Skip to main content

Fyrirlestur vegna doktorsvarnar í líf- og læknavísindum - Margrét Ólafía Tómasdóttir

Fyrirlestur vegna doktorsvarnar í líf- og læknavísindum - Margrét Ólafía Tómasdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. desember 2017 17:00 til 18:00
Hvar 

Læknagarður

Stofa 343

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Laugardaginn 9. desember n.k. mun Margrét Ólafía Tómasdóttir, heimilislæknir, halda opinn fyrirlestur um doktorsritgerð sína:

Multimorbidity in the Norwegian HUNT popluation - An epidemiological study with reference to the concept allostatic load

Fjölveikindi meðal íbúa Norður-Þrændalaga (HUNT-rannsóknin) - Faraldsfræðileg rannsókn meðvísan til streituþátta

Doktorsvörnin fer fram í Þrándheimi þann 7. desember en verkefnið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Norwegian University of Science and Technology, NTNU, í Þrándheimi.

Andmælendur við vörnina eru dr. Dee Mangin, prófessor í heimilislækningum við McMaster University í Kanada og University of Otago, Nýja-Sjálandi, og dr. Esperanza Diaz, dósent í lýðheilsu og heimilislækningum við háskólann í Bergen. Leiðbeinendur við verkefnið voru dr. Jóhann Ág. Sigurðsson, prófessor í heimilislækningum við HÍ og NTNU, og dr. Linn Getz, prófessor í heimilislækningum við NTNU.

Ágrip úr rannsókn

Þegar sami einstaklingur þjáist af tveimur eða fleiri langvinnum sjúkdómum er það kallað fjölveikindi (e. multimorbidity). Á undanförnum árum hefur rannsóknum á fjölveikindum fleygt fram og algengi þeirra verið metið svo mikið að fjölveikindi hafa verið nefnd ein stærsta áskorun læknisfræðinnar á 21. öldinni. Sýnt hefur verið fram á að fjölveikir einstaklingar krefjast annarrar og flóknari nálgunar við læknisfræðilega meðhöndlun og meðferð og þurfa oftar að þiggja þjónustu á öllum stigum heilbrigðiskerfisins. Samt sem áður er lítið vitað um mögulega orsakaþætti fjölveikinda, sérstaklega hjá yngra fólki. Í reynsluheimi heimilislækna er vel þekkt að oft fara saman flókin sjúkdómsmynd og erfið lífsreynsla einstaklingsins. Rannsóknir hafa nú í vaxandi mæli sýnt fram á að langvinn uppsöfnuð streita eða streita yfir þeim mörkum sem einstaklingurinn þolir, veldur vanstillingu á helstu líffræðilegu stjórnkerfum líkamans. Sú vanstilling hefur verið kölluð allostatískt ofálag (e. allostatic overload) og getur með tímanum leitt til sjúkdómsástands.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að meta algengi og mynstur fjölveikinda hjá almennu norsku þýði og skoða möguleg tengsl milli erfiðra aðstæðna, bæði í barnæsku og á fullorðinsárum, og fjölveikinda seinna á ævinni, með hliðsjón af hugmyndafræði allostatísks ofálags.

Niðurstöðurnar sýndu fram á fjölveikindi hjá næstum helmingi þátttakenda. Tengslin milli upplifunar í æsku og fjölveikinda á fullorðinsárum voru sterk og jókst algengi fjölveikinda samfara erfiðari upplifun á æsku. Svipað samband fannst milli tilvistarvanda á fullorðinsárum og þróunar fjölveikinda, með auknu algengi fjölveikinda eftir því sem tilvistarvandi varð fjölþættari. Auk þess reyndust þættir til mats á allostatísku álagi benda til meira ofálags hjá þeim sem upplifðu erfiða æsku. Með hliðsjón af mynstrinu sem sást varðandi allostatíska þætti styrkir þetta upphaflega tilgátu okkar. Þannig má leiða að því líkum að erfiðar aðstæður skrifist í líkamann með því að valda vanstillingu líffræðilegra stjórnkerfa sem síðan leiða til þróunar flókinna sjúkdómsmynstra svo sem fjölveikinda.

Um doktorsefnið

Margrét Ólafía Tómasdóttir er fædd í Reykjavík árið 1981. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2001, kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands vorið 2007 og sérnámi í heimilislækningum sumarið 2014. Hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands 2013 og NTNU 2014. Margrét hefur starfað sem sérfræðingur í heimilislækningum við heilsugæsluna Efstaleiti frá 2014 og sem lektor við HÍ frá 2016.

Foreldrar Margrétar Ólafíu eru Tómas Bergsson, kennari við Verslunarskóla Íslands og Nína Valgerður Magnúsdóttir, kennari. Maki Margrétar er Heiðar Örn Stefánsson og börn þeirra af fyrri samböndum eru Tómas Björn Karlsson, Sigrún Karlsdóttir, Einar Arngeir Heiðarsson og María Kolbrún Heiðarsdóttir.

Margrét Ólafía Tómasdóttir

Fyrirlestur vegna doktorsvarnar í líf- og læknavísindum - Margrét Ólafía Tómasdóttir