Skip to main content

Um góða starfshætti við kennslu og próf í Háskóla Íslands

PDF-útgáfa

I. KENNSLA

Háskóladeildir eru grunneiningar Háskóla Íslands og á vegum þeirra og fræðasviða fer kennslan fram. Tilteknar sameiginlegar reglur gilda um kennslu innan Háskólans, en einstök fræðasvið setja sér síðan almennar reglur um kennslu, kennsluhætti og námsmat þar sem fram koma skýr markmið um gæði kennslu og náms.

Fyrirlestrar, æfingar, námskeið og próf eru fyrir skrásetta stúdenta, en kennara er heimilt að gefa öðrum kost á að sækja slíka kennslu, nema háskóladeild mæli fyrir um annað. Í kennsluskrá Háskólans, sem gefin er út eigi síðar en í febrúar/mars ár hvert og birt á háskólavefnum, er gerð grein fyrir námsskipan, námsefni, kennsluháttum og námsmati. Kennsluskránni er skipt í kafla eftir fræðasviðum og deildum, og þar eru flestar nauðsynlegar upplýsingar um námið, auk þess sem margvíslegt efni er á heimasíðum einstakra fræðasviða og deilda á háskólavefnum. Er öllum stúdentum því ráðlagt að skoða reglulega efni á háskólavefnum, einkum það sem tengist þeirri deild eða námsbraut sem þeir stunda nám við. Allar breytingar á útgefinni kennsluskrá skal tilkynna eigi síðar en við upphaf kennslumisseris.

Við hvert fræðasvið er starfrækt ráðgefandi kennslunefnd sem skipuð er formönnum námsnefnda einstakra deilda fræðasviðsins, einum frá hverri deild, ásamt einum fulltrúa stúdenta. Kennslunefnd fræðasviðs hefur umsjón með gerð kennslustefnu sviðsins, skipuleggur samráðsvettvang um kennslumál meðal kennara og stúdenta og sinnir öðrum verkefnum sem hún telur horfa til framfara í málefnum kennslu og náms.

Við hverja deild er heimilt að starfrækja ráðgefandi námsnefnd sem jafnmargir kennarar og stúdentar eiga sæti í. Hlutverk nefndanna er að fjalla um tillögur um námsefni í hverri kennslugrein, semja umsagnir og tillögur um námsskipan og kennslufyrirkomulag greinarinnar. Deildir ákvarða nánar fjölda námsnefnda og hlutverk þeirra.
(Sjá nánar 23. og 54. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.)

1) Bækur og annað lesefni

Kennarar skila lista yfir kennslubækur til Bóksölu stúdenta og Landsbókasafns Íslands − Háskólabókasafns tveimur mánuðum fyrir upphaf kennslu, ef kostur er. Við upphaf námskeiðs afhenda kennarar stúdentum, ef þurfa þykir, ítarlegri kennsluáætlun en fram kemur í kennsluskrá og leslista yfir allt námsefni námskeiðsins. Jafnframt getur kennari komið kennsluáætlun og leslista fyrir á kennsluvef námskeiðsins í Uglu, innri vef Háskólans. Þegar höfundarvarið efni er fært inn á kennsluvef er umfang þess jafnframt tilgreint. Bækur, fjölrit og fræðigreinar sem eru á leslista eiga að vera aðgengileg þegar yfirferð þeirra hefst.
(Góðar venjur með skírskotun til 23. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

2) Efni til prófs

Ef listi yfir efni til prófs kemur ekki fram á leslista, er leitast við að gera grein fyrir því við upphaf námskeiðs. Þurfi að bæta við lesefni eða fella brott er það kynnt með góðum fyrirvara.
(Góðar venjur með skírskotun til 23. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

3) Viðvera stúdenta í kennslustundum

Það er undir stúdentum sjálfum komið, hvort þeir sækja kennslustundir. Háskóladeildum er heimilt að setja reglur um skyldu stúdenta til þátttöku í einstökum námskeiðum, æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun. Einnig er heimilt að kveða á um að viðvera og þátttaka í kennslustundum hafi vægi í námsmati. Reglur deilda skulu birtar í kennsluskrá. Ef þátttökuskylda er í námskeiði eða hluta þess gilda um forföll sömu reglur um að tilkynna forföll og gilda í prófum.
(Sjá nánar: 48. gr., 54. og 57. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

