Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun | Háskóli Íslands Skip to main content

Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun

Samþykkt á háskólafundi 18. febrúar 2005

Inngangur

Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun er samþykkt á háskólafundi í nafni háskólasamfélagsins. Hún er ein af þremur meginstoðunum í jafnréttisstarfi Háskólans. Hinar tvær eru áætlun um jafnrétti kynjanna og stefna í málefnum fatlaðra. Þar er nánar kveðið á um hvernig stuðla beri að auknu jafnrétti kynjanna og hvernig skapa megi fötluðum skilyrði til að taka virkan þátt í háskólasamfélaginu (sjá nánar á heimasíðu jafnréttisnefndar).

Stefnan er reist á jafnræðisreglu samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ásamt margvíslegum öðrum lagaákvæðum sem leggja bann við mismunun. Stefna þessi á einnig rætur í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og mannréttindayfirlýsingum.

Háskóli Íslands skilgreinir jafnréttisstarf sem lið í umbótum innan skólans. Jafnrétti á vinnustað er grundvallarréttur allra starfsmanna og stúdenta. Háskólinn er einn fjölmennasti vinnustaður landsins og honum er það kappsmál að tryggja vellíðan starfsfólks og stúdenta og skapa vinnuumhverfi sem gerir öllum kleift að njóta sín á jafnréttisgrundvelli. Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun nær til hvers kyns mismununar á grundvelli kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, heilsufars, þjóðernis, litarháttar, uppruna, trúarbragða, skoðana, menningar eða stöðu að öðru leyti, sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingi eða hópi sem fyrir henni verður. Stefnan nær til allra starfsmanna Háskólans, stúdenta og gesta, einnig sérfræðinga og annarra sem starfa að verkefnum sem fjármögnuð eru af aðilum utan Háskólans.

Mismunun, bein eða óbein, er ekki liðin við Háskóla Íslands, hvorki meðal stúdenta né starfsfólks. Sérhver starfsmaður og stúdent ber ábyrgð á því að vinna gegn því að mismunun eigi sér stað. Það er jafnframt sameiginleg ábyrgð allra starfsmanna og stúdenta að gæta þess að skapa ekki með orðum sínum eða gerðum fjandsamlegt andrúmsloft gegn ákveðnum einstaklingi eða hópi.

Stefna gegn mismunun

Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar er svohljóðandi: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna."
Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun er sett fram með hliðsjón af jafnræðisreglunni og felur í sér þann ásetning Háskólans að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli persónulegra eiginleika. Í stefnunni er sérstaklega kveðið á um eftirfarandi:

  • aldur,
  • fötlun,
  • heilsufar,
  • kyn,
  • kynhneigð,
  • trúarbrögð og stjórnmálaskoðanir,
  • þjóðerni, uppruna, litarhátt og menningu.

Almennt gildir að sérhver stúdent og starfsmaður ber ábyrgð á að koma í veg fyrir mismunun og skapa þannig umburðarlynt háskólasamfélag sem fagnar fjölbreytileikanum sem þar er að finna. Mismunun er ekki liðin við Háskóla Íslands og óheimilt er að mismuna fólki, til dæmis hvað varðar verkaskiptingu, vinnutilhögun, vinnuaðstæður, skipun í starfshópa eða nefndir, einkunnagjöf, leiðsögn eða að öðru leyti.

Stefnu þessari má í engum tilvikum beita gegn akademísku frelsi eða málfrelsi í Háskólanum.

1. Aldur
1.1 Óheimilt er að mismuna starfsfólki eða stúdentum vegna aldurs. Mismunun vegna aldurs á sér helst stað gagnvart þeim yngstu og þeim elstu.
1.2 Framlag hvers og eins skal metið að verðleikum án tillits til aldurs viðkomandi.
1.3 Mikilvægt er að starfsfólk og stúdentar leggi sig fram um að skapa andrúmsloft sem er laust við fordóma og klisjur í garð fólks vegna aldurs.
1.4 Þess ber að gæta að öllum starfsmönnum standi til boða starfsþjálfun, endur- og símenntun á vegum Háskólans án tillits til aldurs.

