan byggir á þjóðsögum og venjum Hutsul-fólksins í vesturhluta Úkraínu og Rúmeníu. Skuggar gleymdra forfeðra er ástarsaga Ivans og Maritsjku. Elskendurnir tveir koma frá fjölskyldum sem banna ást þeirra, en bannið leiðir dauða og örvæntingu yfir þorp þeirra. Myndin er leikin á Hutsul-tungumáli staðarins, sem er úkraínsk mállýska. Parajanov beitir í myndinni táknsæi þjóðmenningar svæðisins sem hverfist um trúartákn, grafarsiði og fórnathafnir, þar sem fléttast saman krossar, grafir, draugar og búfénaður. Öfugt við kröfur hins sovéska raunsæis í kvikmyndagerð lagði Parajanov áherslu á sjónmenningu og þjóðfræðilega nálgun. Í Skuggum gleymda forfeðra koma helstu einkenni Parajanovs sem kvikmyndagerðarmanns vel fram, ekki síst óhefðbundin litanotkun og formtilraunir. Sú sérstaða sem hann skapaði sér ásamt trúarlegum og þjóðernislegum þáttum myndarinnar, vöktu tortryggni sovéskra yfirvalda, sem á endanum settu Parajanov á svartan lista.  Myndin var frumsynd í Kyiv 1965 á sama tíma og yfirvöld hertu kúgunaraðgerðir gegn úkraínskum menntamönnum, skáldum og listamönnum sem voru í takt við herferð sovéskra yfirvalda gegn andófsfólki. Frumsýningin sjálf varð andófsvettvangur þegar rithöfundurinn Ivan Dzyuba sagði í ávarpi á undan frumsýningu myndarinnar: „Hér höfum við mikið listaverk en því fylgir mikil sorg, þegar verið er að fangelsa ungt listafólk um alla Úkraínu“. Margir áhorfenda risu úr sætum til að lýsa andúð sinni á ofsóknunum, þótt slík hegðun væri áhættusöm.

Parajanov fæddist í Tbilisi og nam kvikmyndagerð í Moskvu. Leiðbeinendur hans þar voru tveir úkraínskir handritshöfundar og leikstjórar. Ihor Savchenko og hinn frægi Oleksandr Dovzhenko.  Fyrsta kvikmynd Andreis Tarkovskí, Bernska Ívans, hafði sterk áhrif á Parajanov en síðar átti hann einnig eftir að hafa áhrif Tarkovskí sem dáði myndir hans mjög. Annar áhrifavaldur var ítalski kvikmyndagerðarmaðurinn Pier Paolo Pasolini, sem Parajanov tók nánast í guðatölu og sagði kvikmyndagerðarstíl hans „tignarlegan“. 

Skuggar gleymdra forfeðra vakti heimsathygli og er jafnan talin til bestu kvikmynda Úkraínu. Stjórn Úkraínsku kvikmyndasamsteypunnar sem var hluti af hinni sovésku, Goskino, lofaði myndina fyrir að „miðla ljóðrænum gæðum og heimspekilegri dýpt sögu M. Kotsiubynsky í gegnum tungumál kvikmynda“ og sagði hana til vitnis um „glæsilegan sköpunarkraft Dovzhenko stúdíósins“. 

Sovésk yfirvöld settu Parajanov síðar á svartan lista vegna stuðnings hans við úkraínska andófsmenn og meinta þjóðernissinna og hægði það mjög á kvikmyndagerð hans um tíma. Hann náði ekki að ljúka öllum verkefnum sínum í Úkraínu og enn liggja óklárðu verk á borð við „Freskurnar í Kyiv“. Á áttunda áratugnum Sergei Parajanov bannað að gera kvikmyndir, og síðar handtekinn og hlaut fangelsisdóma, fyrir meðal annars úkraínska þjóðernishyggju og samkynhneigð. „Ég er Armeni fæddur í Tbilisi sem sat í rússnesku fangelsi fyrir úkraínska þjóðernishyggju.“ Þannig lýsti Sergei Parajanov sjálfum sér. 

Kvikmyndaleikstjórar víða um heim eins og Martin Scorsese og Federico Fellini dáðust að verkum Parajanov og alþjóðasamfélagið, með þátttöku franska rithöfundarins Louis Aragon, hjálpaði til við að koma honum úr fangelsi. Til að halda geðheilsu á meðan á fangelsisvist hans stóð teiknaði Parajanov stöðugt og bjó til klippimyndir úr rusli og medalíur úr mjólkurflöskulokum. Listaverk hans, og sérstaklega Monu Lisu klippimyndir hans, settu hann á stall með Picasso og Warhol. Leikstjórar frá Hollywood til Írans og fatahönnuðir frá New York til Brasilíu, og tónlistarfólk eins og Madonna og Lady Gaga hafa skapað verk undir áhrifum frá Parajanov.

 

Úkraínuverkefni Háskóla Íslands sýnir kvikmyndina: Skuggar gleymdra forfeðra (Тіні забутих предків – enska: Shadows of Forgotten Ancestors) í Auðarsal í Veröld, þriðjudaginn 7. febrúar kl. 18:00-20:00. 

Kvikmyndasýning: Skuggar gleymdra forfeðra