4) Framkoma stúdenta í kennslustundum

Stúdentar við Háskóla Íslands skulu forðast að aðhafast nokkuð það í námi sínu eða framkomu innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla. Stúdentar skulu mæta stundvíslega til kennslustunda og viðhafa þar kurteisi og háttvísi og hlíta t.d. fyrirmælum kennara um tölvu- og símanotkun. Stúdentum ber eins og öðrum háskólamönnum, að ganga vel um kennslustofur og annað húsnæði Háskólans. Matar eða drykkjar skal einungis neytt í kaffistofum og mötuneytum. Sérstök athygli er vakin á því að reykingar eru óheimilar í húsnæði Háskólans.
(Góðar venjur, sbr. einnig 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, 51. gr. reglna HÍ nr. 569/2009, almennar húsreglur HÍ og lög nr. 6/2002 um tóbaksvarnir.)

5) Viðtalstímar

Á kennslumisserum eiga stúdentar að hafa greiðan aðgang að kennara, annað hvort á auglýstum viðtalstíma eða eftir samkomulagi.
(Sbr. 6. gr. reglna nr. 1096/2008.)

6) Könnun á kennslu og námskeiðum

Á hverju kennslumisseri fer fram rafræn könnun þar sem leitað er eftir mati stúdenta á kennslu og námskeiðum. Þetta mat er liður í eftirliti með gæðum kennslu og námskeiða. Miðað er við að kennslukönnun standi yfir í tvær vikur á síðustu þremur kennsluvikum misseris og að fyrirlögn taki um það bil 10 til 15 mínútur. Kennslukönnunin birtist sjálfkrafa á vefsvæði nemandans þegar hann skráir sig inn í Uglu.

Við úrvinnslu könnunarinnar er persónuverndarsjónarmiða gætt, en upplýsingar eru birtar opinberlega um helstu niðurstöður könnunarinnar.

Stúdentum ber að svara framlögðum spurningum samviskusamlega og þeim er óheimilt að hafa samráð um útfyllingu könnunar.

Miðmisseriskönnun er lögð fyrir í október og febrúar. Þar eru tvær opnar spurningar um hvað hefur heppnast vel og hvað hægt væri að bæta. Nemendur eru einnig beðnir um að gefa hverju námskeiði einkunn á kvarðanum 1 – 10. Tilgangur könnunarinnar er að gefa kennurum kost á að bregðast strax við athugasemdum nemenda.
(Sjá nánar 24. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og verklagsreglur um könnun á kennslu og námskeiðum við HÍ og meðferð hennar, samþykktar í háskólaráði 8.4.2010.)

7) Ritgerðasmíð og verkefnaskil

Stúdentar vinna að verkefnum og ritgerðum í samræmi við fyrirmæli kennara. Stúdentum er algerlega óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

Stúdent á rétt á skýrum leiðbeiningum kennara um úrlausn og skil verkefna. Deildir geta enn fremur ákveðið almenn viðmið í þessu efni sem kynnt eru stúdentum.

Kennarar geta ákveðið hvaða verkefni eru skimuð með tilliti til ritstuldar, svo sem lokaverkefni eða smærri ritsmíðar í námskeiðum, og/eða í ritunarferlinu áður en kemur að lokagerð, með eða án aðkomu stúdenta. Kennarar geta einnig gert stúdentum kleift að setja eigin ritsmíðar í skoðun með tilliti til heimildanotkunar. Notuð er ritstuldar­vörnin Turnitin.

Lokaverkefnum skal skila í Skemmuna, stafrænt gagnasafn fyrir lokaverkefni háskólanema, í vörslu Landsbókasafns – Háskólabókasafns.
(Ákjósanlegir starfshættir, sbr. 54. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og kennsluskrá HÍ. Sjá einnig reglur einstakra deilda og fræðasviða um lokaritgerðir og -verkefni, svo sem reglur um BA-ritgerðir á Hugvísindasviði. Sjá einnig leiðbeiningar um skil á lokaverkefnum.)

