Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindinum - Bjarnheiður Kristinsdóttir

Doktorsvörn í menntavísindinum - Bjarnheiður Kristinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
19. október 2021 11:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur HÍ

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Bjarnheiður Kristinsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild faggreinakennslu, Háskóla Íslands:

Hljóðlaus myndbandsverkefni - skilgreining, þróun og beiting nýstárlegra verkefna í stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi 

Vörnin fer fram þriðjudaginn 19. október kl. 11.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Morten Misfeldt prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og dr. Merrilyn Goos prófessor við USC háskólann í Ástralíu.

Aðalleiðbeinandi var dr. Freyja Hreinsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Zsolt Lavicza prófessor við Linz School of Education við Johannes Kepler háskólann í Austurríki.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Gunnar Stefánsson prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og dr. Peter Liljedahl prófessor við Simon Fraser háskólann í Kanada.

Dr. Elsa Eiríksdóttir, varaforseti Deildar faggreinakennslu stjórnar athöfninni.

Öll velkomin.

Um doktorsverkefnið:

Markmið rannsóknarinnar var fjórþætt: i) að fá innsýn í væntingar og reynslu stærðfræðikennara af notkun hljóðlausra myndbandsverkefna, ii) að skilgreina sérkenni hljóðlausra myndbanda sem henta við gerð slíkra verkefna, iii) að þróa verkefnin og fyrirlögn þeirra í samstarfi við stærðfræðikennara og iv) að greina tækifæri og áskoranir sem felast í notkun verkefnanna. Rannsóknin var hönnunarmiðuð (e. design based) og unnin í samstarfi við sjö stærðfræðikennara í sex íslenskum framhaldsskólum.

Við fyrirlögn velur kennari stutt hljóðlaust myndband sem sýnir stærðfræði á kvikan hátt og kynnir það fyrir nemendum. Verkefni nemenda felst í að talsetja myndbandið. Nemendahópurinn hlustar saman á hverja talsetningu og kennari leiðir umræður þar sem nemendur eru hvattir til að ígrunda eigin sýn og sýn félaga sinna á þá stærðfræði sem birtist í myndbandinu.

Gögnum var safnað haustin 2017 og 2019. Tekin voru 11 viðtöl við fjóra slembivalda stærðfræðikennara sem hver í sínum skóla lagði eitt og sama hljóðlausa myndbandið fyrir 17 ára nemendur sína í áfanga um vigra og hornaföll haustið 2017. Haustið 2019 voru síðan gerðar 5 áhorfsathuganir í kennslustundum og tekin 8 viðtöl við þrjá stærðfræðikennara sem valdir voru út frá því að þeir þekktu til leiðsagnarmats. Í samstarfi við þá voru útbúin þrjú ólík hljóðlaus myndbönd sem tengdust námsefni grunnáfanga í stærðfræði. Einn kennaranna lagði þau öll þrjú fyrir 16 ára nemendur sína með nokkurra vikna millibili og hinir tveir, í öðrum skóla, lögðu eitt þeirra fyrir 16 ára nemendur sína.

Á rannsóknartímabilinu þróaðist ferlið við fyrirlögn verkefnanna og gætti þar áhrifa kenninga um nám og kennslu, fagþekkingar kennara sem og niðurstaðna fyrri rannsókna. Við greiningu gagna var meðal annars stuðst við fræðikenningar um eftirtekt (e. noticing), stærðfræðileg og félagsstærðfræðileg viðmið, sem og áhrifaþætti sem skipta máli fyrir stærðfræðikennara þegar nemendur eru hvattir til að hugsa (e. building thinking classrooms) og þegar kennt er til skilnings (e. teaching for robust understanding).

Þrjár fræðigreinar og einn bókarkafli liggja verkinu til grundvallar. Fyrsta greinin segir frá væntingum og reynslu fjögurra kennara af því að nota talsetningarverkefnin, önnur greinin fjallar um viðbrögð kennara við talsetningum nemenda, þriðja greinin útskýrir hvernig og af hverju talsetningarverkefni gætu reynst hjálpleg sem hluti af leiðsagnarmati í stærðfræði og bókarkaflinn fjallar um áskoranir og tækifæri sem fylgja því að leggja talsetningarverkefni fyrir nemendur.

Verkefninu lauk með framsetningu hönnunarstaðals sem lýsir einkennum myndbanda sem henta við gerð hljóðlausra myndbandsverkefna í stærðfræði og segir til um hvaða þætti er gott að hafa í huga við fyrirlögn þeirra.

Um doktorsefnið:

Bjarnheiður Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1982. Hún lauk BSc-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2006, meistaragráðu í hagnýtri stærðfræði frá Tækniháskólanum í Freiberg í Þýsklandi árið 2008 og viðbótarnámi til kennsluréttinda við Háskóla Íslands árið 2010.

Bjarnheiður hóf störf sem stærðfræðikennari við Verzlunarskóla Íslands. Hún dvaldist síðan í eitt ár við rannsóknir og kennslu á sviði stærðfræðimenntunar við Humboldtháskólann í Berlín í Þýskalandi áður en hún hvarf aftur til kennslu á Íslandi við Menntaskólann við Hamrahlíð. Frá árinu 2016 hefur Bjarnheiður stundað rannsóknir við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og verið í virku samstarfi við GeoGebru-stofnun og menntunarfræðideild Johannes Kepler Háskólans í Linz í Austurríki. Hún starfar nú sem aðjúnkt við Menntavísindasvið og tekur jafnframt þátt í evrópsku samstarfsverkefni um verkefnaþróun á vegum Johannes Kepler Háskólans. Foreldrar Bjarnheiðar eru Kristinn Einarsson vatnafræðingur og Margrét Hallsdóttir jarðfræðingur.

Bjarnheiður Kristinsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild faggreinakennslu, Háskóla Íslands,

Doktorsvörn í menntavísindinum - Bjarnheiður Kristinsdóttir