2. Fötlun
2.1 Óheimilt er að mismuna starfsfólki eða stúdentum vegna fötlunar. Stefna Háskólans í málefnum fatlaðra kveður á um að markmið skólans sé „að skapa fötluðum stúdentum og starfsfólki skilyrði sem gera þeim kleift að taka virkan þátt í háskólastarfinu".

2.2 Virða ber rétt hvers og eins til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um fötlun sína.
2.3 Starfsfólk og stúdentar skulu leggja sig fram um að skapa fordómalaust andrúmsloft í garð fatlaðra einstaklinga.
2.4 Við ráðningu fatlaðs starfsmanns ber að sjá til þess að hann fái viðeigandi starfsaðstöðu. Ef þörf krefur veitir starfsmannasvið akademískrar stjórnsýslu ráðgjöf og aðstoð.
2.5 Háskólanum ber samkvæmt lögum að tryggja að byggingar séu aðgengilegar fyrir hreyfihamlaða og sérstaklega þarf að hafa í huga að skyldunámskeið séu aðgengileg öllum. Tryggja ber að aðgengilegar séu upplýsingar um tiltæka þjónustu fyrir fatlaða.

3. Heilsufar
3.1 Óheimilt er að mismuna starfsfólki og stúdentum vegna heilsufars. Allir eiga rétt á sanngjarnri og réttlátri meðferð óháð heilsufari.
3.2 Virða ber rétt fólks til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um heilsufar sitt. Hvorki samstarfsmenn né kennarar geta krafist upplýsinga um ástæður fyrir fjarveru vegna veikinda. Fólki er skylt að leggja fram læknisvottorð sé þess krafist samkvæmt reglum og ákvæðum kjarasamninga. Þar þarf ekki að koma fram ástæða veikinda en leita má álits trúnaðarlæknis Háskólans.
3.3 Ef gera þarf breytingar á vinnuskyldum starfsmanns eða námstilhögun stúdents vegna heilsufarsástæðna skulu slíkar breytingar gerðar í fullu samráði við hann.
3.4 Heilsufar eða heilsufarssaga má ekki, án málefnalegra ástæðna, hafa áhrif á ráðningu starfsmanns. Ef vísað er til málefnalegra ástæðna verður að vera óvéfengjanlegt að þær tengist eðli starfsins.
3.5 Veikindi ein og sér eru ekki nægileg ástæða til að segja fólki upp starfi nema þau hafi langvarandi og veruleg áhrif í þá veru að þau hindri að viðkomandi geti sinnt starfi sínu. Veita má starfsmanni lausn frá störfum vegna veikinda, enda er þá farið að ákvæðum kjarasamninga þar um.

4. Kyn
4.1 Óheimilt er að mismuna starfsfólki og stúdentum vegna kynferðis. Í því felst m.a. að ekki má mismuna vegna hjúskapar- og fjölskyldustöðu, þungunar eða hugsanlegrar þungunar.
4.2 Stuðla ber að því að andrúmsloft, viðhorf til náms og fyrirkomulag kennslu sé jákvætt í garð beggja kynja. Starfsfólk og stúdentar skulu leggja sig fram um að skapa fordómalaust andrúmsloft.
4.3 Mikilvægt er að tryggja kynjum jafna aðstöðu til náms og stuðla að jafnri þátttöku þeirra í störfum og stjórn Háskólans.
4.4 Stuðla ber að því að jafna náms- og starfsval kynjanna innan Háskólans.
4.5 Háskólinn starfar samkvæmt áætlun sem hann hefur sett sér um jafnrétti kynjanna. Þar er nánar kveðið á um hvernig stuðla beri að auknu jafnrétti kynjanna, svo sem með samþættingu og tímabundnum sértækum aðgerðum.

5. Kynhneigð
5.1 Óheimilt er að mismuna starfsfólki og stúdentum vegna kynhneigðar. Allir eiga rétt á sanngjarnri og réttlátri framkomu og meðferð óháð kynhneigð.
5.2 Virða ber rétt fólks til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um kynhneigð sína.
5.3 Starfsfólk og stúdentar skulu leggja sig fram um að skapa andrúmsloft sem er laust við fordóma og kennarar skulu leitast við að nota námsefni þar sem margbreytileiki mannlífsins kemur fram.
5.4 Mismunun vegna kynhneigðar felst gjarnan í særandi ummælum og háðsglósum sem líkja má við fordóma vegna litarháttar. Slík framkoma er ekki liðin innan háskólasamfélagsins.
5.5 Starfsfólk og stúdentar skulu ekki ganga út frá því sem vísu að allir séu gagnkynhneigðir, hvorki í kennslu né í óformlegri samskiptum.