8) Sértæk úrræði við kennslu, nám og próf

Nemendur við Háskóla Íslands, sem eru fatlaðir eða með sértæka námserfiðleika, sem á einhvern hátt geta verið hindrun í háskólanámi, eiga rétt á að njóta tiltekinna úrræða eftir því sem mælt er fyrir um í reglum nr. 481/2010 um sértæk úrræði í námi við Háskóla Íslands. Nemandi sem óskar eftir slíkum úrræðum snýr sér til Nemendaráðgjafar Háskóla Íslands sem hefur umsjón með þjónustunni.
(Sjá nánar stefnu HÍ í málefnum fatlaðra, stefnu HÍ gegn mismunun og reglur nr. 481/2010 um sértæk úrræði í námi við HÍ.)

II. PRÓF

Próf eru fyrir skráða stúdenta og geta verið munnleg, skrifleg eða verkleg. Skráning í námskeið er jafnframt skráning í próf óháð því hvort námsmat fer fram með skriflegu eða munnlegu prófi, æfingavinnu, verkefnum eða ritgerð.

Stúdentum ber að framvísa skilríkjum með mynd þegar þeir gangast undir próf svo ganga megi úr skugga um að þeir eigi próftökurétt. Kennarar standa fyrir námsmati og prófum, en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér í samræmi við lög og reglur Háskólans. Prófa ber sem víðast úr því efni sem er til prófs.

Auglýstum prófdegi verður einungis breytt með ákvörðun deildarforseta að höfðu samráði við prófstjóra og að fengnu skriflegu samþykki allra þeirra sem skráðir eru til viðkomandi prófs.
(Sjá nánar 48., 56. og 58. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

9) Tilkynning um námsmat og próf

Almenn tilhögun námsmats og prófs kemur fram í kennsluskrá. Nánari tilhögun, ef við á, er kynnt í kennsluáætlun sem er lögð fram í upphafi námskeiðs og/eða á kennsluvef þess. Hið sama á við um vægi verklegra þátta, ritgerðar, munnlegs prófs o.s.frv. í lokaeinkunn.
(Sjá nánar í 23. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og sérreglum og bókunum deilda.)

10) Umræðutímar fyrir próf

Æskilegt er að kennarar ljúki námskeiði með umræðu- og fyrirspurnatíma skömmu fyrir próf.

11) Skráning í námskeið og próf

Kennslu og próf þarf að skipuleggja með góðum fyrirvara. Því er mikilvægt að stúdentar sýni aðgát og ábyrgð er þeir skrá sig í námskeið og próf. Fullt nám miðast við 60 einingar á námsári að jafnaði, þ.e. 30 einingar á misseri, og allt skipulag skólastarfsins miðast við þessa forsendu. Nemendur geta skráð sig í allt að 40 einingar á hverju misseri.
(Sjá nánar 48., 53. og 56. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

12) Próftímabil og úrsögn úr prófi

Almenn lokapróf eru haldin 2. til 18. desember og á tímabilinu 25. apríl til 10. maí eftir nánari ákvörðun deilda í samráði við prófstjóra. Sjúkrapróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí, í fjóra daga, skv. nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt, að höfðu samráði við prófstjóra, að nýta tímabilið að vori fyrir sjúkrapróf beggja kennslumissera.

Úrsögn úr prófi skal vera rafræn eða skrifleg og hafa borist Nemendaskrá eigi síðar en 1. október vegna prófa á haustmisseri, 1. febrúar vegna prófa á vormisseri og eigi síðar en sólarhring eftir birtingu próftöflu sjúkraprófa. Berist ekki úrsögn fyrir tilskilinn frest telst stúdent hafa staðfest skráningu sína í próf í viðkomandi námskeiði. Skráðir stúdentar fá falleinkunn mæti þeir ekki til prófs.
(Sjá nánar 56. og 57. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

13) Próftökuréttur

Próf eru einungis fyrir skráða stúdenta. Prófvörðum ber að gæta þess við upphaf prófs, að allir sem eru í prófsal hafi próftökurétt, þ.e. séu skráðir í prófið samkvæmt nafnalista. Heimilt er að vísa stúdentum frá prófi sem þeir eru ekki skráðir í.
(Sjá nánar í 48. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og kennsluskrá HÍ.)

