Skip to main content

Doktorsvörn - Rannveig Oddsdóttir

Doktorsvörn - Rannveig Oddsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. febrúar 2018 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Rannveig Oddsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Kennaradeild, Menntavísindasviði Háskóla Íslands

Um verkefnið

Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um þróun ritaðrar textagerðar hjá íslenskum börnum í 1.–4. bekk. Leitað var svara við þremur meginspurningum:

 • Hvernig þróast ritaðar frásagnir og upplýsingatextar íslenskra barna í 1.–4. bekk?
 • Spáir færni í umskráningu, málþroska og sjálfstjórn í 1. bekk fyrir um frammistöðu barna í ritun í 2. og 4. bekk?
 • Hvernig birtist einstaklingsmunur í frammistöðu og framförum í ritaðri textagerð í 1.–4. bekk og hvað veldur honum?
 • Tveimur hópum barna, alls 83 börnum, var fylgt eftir í fjögur ár, frá 1.–4. bekk. Málþroski barnanna, umskráningarfærni og sjálfstjórn voru metin þegar þau voru í 1. bekk og gögnum um ritun safnað frá öðrum hópnum í 1., 2. og 4. bekk en frá hinum hópnum í 2., 3. og 4. bekk. Í hverri fyrirlögn skrifuðu börnin tvo texta, frásögn og upplýsingatexta.

  Blandaðar aðferðir voru notaðar við greiningu og úrvinnslu gagna. Megindleg greining á textunum náði til byggingar þeirra, lengdar, orðaforða, samloðunar og stafsetningar. Lýsandi tölfræði og t-próf voru notuð til að meta stöðu barnanna í rituninni í hverjum bekk fyrir sig og framfarir á milli ára. Samhliða megindlegri greiningu var rýnt nánar í gögnin með eigindlegum aðferðum til að draga skýrar fram einkenni textanna á hverjum tíma, framfarir milli ára og einstaklingsmun. Fylgniútreikningar og fjölbreytuaðhvarfsgreining voru notuð til að skoða tengsl á milli mælinga og forspárgildi umskráningar, málþroska og sjálfstjórnar fyrir frammistöðu í textagerð í 2. og 4. bekk.

  Ágætar framfarir urðu í textaritun á þeim tíma sem rannsóknin náði yfir. Öll árin stóðu börnin þó sterkar að vígi í ritun frásagna og heldur meiri framfarir urðu í ritun þeirra en upplýsingatexta. Mikill einstaklingsmunur var í getu og framförum barnanna og verður sá munur aðeins að hluta til skýrður með stöðu þeirra í umskráningu, málþroska og sjálfstjórn.

  Andmælendur eru dr. Jörgen Leonhard Pind, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

  Leiðbeinandi var dr. Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við Kennaradeild Háskóla Íslands.

  Meðleiðbeinendur voru dr. Sigurgrímur Skúlason, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun, og dr. Freyja Birgisdóttir, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Steinunn Gestsdóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

  Baldur Sigurðsson, deildarforseti Kennaradeildar Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni

  Um doktorsefnið Rannveig Oddsdóttir er fædd á Akureyri 1973 og ólst upp á bænum Dagverðareyri við Eyjafjörð. Hún lauk leikskólakennaranámi frá Fósturskóla Íslands 1994 og meistaranámi frá Kennaraháskóla Íslands, með áherslu á sérkennslu, 2004. Rannveig kenndi um árabil í leik- og grunnskólum en hefur undanfarin ár sinnt kennslu og rannsóknarstörfum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og starfar nú sem sérfræðingur við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Mál og læsi hafa verið helstu áherslur Rannveigar í námi og starfi. Hún hefur unnið að því að þróa námsgögn til að efla málþroska barna og tekið þátt í stefnumótun og þróunarstarfi sem varðar læsiskennslu í leik- og grunnskólum. Rannveig er gift Svanlaugi Jónassyni og eiga þau þrjú börn, Kolbrá, Bjartmar og Steinar.

  Rituð textagerð barna í 1.–4. bekk: Þróun, einstaklingsmunur og áhrif umskráningar, málþroska og sjálfstjórnar