Skip to main content

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Hrafnhildur Eymundsdóttir

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Hrafnhildur Eymundsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
26. júní 2020 10:00 til 13:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 26. júní ver Hrafnhildur Eymundsdóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/hrafnhildureysteinsdottir

Ritgerðin ber heitið: Lífsstíll, D- vítamín búskapur og tengsl við vitræna getu á meðal aldraðra; Lýðgrunduð hóprannsókn byggð á Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Lifestyle, 25 hydroxyvitamin D and the associations with cognitive function among older adults; A population-based cohort study using the Icelandic Heart Association´s AGES-Reykjavik studies.

Andmælendur eru dr. Timo Strandberg, prófessor við Háskólann í Helsinki, og dr. Sigríður Lára Guðmundsdóttir, dósent við Menntavísindasvið.

Leiðbeinendur og umsjónarkennarar voru Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og nætringarfræðideild, og Milan Chang Guðjónsson, dósent við Menntavísindasvið.

Guðjón Þorkelsson, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 10:00. 

Ágrip

Helstu orsakaþættir vægrar vitrænnar skerðingar (e. mild cognitive impairment) og heilabilunar eru hækkandi aldur, erfðir og lágt menntunarstig. Rannsóknir gefa til kynna að hollir lifnaðarhættir geti mögulega haft áhrif á heilaheilsu og jafnvel minnkað líkur á vægri vitrænni skerðingu og heilabilun á efri árum.

Markmið þessarar doktorsrannsóknar var því að rannsaka möguleg tengsl lífsstílsþátta við vitræna getu og heilabilun á meðal aldraðra Íslendinga (> 65 ára). Sérstök áhersla var lögð á að rannsaka áhrif D-vítamíns (25-hydroxy- D vítamín (25OHD)), hreyfingar og líkamsþyngdarstuðuls á vitræna getu og heilabilun.

Í fyrsta áfanga voru áhrif D-vítamíns á þróun vitrænnar getu rannsökuð og áhrif hreyfingar skoðuð sérstaklega í þessu samhengi. Í öðrum áfanga var gerð rannsókn á lífsstílsþáttum einstaklinga sem höfðu greinst með heilabilun og væga vitræna skerðingu og þeir bornir saman við einstaklinga sem ekki höfðu greinst með vitrænar breytingar. Þá voru tengsl lífsstílsþátta við styrk D-vítamíns rannsökuð sérstaklega innan þessara hópa. Í þriðja áfanga voru breytingar á líkamsþyngd aldraðra sem voru án heilabilunar, rannsakaðar með langtíma eftirfylgni og möguleg áhrif á vitræna getu metin. Jafnframt var rannsakað hvort breytingar á líkamsþyngd tengdust vægri vitrænni skerðingu og/eða heilabilun. Ritgerðin er byggð á þremur vísindagreinum sem verða birtar í alþjóðlegum vísindatímaritum. 

Niðurstöður sýndu að þriðjungur þátttakenda reyndist með of lágan styrk D-vítamíns.  Einstaklingar með of lágan styrk D-vítamíns voru marktækt líklegri til að sýna fram á lakari frammistöðu á vitrænum prófum heldur en einstaklingar sem voru með eðlilegan styrk D-vítamíns. Jákvæðir lífsstílsþættir til að mynda hreyfing og reykleysi, reyndust marktækt tengdir hærri D-vítamínstyrk. Í aðskildum útreikningum kom í ljós að hreyfing var tengd betra gengi á vitrænum prófum. Breytingar á líkamsþyngd þar sem einstaklingar misstu þyngd á rannsóknartímabili voru marktækt tengdar auknum líkum á vitrænni skerðingu ásamt aukinni áhættu á vægri vitrænni skerðingu sem í sumum tilfellum, getur talist undanfari heilabilunar. Á hinn bóginn reyndist aukning á líkamsþyngd vera tengd aukinni áhættu á heilabilun en þyngdarbreytingar voru ávallt bornar saman við þann hóp sem var stöðugur í þyngd. 