14) Sætaskipan í prófstofum

Próftafla er birt á háskólavefnum og í Uglu. Upplýsingar um prófstaði á próftímabilum eru birtar á stofutöflu í Uglu, tímanlega fyrir próf. Stúdentum er skipað í tiltekin sæti í prófstofum eftir númerum sem hver og einn getur nálgast í Uglu daginn fyrir próf. Einnig eru prófsæti auglýst sérstaklega á nafnalista fyrir hvert próf sama dag og próf fer fram. Enginn má taka próf á öðrum stað en honum hefur verið úthlutaður fyrirfram. Framvísa þarf persónuskilríkjum með mynd á prófstað.
(Sjá nánar 58. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og kennsluskrá HÍ.)

15) Skrifleg próf

Vægi spurninga skal koma fram á prófverkefni, ef unnt er að koma því við. Mælst er til þess að í upphafi sé efnisskipan prófverkefnis lýst með nokkrum orðum, sérstaklega ef það er á mörgum síðum, í mörgum hlutum, eða ef vægi spurninga er misjafnt. Með því móti er tryggt að próftaki átti sig hafi hann fengið gallað verkefni í hendur.

Æskilegt er að kennari (eða staðgengill hans) komi á prófstað í skriflegum prófum sem hann stendur fyrir og að hægt sé að ná í hann á meðan á prófi stendur. Ef kennari verður var við almenn vafaatriði hjá stúdentum í prófi er mælst til þess að hann greiði úr þeim í heyranda hljóði ef aðstæður leyfa. Mælst er til að nemendum sé fyrirfram gerð grein fyrir því ef hvorki kennari né staðgengill hans mætir á prófstað. Í samkeppnisprófum mæta kennarar ekki á prófstað.

Uppgötvist galli í prófverkefni, sem ekki verður leiðréttur með einföldum hætti á prófstað, ber kennara að auka vægi annarra prófþátta sem því nemur. Það sama gildir ef ekki næst í kennara.

Innan á kápu prófbóka eru birtar prófreglur, sem stúdentum ber að fara eftir.
(Góðar venjur, m.a. í samræmi við bókun háskólaráðs 11. nóv. 1993.)

16) Munnleg og verkleg próf

Við munnleg próf skal vera prófdómari utan Háskólans, en skrifleg og verkleg próf dæma hlutaðeigandi kennarar sjálfir nema deild ákveði annað.
(Sbr. 59. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

17) Prófnúmer og nemendanúmer  

Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum en þau eru jafnframt nemendanúmer sem Nemendaskrá úthlutar hverjum stúdent. Deild getur sett reglur um undanþágu frá þessu meginákvæði. Heimilt er að birta einkunnir undir þessum númerum.
(Sbr. 58. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

18) Einkunnaskil

Einkunnir skulu birtar í síðasta lagi tveimur vikum eftir próf, þó í síðasta lagi þremur vikum eftir hvert haustmisserispróf í desember. Felist námsmat í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi, er miðað við skiladag ritgerðar/verkefnis eða þann dag sem námsmat fer fram.

Stúdentar hafa aðgang að einkunnum sínum og námskeiðaskráningum í gegnum Uglu. Hjá Nemendaskrá er einnig hægt að fá útskrift með einkunnum, gegn framvísun persónuskilríkja.
(Sjá nánar 58. og 60. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

19) Einkunnir

Ein einkunn er gefin fyrir hvert námskeið (námskeiðsnúmer). Þar sem námskeiði er skipað í fleiri en einn prófhluta, s.s. skriflegt próf, verklegar æfingar, ritgerðir, skýrslur o.s.frv., er einkunn fyrir námskeiðið vegið meðaltal allra prófhluta. Deildum er þó heimilt að áskilja að lágmarkseinkunn sé náð í hverjum prófhluta fyrir sig. Ef námskeiði er þannig skipað í fleiri en einn prófhluta komi fram hvaða einkunn stúdent hlaut fyrir hvern hluta. Kennarar færa einkunnir í Uglu og birtast þær nemendum samstundis og allar einkunnir námskeiðs hafa verið lagðar inn.
(Sjá nánar 56., 60. og 61. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og sérreglur og bókanir einstakra deilda.)

