Skip to main content

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Sigrún Vala Björnsdóttir

Doktorsvörn í lýðheilsuvísindum - Sigrún Vala Björnsdóttir   - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
2. mars 2017 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sigrún Vala Björnsdóttir ver doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum sem ber heitið: Þrálátir stoðkerfisverkir – Algengi, áhrif og þverfræðileg úrræði á Íslandi. Chronic Musculoskeletal Pain – Prevalence, impact and multidisciplinary treatment in Iceland.

Andmælendur eru dr. Dave Walton, dósent í sjúkraþjálfun við  Western University í Kanada, og dr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir, dósent við Háskólann á Akureyri.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Vilhjálmur Rafnsson, prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands, dr. Jan Triebel, aðstoðaryfirlæknir  við City Hospital í Zürich, og dr. Patricia Solomon, prófessor við McMaster University .

Engilbert Sigurðsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip af rannsókn

Þrálátir stoðkerfisverkir eru algengt vandamál um allan heim og hafa veruleg áhrif á samfélög. Markmið rannsóknanna var að meta algengi þrálátra stoðkerfisverkja á Íslandi og hugsanleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Einnig að meta hugsanleg áhrif fjögurra vikna hefðbundinnar þverfræðilegrar verkjameðferðar (TMP) og svipaðs meðferðarúrræðis að viðbættri taugafræðilegri sjúklingafræðslu og gjörhygli (NEM) á heilsutengd lífsgæði og magn verkja, meðal kvenna sem upplifa þráláta stoðkerfisverki.

Við rannsóknirnar, sem birtast í fjórum greinum, voru notaðir tveir gagnagrunnar. Annars vegar lýðgrundað slembiúrtak 5.906 Íslendinga til að meta algengi þrálátra stoðkerfisverkja á Íslandi og tengsl þeirra við ýmsa heilsufarslega þætti. Hins vegar voru notuð gögn frá íslenskri endurhæfingarstofnun, Heilsustofnun NLFÍ. Í TMP-meðferðinni tóku þátt 122 konur (2001-2005), 90 konur í NEM-meðferðinni (2006-2009) og 57 konur mynduðu biðlistahóp (2008). Heilsutengd lífsgæði og magn verkja voru metin í byrjun meðferðar, í lok meðferðar og sex mánuðum eftir að meðferð lauk.

Rannsóknirnar leiddu í ljós að á Íslandi í desember 2007 var stundaralgengi þrálátra stoðkerfisverkja 19,9% (karlar=15,2%; konur=24,7%) og er breytilegt eftir þjóðfélagslegum aðstæðum. Fólk með þráláta verki er í aukinni áhættu fyrir líkamlegum og andlegum heilsubresti, að lýsa hömlunum við ýmsar líkamlega krefjandi athafnir daglegs lífs, sem og lakari lífsgæðum. Niðurstöður íhlutunarrannsóknarinnar leiddu í ljós að heilsutengd lífsgæði jukust í kjölfar þverfræðilegra verkjameðferða og verkir voru minni. Árangur stóðst sjö mánuðum eftir að meðferðin hófst. Lítill munur fannst á milli meðferðanna tveggja. Árangur þátttakenda í TMP stóðst ekki til lengri tíma með tilliti til svefns öfugt við árangur þátttakenda í NEM-meðferðinni.

Um doktorsefnið

Sigrún Vala Björnsdóttir fæddist á Akureyri 1964. Hún lauk stúdentsprófi af málabraut Menntaskólans á Akureyri árið 1984, BS-prófi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands árið 1990 og MS-prófi í stoðkerfissjúkraþjálfun frá University of Alberta í Kanada árið 1997. Sigrún Vala hlaut sérfræðiviðurkenningu í stoðkerfissjúkraþjálfun árið 2006. Sigrún Vala hefur stundað nám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, lengst af samhliða störfum sem sjúkraþjálfari við Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Sigrún Vala er dóttir Björns Ólsen Jakobssonar og Áslaugar Maríu Þorsteinsdóttur. Eiginmaður Sigrúnar Völu er Mohamed Fadhel Meddeb umhverfisverkfræðingur og eiga þau börnin Selmu og Ymi.