Skip to main content

Doktorsvörn í vistfræðilíkönum - Chrispine Nyamweya

Doktorsvörn í vistfræðilíkönum - Chrispine Nyamweya - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. janúar 2017 10:00
Hvar 

Aðalbygging

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 30. janúar ver Chrispine Nyamweya doktorsritgerð sína í vistfræðilíkönum við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Vistfræðilegt líkan af Viktoríuvatni (Ecological modeling of Lake Victoria).

Andmælendur eru dr. Jason Link, vísindamaður við Ecosystem-based Management, National Oceanic and Atmospheric Administration (NOAA), Bandaríkjunum, og Ian Cowx, prófessor við University of Hull International Fisheries Institute, Bretlandi.

Leiðbeinandi er Gunnar Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Einnig sitja í doktorsnefnd dr. Erla Sturludóttir, nýdoktor við Raunvísindastofnun Háskólans, og dr. Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Oddur Ingólfsson, prófessor og deildarforseti Raunvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fram fer í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 10.00.

Ágrip af rannsókn

Viktoríuvatn er mikilvægt strandbyggjum sínum, vistfræðilega, félagslega og efnahagslega. Talsvert álag er á vistkerfið sakir ofveiði, innleiðingar framandi tegunda, mengunar og loftslagsbreytinga. Breytingar af þeim sökum, auk flókinnar vistfræði, hafa takmarkað möguleika á skilningi á kerfinu sjálfu, helstu ferlum, áhrifavöldum og viðbrögðum kerfisins við breytingum. Til að mæta þessari áskorun hefur heildstætt vistkerfislíkan (Atlantis) verið þróað fyrir vatnið. Atlantis var valið til að líkja eftir öllum hlutum vistkerfisins. Sérstakt straumalíkan var þróað fyrir vatnið til að setja upp straumkerfisgögn fyrir vistkerfislíkanið. Straumalíkanið var byggt á upplýsingum um dýpi, rennsli áa ásamt upplýsingum um loftþrýsting og úrkomu. Straumkerfislíkanið sýndi hringrás vatns og þróun hitastigs í vatninu. 

Atlantis-líkanið fyrir Viktoríuvatn inniheldur 12 svæði, byggt á líf- og eðlisfræðilegum eiginleikum. Notast var við 38 hópa lífvera og fjóra flota með ólíkt valmynstur. Líkanið var mátað við ýmis fyrirliggjandi gögn. Útreikningar sýna aukið magn næringarefna og frumframleiðslu, bæði á grunnslóð og dýpi, sem tengist þekktum uppsprettum mengunar og takmörkuðu gegnumstreymi. Í líkaninu komu einnig fram flókin tiltekin tengsl milli líffræðilegra hópa. Þannig sýndi Nílarkarfi sterka neikvæða fylgni við bráð (haplochromines) og raunar flesta hópa fiska. Þetta sýnir vel mikilvægi samspils ræningja og bráða auk áhrifa innfluttra tegunda og nauðsyn þess að líta á allt vistkerfið þegar stjórna skal veiðum.

Líkanið var síðan notað til að prófa áhrif mismunandi veiðistjórnunar á lífríkið. Sviðsmyndir voru m.a. breytilegt veiðiálag á Nílarkarfa (ránfiskur og efstur í fæðukeðjunni), lykilbráð (haplochromines) og aðrar tegundir. Áhrif þessara sviðsmynda voru metin með sex algengum mælikvörðum. Niðurstöðurnar bentu ekki til þess að nein stjórnunaraðferðanna bæri af í öllum sex mælikvörðunum. Prófanir sýna hins vegar að sú aðferð að stöðva veiðar á helstu bráð gefi bestan almennan árangur. Hér fæst mestur afli úr efnahagslega mikilvægum stofnum og lágmarksröskun á veiðistarfsemi. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna vel þörfina fyrir vistkerfisnálgun við stjórnun fiskveiða í Viktoríuvatni.

Um doktorsefnið

Chrispine Nyamweya er fæddur 1980 og er sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun Kenýa. Sérsvið hans er stofnstærðarmat og hann leiðir vinnuhóp um stofnmat í Viktoríuvatni með bergmálsmælingum. Chrispine er kvæntur og á tvö börn. Hann er með BS- og MS-próf í fiskifræði frá Moi University, en hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2014.