20) Útskýring á einkunn

Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar, ef hann æskir þess innan fimmtán daga frá birtingu einkunnar. Kennurum er heimilt að halda prófsýningu fyrir alla nemendur námskeiðs þar sem skýrt er út mat skriflegra úrlausna.
(Sbr. 59. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

21) Skipan prófdómara

Prófdómarar eru skipaðir fyrirfram til þriggja ára í senn í samkeppnisprófum. Ennfremur skal einn prófdómari vera við munnleg próf sem teljast til fullnaðarprófs. Skrifleg próf dæma hlutaðeigandi kennarar einir, nema prófdómari hafi verið skipaður fyrirfram, sbr. einnig lið 22. Forseti fræðasviðs skipar prófdómara að fengnum tillögum háskóladeildar.
(Sjá nánar 59. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

22) Stúdent eða kennari óskar eftir prófdómara

Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meirihluti stúdenta í námskeiði, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Niðurstaða prófdómara sem skipaður er eftir að einkunn kennara hefur verið birt getur leitt til lækkunar eða hækkunar á birtri einkunn þegar hún er vegin saman við mat kennara. Þetta gildir þó ekki þegar prófdómari er skipaður eftir á að beiðni kennara. Við þær aðstæður getur niðurstaða prófdómara einungis leitt til hækkunar á þegar birtri einkunn, sé um það að ræða.
(Sjá nánar 59. og 60. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

23) Verkaskipting kennara og prófdómara

Kennari og prófdómari, ef til er kallaður, dæma hvor um sig úrlausnina. Hvor um sig gefur sjálfstætt einkunn fyrir úrlausnina og gilda þær jafnt í einkunnagjöf. Hlutverk prófdómara sem er kallaður til eftir að mat kennara liggur fyrir, er bundið við að fara yfir úrlausnir í því tiltekna prófi. Við þessar aðstæður fer prófdómari ekki yfir uppbyggingu prófsins með tilliti til námsefnis.
(Sjá nánar 60. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

24) Endurtaka prófs

Stúdent er heimilt að þreyta próf í hverju námskeiði tvisvar. Nú stenst stúdent ekki próf, gengur frá því eftir að hann hefur byrjað próf eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað forföll, og er honum þá heimilt að þreyta prófið næst þegar almennt próf er haldið í námskeiðinu og eigi síðar en innan árs. Standist hann þá ekki prófið, gangi frá því eða komi ekki til prófs án þess að boða forföll, hefur hann fyrirgert rétti sínum til þess að gangast oftar undir það.

Deildum er heimilt í samráði við prófstjóra að halda sérstök endurtökupróf í einstökum námskeiðum. Slík sérstök endurtökupróf eru einungis fyrir þá stúdenta sem áður hafa þreytt próf í viðkomandi námskeiði og skulu fara fram samtímis sjúkraprófum vormisseris í kjölfar almenns próftímabils í maí samkvæmt nánari ákvörðun prófstjóra. Síðasti prófdagur skal vera eigi síðar en tveimur vikum fyrir brautskráningu kandídata í júní. Fyrir lok janúar og fyrir 25. maí skal auglýst hvaða próf í námskeiðum viðkomandi missera verða endurtekin. Deildum er enn fremur heimilt í samráði við prófstjóra að halda endurtökupróf í einstökum námskeiðum ef þannig stendur á að stúdent á kost á að brautskrást við næstu brautskráningu að prófi loknu.

Stúdent er jafnframt heimilt að endurtaka próf sem hann hefur staðist, innan árs frá því hann stóðst það, enda sé á því tímabili haldið próf í sama námskeiði, en um leið og hann byrjar seinna prófið fellur fyrra próf úr gildi. Sérstakar reglur gilda þó um samkeppnispróf.
(Sjá nánar 57. gr. reglna HÍ nr. 569/2009 og sérreglur og bókanir deilda.)

25) Veikindi í prófi

Stúdent sem veikist og getur þar af leiðandi ekki þreytt próf, ber að skila staðfestingu á veikindum til þjónustuborðs Háskólatorgs innan þriggja daga frá prófdegi. Hið sama gildir ef barn stúdents veikist. Veikist stúdent í prófi ber honum að vekja athygli prófvarðar sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til þjónustuborðs. Læknisvottorð eru yfirfarin af trúnaðarlækni Háskólans.
(Sbr. kennsluskrá HÍ.)

