Skip to main content

Doktorsvörn í líffræði - Maite Cerezo-Araujo

Doktorsvörn í líffræði - Maite Cerezo-Araujo - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
30. maí 2024 11:00 til 13:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Doktorsefni: Maite Cerezo-Araujo

Heiti ritgerðar: Stofnstjórnun hjá lágarktískum vaðfugli: mynstur við mismunandi varpþéttleika (Population regulation in a sub-Arctic wader: insights from variation in breeding density)

Andmælendur:
Dr. Andrew Hoodlessl, yfirmaður The Game & Wildlife Conservation Trust, Bretlandi
Dr. Filipa Samarra, sérfræðingur á Rannsóknarsetri HÍ í Vestmannaeyjum

Leiðbeinandi: Dr.Tómas Grétar Gunnarsson, vísindamaður og forstöðumaður  Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi

Doktorsnefnd:
Dr. José Augusto Alves, rannsakandi við University of Aveiro, Portúgal
Dr. Verónica Méndez, sérfræðingur við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi 
Dr. Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ

Stjórnandi varnar: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar HÍ

Ágrip

Stofnstærðir dýra velta á samspili ytri þátta (fæðu, afráns, áhrifa manna) og innri þátta (atferlis, stofnþéttleika). Þessir þættir geta síðan verkað á sama tíma og stjórnað dreifingu og þéttleika innan stofna. Áhrif tiltekinna þátta geta verið falin af öðrum þáttum og sýnt breytileika í tíma og rúmi svo veruleg áskorun er að rannsaka stofnstjórnun. Rannsóknir á breytileika í lýðfræði og gæðum búsvæða við mismunandi varpþéttleika geta gefið mikilvægar vísbendingar um stofnstjórnun. Á Suðurlandi má finna mikinn breytileika í þéttleika vaðfugla sem gefur góð tækifæri á að rannsaka stofnstjórnun. Breytileiki í þéttleika spóa (Numenius phaeopus) var kannaður með langtímarannsókn og þriggja ára rannsókn með það að markmiðið að varpa ljósi á þætti sem stjórna stofninum. Til að ná því markmiði kannaði ég stofnbreytingar og samband lýðfræðilegra þátta, eiginleika búsvæða og atferlis hjá spóa. Spóa fækkaði á svæðinu á árunum 2012-2021, mögulega vegna hnignunar búsvæða. Fjöldi systkinahópa, sem taldir voru árlega (2013-2021), sýndi ekki marktækar breytingar en mikinn áramun. Fullorðnir fuglar notuðu fjölbreyttar gerðir af búsvæðum og fjöldi þeirra varð ekki útskýrður með beinum hætti út frá framvindustigi gróðurs, líklegu fæðuframboði innan varpsvæðis eða líklegum afránsþrýstingi innan varpsvæðis. Varpþéttleiki spóa hafði áhrif á tíðni óðalsflugs sem var algengara við lágan varpþéttleika í byrjun varptíma en var stundað á öllum svæðum út varptímann sem bendir til að það þjóni einnig tilgangi við að verja auðlindir. Systkinahópar forðuðust búsvæði sem voru undir mestum áhrifum manna og sum búsvæði voru mikilvægari en önnur á ungatíma og fyrir undirbúning fyrir farflug. Fæðuframboð hefur líklega áhrif á gæði búsvæða en fleiri ungar komust á legg þar sem fæðuframboð var meira. Á svæðisbundinn mælikvarða var ungaframleiðsla meiri þar sem varpþéttleiki var hærri en líkur á að pör væru með unga virtust svipaðar við mismunandi varpþéttleika. Aukin landnýting á Suðurlandi skapar hættu fyrir vaðfuglastofna og bættur skilningur á því hvernig stofnum er stjórnað auðveldar vernd stofnanna og minnkar líkur á skörun hagsmuna fugla og manna.

Um doktorsefnið

Maite Cerezo-Araujo er upprunalega frá Pamplona í Spáni. Hún hlaut BS-gráðu í líffræði frá Háskólanum í Navarra, Spáni og meistaragráðu frá Háskólanum í Tromsø (Arctic University of Norway). Maite vann sem aðstoðarmaður við rannsóknir í nokkur ár í Noregi áður en hún hóf doktorsnámið sitt við Háskóla Íslands.

Maite Cerezo-Araujo

Doktorsvörn í líffræði - Maite Cerezo-Araujo