Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. janúar 2021

1/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2021, fimmtudaginn 7. janúar var haldinn rafrænn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir, Einar Sveinbjörnsson og Vigdís Jakobsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlög fyrir árið 2021.
Jenný Bára og rektor gerðu grein fyrir helstu atriðum í fjárlögum ársins 2021 er lúta að háskólum og samkeppnissjóðum almennt og Háskóla Íslands sérstaklega. Málið var rætt og svöruðu Jenný Bára og rektor spurningum ráðsmanna.

b.    Tillaga að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Rektor og Guðmundur fóru yfir tillögu fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum ráðsmanna.
– Tillaga fjármálanefndar um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands ásamt ráðstöfun fjár úr Aldarafmælissjóði á árinu 2021 sem og óráðstafaðs fjár frá árinu 2020 samþykkt einróma.

c.    Staða rekstraráætlana fyrir árið 2021, sbr. síðasta fund.
Jenný Bára gerði grein fyrir stöðu rekstraráætlana einstakra starfseininga innan Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum fulltrúa í háskólaráði.

d.    Greiðslufyrirkomulag fyrir kennslu, áætlun um samræmingu.
Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir framlögðu minnisblaði um útreikning á fjölda stunda fyrir námskeið við Háskóla Íslands, sbr. umræður á síðasta fundi. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt að rektor skipi fimm manna starfshóp sem hafi það verkefni að greina fyrirkomulag greiðslna fyrir námskeið innan Háskóla Íslands og móta tillögur um samræmingu útreiknings fjölda stunda á bak við námskeið. Í starfshópnum verði einn fulltrúi frá Félagi háskólakennara, einn frá Félagi prófessora við ríkisháskóla og þrír fulltrúar sem rektor ákveður og verði einn þeirra formaður hópsins.

Jenný Bára vék af fundi.

e.    Minnisblað um framkvæmdaáætlun og fjármögnun nýbygginga 2021-2029, ásamt tillögu um ráðstöfun framkvæmdafjár fyrir árið 2021.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og fór ásamt Guðmundi yfir framlagt minnisblað um fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir og nýbyggingar á árinu 2021 og áætlun til ársins 2029.
– Tillaga um ráðstöfun framkvæmdafjár og fjármögnun nýbygginga á árinu 2021 samþykkt einróma.

Guðmundur og Kristinn viku af fundi.

3.    Alþjóðasamskiptamál, sbr. starfsáætlun háskólaráðs [Kynning og umræða. Kl. 14.00-14.40]
Inn á fundinn komu Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs.

a.    Áherslur Háskóla Íslands á sviði alþjóðasamskipta.
    Friðrika og Halldór gerðu grein fyrir áherslum Háskóla Íslands á sviði alþjóðasamskipta, sbr. HÍ21 og starfsáætlun háskólaráðs. Málið var rætt.

b.    Aurora-samstarfið.
    Friðrika, Halldór og rektor greindu frá stöðu mála og næstu skrefum í Aurora-samstarfsnetinu og Aurora-bandalaginu. Málið var rætt.

    Friðrika og Halldór viku af fundi.

4.   Jafnréttisnefnd og drög að nýrri jafnréttisáætlun Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Brynja Halldórsdóttir, formaður jafnréttisnefndar, ásamt Arnari Gíslasyni og Sveini Guðmundssyni, jafnréttisfulltrúum. Brynja gerði grein fyrir starfi jafnréttisnefndar og drögum að nýrri jafnréttisáætlun fyrir tímabilið 2021-2023. Málið var rætt og brugðust þau Brynja, Arnar og Sveinn við spurningum og athugasemdum.
– Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2021-2023 samþykkt einróma með fyrirvara um fjármögnun einstakra verkefna.

Brynja, Arnar og Sveinn viku af fundi.

5.    Kynning á starfsemi Félagsvísindasviðs. Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Stefán Hrafn Jónsson, forseti Félagsvísindasviðs, og gerði grein fyrir skipulagi, starfsemi, rekstri, áherslumálum og framtíðarsýn fræðasviðsins. Málið var rætt og svaraði Stefán Hrafn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

6.    Bókfærð mál.
a.    Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.

– Samþykkt. Stjórnina skipa Eyvindur G. Gunnarsson prófessor við Lagadeild, formaður, Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, viðskiptafræðingur. Skipunartíminn er til eins árs.

b.    Fulltrúi í stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands til 31. desember 2022.
– Samþykkt. Ólöf Vigdís Ragnarsdóttir, lögfræðingur á Vísinda- og nýsköpunarsviði, tekur við af Ásu Ólafsdóttur, prófessor, sem horfið hefur til annarra starfa.

c.    Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár Háskóla Íslands 2021-2022.
– Samþykkt.

d.    Frá stýrihópi um jafnlaunavottun: Tillaga að breytingu á stjórnkerfi launa.
– Samþykkt.

e.    Frá rektor: Breyting á erindisbréfi samráðsnefndar um kjaramál.
– Samþykkt.

f.    Verksamningur Útlendingastofnunar og Háskóla Íslands um tannlæknaþjónustu barna sem sækja um alþjóðlega vernd.
– Samþykkt.

g.    Niðurfærsla hlutafjár í Keili og breytt skipulagsskrá, sbr. hluthafafund 16. desember sl.
– Samþykkt.

h.    Tillögur að nýjum námsleiðum á meistarastigi [tillögur að viðeigandi breytingum á reglum fylgja í sérstöku skjali og sömuleiðis greinargerðir fyrir tillögunum]:
Félagsvísindasvið:
Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. Tillaga um stofnun nýrrar námsleiðar á meistarastigi: Fólksflutningar og fjölmenning, viðbótardiplóma, 30 einingar.