26) Sjúkrapróf

Sjúkrapróf eru haldin í kjölfar almennra próftímabila í desember og maí, í 4 - 5 daga skv. nánari ákvörðun prófstjóra. Deildum er heimilt, að höfðu samráði við prófstjóra, að nýta tímabilið að vori fyrir sjúkrapróf beggja kennslumissera. Ákvörðun um það liggi fyrir við upphaf kennslu á haustmisseri. Þó skal sjúkrapróf haldið ef stúdent á kost á að brautskrást við næstu brautskráningu sem í hönd fer. Sjúkrapróf kemur í stað hefðbundins misserisprófs og skerðir því almennt ekki rétt viðkomandi stúdents til endurtektar prófsins næst þegar það verður haldið.
(Sjá 56. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

27) Inntökupróf, samkeppnispróf og aðgangspróf

Inntökupróf eða samkeppnispróf eru haldin í sumum deildum þar sem fyrirfram ákveðinn fjöldi nemenda er tekinn inn í viðkomandi nám ár hvert. Einnig er aðgangsprófum beitt í einstökum deildum án þess að um fjöldatakmörkun sé að ræða.

Sérstakar reglur eru settar um framkvæmd þessara prófa í þeim tilvikum sem þau eru notuð og þau eru sérstaklega kynnt á heimasíðu Háskólans. Almennt gildir að ekki er hægt að endurtaka inntöku-, samkeppnis- eða aðgangspróf og frammistaða gildir einungis gagnvart hverri tilraun fyrir sig.
(Sjá nánar reglur nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar og sérreglur einstakra deilda.)

28) Fjarnám

Einstakar deildir bjóða tiltekin námskeið eða námsleiðir í fjarnámi. Sömu námsreglur gilda um fjarnema og staðnema.

29) Próf í fjarnámi

Fjarpróf geta farið fram við símenntunarmiðstöðvar og bera forstöðumenn þeirra ábyrgð á móttöku, fjölföldun (ef við á), sendingu prófverkefna og framkvæmd prófa. Próf skulu ætíð fara fram á sama tíma og í Reykjavík. Ætíð skal ganga úr skugga um að próftakar afhendi farsíma til geymslu og að í prófherbergi séu hvorki yfirhafnir, töskur, talsímar, bækur eða önnur óleyfileg gögn eða samskiptatæki sem geta nýst við lausn prófverkefna. Leyfilegra hjálpargagna er ætíð getið á fyrirmælablaði (prófsvuntu) sem fylgir hverju prófi og þeirra er oft einnig getið á prófverkefnunum sjálfum. Öll samskipti próftaka sín á milli eða við aðra en prófgæslufólk eru með öllu óheimil á meðan prófi stendur. Fjarpróf er ætíð háð samþykki viðkomandi kennara og deildar.

Miðstöð fjarprófa (fjarprof@hi.is) í Aðalbyggingu hefur umsjón með framkvæmd fjarprófa í samráði við prófstjóra. Próf er ekki haldið utan Háskólans eða símenntunarstöðva nema ef lengra en 50 kílómetrar eru á prófstað og yfir fjallveg að fara. Ef próf er haldið í útlöndum verður umsókn um það ekki tekin gild nema henni fylgi skrifleg yfirlýsing frá traustum aðila (s.s. starfsmanni menntastofnunar eða sendiráðs), sem hefur umsjón með prófgæslu og ber ábyrgð á prófgögnum. Próftaki sér sjálfur um að útvega umsjónaraðila. Umsjón prófsins er háð samþykki miðstöðvar fjarprófa.

30) Misferli í prófum og verkefnavinnu

Stúdent sem staðinn er að misferli í prófi er vísað frá prófi og kann að missa próftökurétt í öðrum námskeiðum á próftímabilinu. Þung viðurlög eru í Háskóla Íslands við misferli í prófum og auk missis próftökuréttar getur viðkomandi stúdent hlotið áminningu og verið vikið úr skóla, tímabundið eða fyrir fullt og allt, sbr. lið 34. Hið sama gildir um misferli þar sem námsmat felst í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi, svo sem ef stúdent leggur fram verkefni, þar sem hann gerir vinnu annars stúdents að sinni eigin eða endurnotar eigin verkefni án þess að gera grein fyrir því.
(Sjá nánar 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 50., 51., 54. og 58. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

