Skip to main content

Mentorar

Mentorar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendum í Háskóla Íslands gefst kostur á að vera mentorar (tengiliðir) erlendra nemenda. Þeir sem hafa sjálfir farið í skiptinám eða hafa hug á að fara í skiptinám ættu ekki að láta tækifærið framhjá sér fara.Þá er upplagt fyrir þá sem leggja stund á tungumálanám og þá sem hafa áhuga á að kynnast fólki frá öðrum menningarsvæðum að taka þátt. Alþjóðasvið og Alþjóðanefnd Stúdentaráðs hafa umsjón með verkefninu.

Hlutverk mentors er að vera erlendum nemendum innan handar við komuna til landsins. Mentorar kynna m.a. félagslíf, námsaðstöðu og svara ýmsum spurningum sem nemendur kunna að hafa. Hver mentor tekur að sér einn til fimm erlenda nema.

Mentorateymi
Nú geta vinir/félagar sótt um að vinna mentorstarfið saman sem getur verið mikill kostur bæði fyrir mentorana og erlendu nemana. Það er styrkur í því fyrir mentora að takast á við verkefnið í teymi og geta deilt ábyrgðinni. Þá getur verið auðveldara að virkja erlendu nemana og skemmtilegra að vera í stærri hópi.

Mentorar fá viðurkenningu fyrir störf sín skráða í svokallaðan skírteinisviðauka (Diploma Supplement) sem inniheldur viðbótarupplýsingar við prófskírteini. Slík viðurkenning getur komið að góðum notum þegar sótt er um störf eða skólavist erlendis. Til þess að fá mentorstarfið skráð í skírteinisviðauka verður nemandi að skila inn lokaskýrslu.

Fyrirspurnir sendist á Alþjóðanefnd SHÍ internationalcommittee@hi.is

Langflestir erlendir nemar óska eftir íslenskum mentor, þátttaka ykkar er því mikils metin!

ESN Iceland stendur fyrir öflugu félagslífi fyrir skiptinema sem mentorum er frjálst að taka þátt í.