Skip to main content

Doktorsvörn í landfræði - Matthias Kokorsch

Doktorsvörn í landfræði - Matthias Kokorsch - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
8. júní 2018 9:00 til 11:00
Hvar 

Askja

Stofa 132

Nánar 
Allir velkomnir

Doktorsefni: Matthias Kokorsch

Heiti ritgerðar: Seigla íslenskra sjávarbyggða (e.Mapping Resilience – Coastal Communities in Iceland)

Andmælendur: Dr. Jahn Petter Johnsen, prófessor við Háskólann í Tromsø, Noregi og dr. Níels Einarsson, forstöðumaður við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Leiðbeinandi: Dr. Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Einnig í doktorsnefnd:
Dr. Anna Karlsdóttir, vísindamaður við Nordregio – Norræna fræðastofnun í skipulags- og byggðamálum.
Dr. Kevin St Martin, dósent við landfræðideild Rutgersháskóla.

Doktorsvörn stýrir: Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og varadeildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands.

Ágrip
Víðs vegar um heim hefur reynst erfitt að koma á fót fiskveiðistjórnunarkerfum sem eru sjálfbær í víðri merkingu þess orðs. Ísland er þar engin undantekning. Sjávarútvegur og fiskveiðistjórnun á Íslandi hefur tekið miklum breytingum síðan á níunda áratug síðustu aldar. Innleiðing framseljanlegra fiskveiðiheimilda (kvóta) var eitt af því sem mestu máli skipti. Á sama tíma hafa íslenskar sjávarbyggðir staðið frammi fyrir erfiðum úrlausnarefnum er varða efnahagslíf og íbúafjölda. Í stjórnmálum og almennri samfélagsumræðu hefur mjög verið rætt um að hve miklu leyti neikvæða þróun margra sjávarbyggða megi rekja til breytinga í sjávarútvegi.
Spurningum um áhrif íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins á svæði og byggðir hefur aldrei verið svarað á afgerandi hátt. Tiltæk gögn hafa ekki verið nýtt að fullu til skilnings á þeim flóknu ferlum sem hafa verið að verki í sjávarbyggðunum. Hugtakið „seigla“ getur varpað ljósi á spurningar um þessi efni. Í verkefninu var þess freistað að leggja mat á seiglu íslenskra sjávarbyggða. Kenningar um breytingar á formgerð atvinnulífs – frá félags- og landfræðilegum sjónarhóli – eru reifaðar og settar í samhengi við fræðilega umfjöllun um grundvallargildi á borð við samstöðu og réttlæti.
Gerð var megindleg greining á landsvísu, þar sem margvísleg fyrirliggjandi gögn um sjávarútveginn og staðbundna þróun efnahagslífs og samfélags voru nýtt. Til viðbótar hinni tölfræðilegu greiningu voru gerðar tilviksathuganir þar sem eigindlegum gögnum var safnað. Tvö byggðarlög sem hafa þróast með ólíkum hætti voru rannsökuð til að fá dýpri skilning á þeim atriðum sem hafa stuðlað að meiri eða minni seiglu. Verulegur munur á seiglu kom í ljós í þessum tveimur sjávarbyggðum.
Greiningin leiðir í ljós tvenns konar takmarkanir seiglu-hugtaksins, eins og því hefur verið beitt í félagsvísindum. Oft hefur hugtakið leitt til þröngrar áherslu á byggðaþróun sem sprottin sé af innrænum forsendum, án þess að veitt sé athygli þeim ramma sem félags- og hagfræðileg formgerð setur. Umræðunni um hvort eða hvenær sé réttmætt, í samfélagslegum skilningi, að hætta tilraunum til að auka seiglu, hefur enn fremur verið ýtt til hliðar. Fjallað er fræðilega um þessa veikleika í ritgerðinni.
Doktorsverkefni þetta tekur á efni sem mikilvægt í íslensku samhengi, en leggur einnig til fræðilegrar umræðu á afar mikilvægum sviðum, þar sem fengist er við seiglu, svæðisbundna þróun og fiskveiðistjórnun. Lagt er til að hin stífa tvíhyggja sem gerir ráð fyrir ofanstýrðri nálgun annars vegar eða neðanstýrðri hinsvegar verði aflögð. Í staðinn verði unnið að mótun sveigjanlegri nálgunar, þar sem stjórnvöld leiða en heimafólk er einnig virkir gerendur.

Um doktorsefnið
Matthias er fæddur 17. júní 1984 í Mülheim an der Ruhr í Þýskalandi. Hann nam landfræði og félagsvísindi ásamt kennslufræði við Universität Duisburg-Essen og brautskráðist þaðan árið 2013. Nú starfar hann við rannsóknir við Johann Heinrich von Thünen-Institut í Braunschweig í Þýskalandi.

Matthias Kokorsch

Doktorsvörn í landfræði - Matthias Kokorsch