31) Aðgangur að eldri prófverkefnum

Almennt geta nemendur fengið aðgang að prófum sem hafa verið þreytt í Háskólanum þegar prófraun er að fullu lokið. Í undantekningartilvikum er heimilt að synja um slíkan aðgang. Kennari ákveður hvernig aðgangur er veittur að eldri prófverkefnum. Kennari getur ákveðið að veita sjálfur aðgang að prófverkefninu eða að það sé lagt inn í prófasafn sem er aðgengilegt á kennsluvef námskeiðsins. Fylgi ákvörðun kennara ekki fyrirmælum um framkvæmd prófs er prófverkefnið lagt inn í prófasafn.
(Sbr. Upplýsingalög nr. 140/2012.)

III. BOÐLEIÐIR STÚDENTA

Stjórn Háskólans er falin háskólaráði og rektor. Stjórnsýsla Háskólans starfar í umboði rektors og háskólaráðs. Fræðasvið eru meginskipulagseiningar Háskóla Íslands og skiptast í deildir, sem eru faglegar grunneiningar Háskólans. Stjórn deildar er í höndum deildarfunda, deildarráðs, ef við á, og deildarforseta. Deildum má skipa í námsbrautir. Stúdentar eiga margvíslega aðild að ákvörðunum sem þessir aðilar taka. Stúdentar eiga fulltrúa í kennslunefndum deilda og námsnefndum deilda, starfsnefndum háskólaráðs, á fundum námsbrauta, deildarfundum, deildarráðsfundum, í stjórnum fræðasviða og í háskólaráði. Þá sitja fulltrúar stúdenta háskólaþing, sem er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins.

Hvert fræðasvið starfrækir stjórnsýslu og stoðþjónustu en stjórn fræðasviðs fjallar um sameiginleg málefni fræðasviðsins. Forseti fræðasviðs er yfirmaður sviðsins, stýrir daglegri starfsemi og er akademískur leiðtogi þess og talsmaður innan Háskólans og utan.

Deildarfundur, undir forsæti deildarforseta, er æðsti ákvörðunaraðili í hverri deild. Forseti deildar er faglegur forystumaður deildar og ber í samráði við forseta fræðasviðs ábyrgð á stefnumótun deildar, skipulagi náms og gæðum kennslu og rannsókna.

Sviðsstjóri kennslusviðs hefur yfirumsjón og eftirlit með sameiginlegum málefnum er lúta að kennslu, prófahaldi og skrásetningu stúdenta.

32) Ferli kvartana og kærumála

Telji stúdent brotið á rétti sínum varðandi kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, mat á námsframvindu eða annað sem lýtur að kennslu og prófum skal hann senda skriflegt erindi til deildarforseta. Í erindi skal stúdent greina skilmerkilega frá því hvert álitaefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðning fyrir henni. Varði erindi samskipti nemanda og leiðbeinanda við ritun lokaverkefnis skal deildarforseti leita leiða til að ná sáttum á milli aðila eins fljótt og kostur er. Nýr leiðbeinandi skal ekki skipaður nema sérstaklega standi á.

Deildarforseti skal fjalla um álitaefnið svo fljótt sem unnt er og afgreiða það að jafnaði eigi síðar en innan tveggja mánaða frá því að erindið barst. Ef mál er viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma, skal tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Deildarforseta ber að afgreiða erindi með formlegu svari, hvort sem það lýtur að ákvörðun um réttindi eða skyldur stúdents í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að öðru leyti að kennslu eða prófum stúdentsins. Deildarforseta er ávallt heimilt að óska eftir afstöðu deildarfundar til erindis. Ef það er gert gilda ákvæði þessarar greinar um málsmeðferð og ákvörðun deildarfundar eftir því sem við á.

Uni stúdent ekki endanlegri ákvörðun deildarforseta um rétt hans eða skyldu getur hann skotið máli sínu til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands samkvæmt 7. gr. reglna Háskólans, sem úrskurðar um rétt hans. Ef erindi nemanda til deildarforseta lýtur ekki að málefni sem lokið verður með endanlegri ákvörðun um réttindi hans eða skyldur getur stúdent borið undir nefndina hvort málsmeðferð deildarforseta á skriflegu erindi hans hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni. Deildarforseti eða kærunefndin endurmeta ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara eða prófdómara.

