Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Bergþóra Baldursdóttir

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Bergþóra Baldursdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
21. mars 2019 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 21. mars ver Bergþóra Baldursdóttir doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Jafnvægisstjórnun og áhrif skynþjálfunar: Óstöðugt eldra fólk og einstaklingar sem hlotið hafa úlnliðsbrot við byltu. Postural control and the effects of multi-sensory balance training: Unsteady older adults and people with fall-related wrist fractures.

Andmælendur eru dr. Fredrik Tjernström, dósent við Háskólann í Lundi, og dr. Þórarinn Sveinsson, prófessor í lífeðlisfræði við Námsbraut í sjúkraþjálfun við Læknadeild HÍ.

Umsjónarkennari var Pálmi V. Jónsson, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi dr. Ella Kolbrún Kristinsdóttir, dósent emeritus. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Brynjólfur Árni Mogensen, prófessor emeritus, Hannes Petersen, prófessor við Læknadeild, og Susan L. Whitney, prófessor við University of Pittsburgh.

Kristín Briem, prófessor við Námsbraut í sjúkraþjálfun, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Óstöðugleiki og byltur eru eitt af meginvandamálunum sem tengjast hækkandi aldri. Áverkar og brot eru algengar afleiðingar bylta og á hverju ári koma yfir þúsund einstaklingar af höfuðborgarsvæðinu á slysa- og bráðadeild Landspítala í kjölfar byltu og greinast með beinbrot. Markmið doktorsrannsóknarinnar var að rannsaka áhrif skynörvandi jafnvægisþjálfunar á meðal óstöðugs eldra fólks og miðaldra einstaklinga sem höfðu úlnliðsbrotnað. Jafnframt að rannsaka hvað einkenndi þátttakendur sem höfðu brotnað á úlnlið. Ritgerðin er byggð á þremur vísindagreinum sem allar hafa birst í alþjóðlegum vísindatímaritum.

Niðurstöður leiddu í ljós að skynörvandi jafnvægisþjálfunin bætti jafnvægi, gönguhraða, vöðvastyrk og öryggi við daglegar athafnir á meðal óstöðugra aldraðra einstaklinga. Jafnframt gáfu niðurstöður til kynna að skynþjálfunin gæti fækkað byltum hjá öldruðu þátttakendunum. Þjálfunin bætti einnig jafnvægi hjá miðaldra einstaklingum sem höfðu úlnliðsbrotnað við byltu, sérstaklega hjá þeim sem voru með jafnvægisstjórnun undir aldurstengdum viðmiðunarmörkum við upphaf þjálfunar.

Niðurstöður sýndu jafnframt að miðaldra einstaklingar með úlnliðsbrot, höfðu þróað með sér þætti er spá fyrir um frekari byltur og brot, þar á meðal skerðingu á skyni í fótum, ójafna starfsemi í jafnvægiskerfi innra eyra og skertan vöðvastyrk í fótum. Úlnliðsbrot hafa forspárgildi fyrir síðari brot, þar á meðal mjaðmarbrot hjá öldruðum, sem geta skert verulega lífsgæði, jafnvel valdið dauða og eru mjög kostnaðarsöm. Aðgerðir til að hindra byltur og úlnliðsbrot eru því mjög mikilvægar. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda á þætti sem vert er að beina athygli að við skoðun og meðferð þeirra sem detta og úlnliðsbrotna.

Abstract

Postural instability and falls are a major health concern associated with increasing age. Injuries and fractures are common consequences of these falls. Annually more than one thousand individuals in the capital area in Iceland seek the Emergency department at Landspítali, following a fall and are diagnosed with a fracture. The aim of the doctoral thesis was to evaluate the effects of a new multi-sensory balance training program, among unsteady older adults as well as middle aged and elderly people with wrist fractures. Additionally, to explore the characteristics of the people with a wrist fracture. Three scientific peer reviewed papers are included in the thesis.

The results revealed that the multi-sensory balance training increased postural control, walking speed, lower limb muscle strength and confidence during daily activities among the old unsteady individuals. The results also suggest that the multi-sensory balance training can reduce the rate of falls among older unsteady people. The multi-sensory balance training improved postural control among middle aged and elderly people with a wrist fracture, especially those with balance scores below age related norms prior to training.

The results revealed that middle aged and old people with a wrist fracture, had developed various factors that are known to increase fall risk. Among those were reduced sensation in the feet, asymmetric vestibular function and reduced lower limb muscle strength. A wrist fracture has been reported to be a strong predictor of future fracture risk, among those hip fractures. A hip fracture can lead to reduced quality of life, increased health cost and even death. Predictive and preventive measures are therefore important to prevent future falls and fractures. The results of this research indicate factors that are worth to observe in the evaluation and treatment of people who have sustained a wrist fracture.

Um doktorsefnið

Bergþóra Baldursdóttir er fædd í Reykjavík árið 1961. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð 1980, BS-námi í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands 1984, námi í stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu 2003 og meistaranámi í líf- og læknavísindum við Háskóla Íslands árið 2006. Bergþóra hlaut sérfræðileyfi í öldrunarsjúkraþjálfun árið 2009.

Bergþóra starfar á byltu- og beinverndarmóttöku og göngudeild sjúkraþjálfunar á Landakoti og sinnir stundakennslu við Læknadeild Háskóla Íslands. Hún hefur komið að gerð kennslu- og fræðsluefnis á sínu sérsviði, haldið fjölmörg námskeið og flutt erindi um rannsóknarefni sín á ráðstefnum hér á landi og erlendis. Foreldrar Bergþóru eru Baldur Bergsteinsson (látinn) og Guðrún Guðmundsdóttir. Eiginmaður hennar er Hjörleifur Þórarinsson lyfjafræðingur. Uppkomin börn þeirra eru Þóra, Kristinn og Margrét. Barnabarnið er Guðbjörg Zelda 10 ára.

Bergþóra Baldursdóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands fimmtudaginn 21. mars kl. 13:00

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Bergþóra Baldursdóttir