6. Trúarbrögð og stjórnmálaskoðanir
6.1 Óheimilt er að mismuna vegna trúar- eða stjórnmálaskoðana. Allir eiga rétt á sanngjarnri framkomu og umfjöllun óháð trúar- eða stjórnmálaskoðunum.
6.2 Virða ber rétt hvers og eins til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um trú sína eða stjórnmálaskoðanir.
6.3 Sérhver stúdent og starfsmaður Háskólans hefur rétt til að ástunda trú sína og tjá stjórnmálaskoðanir sínar. Enginn þarf að taka þátt í trúarathöfnum sem stríða gegn sannfæringu viðkomandi.
6.4 Háskólasamfélagið skal sýna skoðunum annarra virðingu og umburðarlyndi. Mismunandi stjórnmálaskoðanir eða afstaða til trúarbragða mega ekki hafa áhrif á hvernig komið er fram við starfsmenn eða stúdenta.
6.5 Ástundun trúarbragða eða fylgni við persónulega sannfæringu má þó ekki hindra að viðkomandi einstaklingur geti stundað starf sitt eða nám, eða koma í veg fyrir venjubundna starfsemi á viðkomandi vinnustað.

7. Þjóðerni, uppruni, litarháttur og menning
7.1 Óheimilt er að mismuna starfsfólki Háskóla Íslands eða stúdentum vegna uppruna þeirra, litarháttar, þjóðernis, menningarlegs bakgrunns eða vegna flokkunar sem byggð er á kynþáttahyggju.
7.2 Virða ber rétt hvers og eins til að tjá sig, eða tjá sig ekki, um uppruna sinn eða menningarlegan bakgrunn.
7.3 Starfsfólki og stúdentum ber að leggja sig fram um að skapa andrúmsloft sem er laust við fordóma í garð einstaklinga vegna uppruna, litarháttar, þjóðernis eða menningarlegs bakgrunns.
7.4 Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins sinnir erlendum skiptistúdentum sem stunda nám við skólann. Í hverri deild skal starfa alþjóðafulltrúi sem hefur umsjón með móttöku og skráningu erlendra starfsmanna og fylgir því eftir að þeim sé sinnt eins og þurfa þykir.

8. Farvegur mála vegna meintrar mismununar í Háskóla Íslands

8.1 Deildarforseti, skorarformaður, skrifstofustjóri, framkvæmdastjóri eða forstöðumaður viðkomandi starfseiningar ber ábyrgð á að leysa vandamál sem upp kunna að koma vegna meintrar mismununar. Ef ágreiningur verður ekki leystur á þeim vettvangi ber að leiðbeina þolanda um kæruleiðir.
8.2 Starfsmaður sem telur sér mismunað getur haft samband við næsta yfirmann eða deildarforseta sem ber að leita sátta eða annarrar úrlausnar. Einnig má leita til starfsmannasviðs og jafnréttisfulltrúa Háskólans.
8.3 Þeim sem fjalla um slík mál ber að gæta trúnaðar og beina upplýsingum eingöngu til þeirra sem þurfa nauðsynlega á þeim að halda.
8.4 Stúdent sem telur sér mismunað innan Háskólans getur haft samband við jafnréttisfulltrúa Háskólans, jafnréttisfulltrúa stúdenta og/eða námsráðgjafa. Þeim ber að snúa sér til deildarforseta viðkomandi deildar eða fulltrúa hans sem mun leita sátta eða annarrar úrlausnar. Viðkomandi yfirmaður getur í því skyni hvatt til sérfræðinga sem báðir aðilar samþykkja. Ef aðstoð sérfræðings nægir ekki til þess að ljúka málinu er þolanda leiðbeint um kæruleiðir.
8.5 Þolandi sem ákveður að kæra formlega skal beina þeirri kæru til Siðanefndar Háskóla Íslands.
8.6 Ef þolandi leitar til siðanefndar veitir jafnréttisnefnd umsögn áður en ákvarðað er í málinu.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.