Umsækjandi um inntöku í framhaldsnám getur borið synjun undir kærunefndina. Synjun um inntöku í grunnnám fellur ekki þar undir, sbr. 7. mgr. 47. gr. reglna Háskólans. Máli verður ekki skotið til kærunefndar fyrr en endanleg ákvörðun eða afstaða deildarforseta liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að erindi var fyrst skriflega lagt fyrir deildarforseta.

Ákvarðanir kærunefndar í málefnum nemenda Háskólans eru kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.
(Sjá 50. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

33) Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema er starfrækt samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Stúdentar, sem telja að Háskóli Íslands hafi brotið á rétti þeirra varðandi kennslu, próf, námsmat, mat á námsframvindu, afgreiðslu umsókna um skólavist o.fl., geta skotið kærumáli sínu til áfrýjunarnefndarinnar. Nefndin endurmetur ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Málum verður ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en kærunefnd í málefnum nemenda við Háskóla Íslands hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir hana. Leiðbeina skal um kæruheimild þegar ákvarðanir eru birtar.

Beiðni um úrskurð nefndarinnar skal vera skrifleg og í henni skal skilmerkilega greina hvert kæruefnið er, hver sé krafa stúdents og rökstuðningur fyrir henni. Sjá nánari upplýsingar og póstfang áfrýjunarnefndar á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
(Sjá nánar 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og 2. mgr. 50. gr. reglna HÍ. Sjá enn fremur reglur um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, nr. 1152/2006.)

34) Réttindi og skyldur nemenda og agaviðurlög

Stúdent við Háskóla Íslands skal forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan Háskólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða Háskólann.

Leiki grunur á að stúdent hafi gerst sekur um hegðun sem lýst er í 1. mgr. eða ef stúdent hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum Háskólans, skal vekja athygli deildarforseta á málinu. Ef um er að ræða brot sem til þess er fallið að hafa áhrif á einkunn getur aðeins viðkomandi kennari tekið ákvörðun um slíkt. Deildarforseti skal þó stýra meðferð málsins og undirbúningi, í samráði við kennara. Berist deildarforseta ábending skv. 1. mgr. skal þegar tilkynna nemanda um málið og gefa honum hæfilegan frest til að tjá sig um atvik þess, eftir atvikum með skriflegum hætti, enda sé það ekki augljóslega óþarft. Að teknu tilliti til svara nemanda skal taka ákvörðun um hvort um brot nemanda sé að ræða og um áhrif þess á einkunn, ef um það er að ræða. Skal nemanda kynnt niðurstaða deildar skriflega. Deildarforseti sendir þá jafnframt málið eins fljótt og kostur er til forseta fræðasviðs til ákvörðunar um agaviðurlög, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Ekki þarf þá að gefa nemanda frekara tækifæri til að tjá sig á vettvangi deildar. Í tilkynningu til sviðsforseta skal koma fram lýsing á ætluðu broti.

Gerist nemandi sekur um háttsemi skv. 1. mgr. eða sem er andstæð lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 eða reglum settum samkvæmt þeim skal forseti þess fræðasviðs þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots getur forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta fræðasviðs til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum nr. 63/2006 um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta.

Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað nemanda, sem vikið hefur verið að fullu úr skóla, að skrá sig aftur til náms í Háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Nemanda er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.
(Sjá 19. gr. laga um opinbera háskóla og 51. gr. reglna HÍ nr. 569/2009.)

„Kver um starfsvenjur við kennslu, nám og próf í Háskóla Íslands“
upphaflega útgefið í janúar 1996 í samstarfi
kennslumálanefndar háskólaráðs, kennslusviðs Háskólans
og Stúdentaráðs Háskóla Íslands

Verklagsreglur þessar voru uppfærðar 2002 og aftur árið 2006,
m.t.t. breyttra laga, reglna, skipulags og þróunar kennsluhátta 

Endurskoðuð útgáfa, aðlöguð að nýjum lögum (2008) og reglum (2009),
var samþykkt í háskólaráði 10. apríl 2014

Endurskoðuð útgáfa samþykkt í háskólaráði 12. janúar 2023