– Samþykkt.

Félagsráðgjafardeild. Tillaga um stofnun nýrrar námsleiðar á meistarastigi: Hamfarafélagsráðgjöf, viðbótardiplóma, 30 einingar.
– Samþykkt.

Stjórnmálafræðideild. Tillaga um stofnun tveggja nýrra námsleiða á meistarastigi: Norðurslóðafræði, MA, 120 einingar og Norðurslóðafræði, viðbótardiplóma, 30 einingar.
– Samþykkt.

Menntavísindasvið:
Deild menntunar og margbreytileika. Tillögur um stofnun fjögurra nýrra námsleiða á meistarastigi:

(1.) Þroskaþjálfafræði til starfsréttinda, viðbótardiplóma, 60 einingar.
– Samþykkt.

(2.) Sérkennslufræði og skóli margbreytileikans, MT, 120 einingar.
– Samþykkt.

(3.) Sérkennslufræði og skóli margbreytileikans, viðbótardiplóma, 60 einingar.
– Samþykkt.

(4.) Foreldrafræðsla og uppeldisráðgjöf, viðbótardiplóma, 60 einingar.
– Samþykkt.

Þverfræðilegt framhaldsnám:
Hugvísindasvið, í samvinnu við námsstjórn um menntun framhaldsskólakennara, leggur fram tillögur að fjórum nýjum námsleiðum til MT-prófs:

Mála- og menningardeild: Tungumálakennsla, MT, 120 einingar.
– Samþykkt.

Íslensku- og menningardeild: Íslenskukennsla, MT, 120 einingar.
– Samþykkt.

Sagnfræði- og heimspekideild: Heimspekikennsla, MT, 120 einingar og sögukennsla, MT, 120 einingar.
– Samþykkt.

Námsstjórn um menntun framhaldsskólakennara, í samráði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði, leggur til að stofnuð verði ný námsleið til MT-prófs, kennsla félagsfræði, mannfræði og þjóðfræði, MT, 120 einingar.
– Samþykkt.

i.    Frá Félagsvísindasviði: Meistaranám í vestnorrænum fræðum í Stjórnmálafræðideild verði lagt niður.
– Samþykkt.

j.    Lóðarleigusamningur Háskóla Íslands v. Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Reykjavíkurborgar um lóðina nr. 15(-19) við Sæmundargötu í Reykjavík, dags. 5. nóvember 2020.
– Samþykkt.

k.    Lóðarleigusamningur Háskóla Íslands og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um lóðina nr. 15(-19) við Sæmundargötu í Reykjavík, dags. 26. nóvember 2020.
– Samþykkt.

l.     Frá Heilbrigðisvísindasviði f.h. Tannlæknadeildar: Lagt er til að heimilt verði að taka inn 6 nemendur í stað 5 í tannsmíðanám á vormisseri fyrsta námsárs 2020-2021 á grundvelli niðurstöðu samkeppnisprófa í desember sl.
– Samþykkt.

7.    Mál til fróðleiks.
a.    Umsögn Háskóla Íslands um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla í samráðsgátt (varðar inntökuskilyrði í háskóla), dags. 27. nóvember sl.
b.    Umsögn Háskóla Íslands um þingsályktunartillögu mennta- og menningarmálaráðherra um menntastefnu til 2030, dags. 3. desember sl.
c.    Svar rektors f.h. háskólaráðs við bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 30. október sl., varðandi erindi umboðsmanns Alþingis til ráðuneytis, dags. 12. október sl., þar sem óskað er eftir svari/upplýsingum ráðuneytis um lagalega stöðu háskólaráðs Háskóla Íslands, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.
d.    Umsóknir um nám á vormisseri 2021 rúmlega 60% fleiri en á síðasta ári.
e.    Nýr forseti Hugvísindasviðs.
f.    Sóknarfæri á sviði heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
g.    Vísindafólk Háskóla Íslands fékk veglega styrki úr Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana.
h.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 22. desember 2020.
i.    Stækkun hátækniseturs Alvotech í Vísindagörðum Háskóla Íslands.
j.    Þrír starfsmenn Háskóla Íslands hlutu fálkaorðuna á nýársdag.
k.    Fjárveitingabréf mennta- og menningarmálaráðherra vegna starfsþróunarverkefnis á Menntavísindasviði, dags. 21. desember 2020.

Næsti fundur háskólaráðs er áætlaður fimmtudaginn 4. febrúar 2021 kl. 13.