Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Bergrós Kristín Jóhannesdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Bergrós Kristín Jóhannesdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
6. janúar 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 6. janúar 2023 ver Bergrós Kristín Jóhannesdóttir læknir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Alvarlegir æða-og brjóstholsáverkar í norrænu sjúklingaþýði -- Major Vascular and Thoracic Trauma in Nordic Populations.

Andmælendur eru dr. Timothy Resch, prófessor og yfirlæknir við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn, og dr. Fredrik Yannopoulous, yfirlæknir á Háskólasjúkrahúsinu í Oulu, Finnlandi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Tómas Guðbjartsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Sigurbergur Kárason, prófessor, dr. Karl Logason, lektor, og Elsa Björk Valsdóttir, lektor.

Dr. Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip

Áverkar á stærstu slagæðar líkamans og hjarta eru mikilvæg orsök andláts og örkumlunar í heiminum. Rannsóknir á faraldsfræði þessara áverka hefur skort og brýnt að auka þekkingu á því hvernig bæta megi meðferð og lifun þeirra sjúklinga sem komast lifandi inn á sjúkrahús. Markmið þessa doktorsverkefnis var að meta árangur meðferðar hjá þessum sjúklingahópi og skilgreina forspárþætti 30 daga og langtímalifunar í vel skilgreindum norrænum þýðum sjúklinga, annars vegar á Íslandi og hins vegar í Bergen í Vestur-Noregi.

Ritgerðin samanstendur af fimm vísindagreinum þar sem rannsakaðir voru sjúklingar með meiri háttar æðaáverka í umferðarslysum á Íslandi á árunum 2000-2011 en einnig einstaklingar sem gengust undir bráða brjóstholsskurðaðgerð vegna áverka á árunum 2005-2010 og allir sjúklingar sem lögðust inn á sjúkrahús í kjölfar stunguáverka 2000-2015 á Íslandi. Á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu í Bergen voru rannsakaðir allir fullorðnir með alvarlega æða- eða brjóstholsáverka á árunum 2009-2018.

Rannsóknirnar sýndu að alvarlegir æðaáverkar eru sjaldgæf dánarorsök bæði á Íslandi og í Vestur-Noregi. Áverkarnir hljótast oftast af umferðarslysum, ólíkt því sem tíðkast í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem skot- og hnífaáverkar eru algengari orsök alvarlegra æðaáverka. Niðurstöðurnar staðfesta einnig háa 30 daga dánartíðni við áverka á ósæð, sérstaklega þegar þeir verða í dreifbýli. Nýgengi stunguáverka sem kröfðust innlagnar á Íslandi hélst nokkuð stöðugt á þeim 16 árum sem rannsökuð voru (2000-2015). Samanborið við hin Norðurlöndin var árangur eftir bráðar brjóstholsskurðaðgerðir ágætur hér á landi jafnvel þó að sjaldan þurfi að grípa til þeirra. Hjá sjúklingum með alvarlega brjóstholsáverka reyndust m.a. kvenkyn, saga um undirliggjandi sjúkdóma og fylgikvillar áverkans spá fyrir um verri horfur. Á Íslandi og í Noregi eru aðstæður til flutninga mikið slasaðra oft erfiðar vegna landfræðilegra aðstæðna og veðurs, auk þess sem sjúklingar með alvarlega áverka eru færri á sjúkrahúsum þessara landa en á sérhæfðum áverkamóttökum stórborga. Því er ánægjulegt að árangur meðferðar við alvarlegum æðaáverkum þ.á m.  lifun, virðist svipuð og á sérhæfðari sjúkrahúsum í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum.

English abstract

Injuries involving major arteries and the thorax are major causes of mortality and morbidity worldwide. As studies on the epidemiology of vascular trauma are scarce, it is vital to better understand factors that predict mortality in trauma patients who reach hospitals alive. The aim of this doctoral thesis was to evaluate outcomes and prognostic factors associated with 30-day and long-term survival in this patient group in two well-defined Nordic patient cohorts in Iceland and Bergen in West Norway.

The thesis consists of five scientific articles that included patients with major vascular injuries in traffic accidents in Iceland in the years 2000-2011, individuals who underwent emergency thoracotomy for cardiovascular trauma in the years 2005-2010 together with patients that were hospitalized for stabbing injury in 2000-2015 in Iceland. Furthermore, all patients that were admitted with vascular or thoracic injuries to Haukeland University Hospital in Bergen, from 2009–2018 were studied.

The studies show that serious vascular injury is not a common cause of death in both Iceland and Western Norway. In both regions, they were most often caused by traffic accidents, in contrast to the US and UK where gunshot and knife injuries are a more common cause of vascular trauma. The 30-day mortality rate of patients is high after aortic injuries, particularly those that occur in rural areas. For the period 2000-2015, the incidence of serious stab injuries requiring hospitalization remained relatively stable in Iceland.  Emergency thoracotomy is a rarely performed procedure in Iceland; however, with a survival rate that is non-inferior to that reported in other Nordic countries. In-hospital mortality following severe vascular trauma was shown to be higher among females and patients with underlying comorbidities and those who suffered in-hospital complications. In Iceland and Norway, transport of trauma patients is often difficult for geographical reasons and weather, and although most trauma centres in these countries have low patient volumes, outcomes are in line to larger tertiary care trauma centres in N-Europe and N-America.

Um doktorsefnið

Bergrós Kristín Jóhannesdóttir er fædd árið 1985 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2005 og sex árum síðar embættisprófi við læknadeild Háskóla Íslands. Hún stundar nú sérnám í æðaskurðlækningum á Haukeland-háskólasjúkrahúsinu í Bergen í Noregi, þar sem hluti doktorsverkefnisins var unninn. Foreldrar hennar eru Kolbrún Katrín Karlsdóttir og Jóhannes Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður. Bergrós er gift Stefáni Einarssyni tölvunarfræðingi og eiga þau tvo syni, Einar Braga og Jóhannes Brynjar.

Bergrós Kristín Jóhannesdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 6. janúar.

Doktorsvörn í læknavísindum - Bergrós Kristín Jóhannesdóttir