Skip to main content

Hagræn þróun sjávarútvegs 1860-2020

Hagræn þróun sjávarútvegs 1860-2020 - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
31. janúar 2023 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 304

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Magnús S. Magnússon, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, flytur fyrirlestur í Málstofu í félags- og hagsögu sem hann nefnir „Hagræn þróun sjávarútvegs 1860-2020. Skýringar á þversögn í mynd okkar af útvegi 19. aldar.“ Málstofan verður í stofu 304 í Árnagarði, þriðjudaginn 31. janúar kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin

Útdráttur

Hagræn þróun sjávarútvegs 1860-2020. Skýringar á þversögn í mynd okkar af útvegi 19. aldar.

Fátt þykir augljósara en sú staðreynd að fiskveiðar gegndu lykilhlutverki í umbreytingu atvinnu- og samfélagshátta á Íslandi á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Hins vegar hefur skort mikilvægar tölulegar upplýsingar í ýmsum þáttum til að lýsa þróun fiskveiðanna m.a. vegna þess að talnameðferðin hefur oft reynst vandasöm. Í sumum tilvikum hefur skorturinn á samræmi hagtalna um fiskveiðarnar leitt til þess að dregnar hafa verið allvafasamar ályktanir um þróun og orsakasamhengi í þróun þessarar undirstöðu atvinnugreinar. Áður ónotaðar heimildir á Þjóðskjalsafni Íslands koma hér að gagni við að afla dýpri þekkingar og rekja sögu fiskveiðanna á tímum þegar upplýsingar skorti hvað mest.

Í málstofunni verða kynntar áður óbirtar hagtölur sem sýna í óslitinni atburðarás þróun árabátaútgerðar og þilskipaútgerðar frá seinni hluta 19. aldar þar til þessum kafla fiskveiðisögunnar lauk skömmu eftir 1920. Ennfremur verða kynntar niðurstöður rannsóknar yfir sama tímabil á þeim miklu fórnum sem drukknanir sjómanna kostuðu í mannslífum talið.

Um fyrirlesarann

Magnús S. Magnússon lauk doktorsprófi í hagsögu frá Háskólanum í Lundi 1985. Starfaði á Hagstofu Íslands bæði sem sérfræðingur og skrifstofustjóri. Starfar nú í hlutastarfi á Hagstofunni við rannsóknir og gerð veftaflna um sögulegar hagtölur sem er framhald Hagskinnu í stafrænu formi.

 

Magnús S. Magnússon, sérfræðingur á Hagstofu Íslands.

Hagræn þróun sjávarútvegs 1860-2020