Til samanburðar við einstaklinga sem höfðu eðlilega vitræna getu reyndust einstaklingar sem greinst höfðu með heilabilun hafa marktækt lægri styrk D-vítamíns. Jafnvel þó að jákvæður lífstíll hafi tengst auknum styrk D-vítamíns í blóði á meðal einstaklinga sem ekki höfðu heilabilun var slíka tengingu ekki að finna á meðal einstaklinga með heilabilun.

Heildarniðurstöður benda til þess að D-vítamín og hreyfing hafi marktæk áhrif á vitræna getu á meðal einstaklinga án heilabilunar. Jafnframt benda niðurstöður til þess að breytingar á líkamsþyngd á meðal aldraðra séu mikilvægur þáttur og hafi mögulegt forspárgildi þegar kemur að vitrænni getu og auki áhættu á heilabilun.   

Hækkandi aldri fylgir aukin áhætta á vitrænni skerðingu og heilabilun. Lífsgæði, sjálfstæði og færni einstaklings til daglegra athafna er háð vitrænni getu. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að D-vítamín, hreyfing og líkamsþyngdarstuðull séu mikilvægir þættir og tengist marktækt vitrænni getu og áhættu á heilabilun. Niðurstöður benda til þess að þörf sé á forvörnum gegn heilabilun með fræðslu til heilbrigðra lífshátta. 

Abstract

Age and genetics are the main non-modifiable risk factors associated with mild cognitive impairment and dementia. Studies indicate that a positive lifestyle may effect brain health and possibly influence the risk of developing mild cognitive impairment and dementia in older age. 

The aim of this thesis was therefore to evaluate lifestyle factors and the associations with cognitive function and the development of dementia among older adults with special considerations for vitamin D, physical activity and body mass index.

The first phase of this study was to investigate the association between 25-hydroxyvitamin D (25OHD) and cognitive function with particular consideration of physical activity in Icelandic older adults. The second phase investigated lifestyle and 25-hydroxyvitamin D levels (25OHD) in old adults with dementia, mild cognitive impairment or normal cognitive status.

The third phase investigated longitudinal associations between changes in body weight and declines in cognitive function and risk of mild cognitive impairment/dementia among community dwelling old adults, with normal cognitive function at baseline.

According to results of this study, lifestyle is associated with cognitive function among older adults. Around a third of the participants who were free from dementia had either deficient or insufficient levels of vitamin D and those who were deficient were more likely to have lower cognitive function, in all three domains, as compared to normal vitamin D levels. Higher physical activity was related to higher cognitive function. Older people living in the community in Iceland with dementia, have lower 25OHD compared to healthy individuals. Although participants with dementia had poorer lifestyle than healthy participants, differences in lifestyle did not fully explain the observed lower levels of 25OHD in the dementia group. Individuals who lost weight had higher risk of declining cognitive function, while separated analysis showed that weight gain might contribute to the risk of developing dementia. Significant body weight changes in older adulthood may, independently, indicate impending changes in cognitive function. When preventing cognitive decline and dementia among older adults, public health care systems should generally consider lifestyle approach.

Um doktorsefnið

Hrafnhildur Eymundsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1981. Hún lauk BA-prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og MPH-prófi í lýðheilsufræði frá Háskóla Íslands árið 2013. Árið 2015 innritaðist hún í doktorsnám við Matvæla- og næringarfræðideild. Samhliða doktorsnáminu hefur Hrafnhildur starfað sem deildarstjóri við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítalans í öldrunarfræðum og verið aðstoðarkennari við Háskóla Íslands. Foreldrar Hrafnhildar eru Emilía Sveinbjörnsdóttir og Eymundur Jóhannsson. Eiginmaður hennar er Ólafur Páll Snorrason, viðskiptafræðingur. Börn þeirra er Indíana, Mikael og Kolfinna.

Hrafnhildur Eymundsdóttir ver doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 26. júní.

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum - Hrafnhildur Eymundsdóttir