Skip to main content
30. desember 2020

Skóflustungur teknar að stækkun hátækniseturs Alvotech í Vísindagörðum HÍ

Skóflustungur teknar að stækkun hátækniseturs Alvotech í Vísindagörðum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fyrstu skóflustungur voru teknar í dag að viðbyggingu við hátæknisetur líftæknifyrirtækisins Alvotech í Vatnsmýri í Reykjavík. Róbert Wessman, stjórnarformaður fyrirtækisins, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, gerðu það ásamt lykilstarfsmönnum sem komið hafa að verkefninu. 

Viðbyggingin, sem verður 12.500 m2, er nánast tvöföldun á núverandi aðstöðu Alvotech í landi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýri og eru verklok áætluð í lok árs 2022.

Alvotech er með átta líftæknilyf í þróun, sem munu fara á markað á næstu árum og skapa verulegar útflutnings- og gjaldeyristekjur hér á landi. Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi fyrirtækisins á Íslandi muni fara úr 410 í um það bil 580 þegar hátæknisetrið verður tilbúið, að megninu til sérfræðingar með háskólamenntun. 

Stækkun setursins er framhald á þeirri vegferð sem hófst árið 2013 með stofnun Alvotech, en skömmu síðar hófst bygging hátækniseturs fyrirtækisins í landi Vísindagarða í Vatnsmýri. Fyrirtækið hóf svo starfsemi þar um mitt ár 2016. 

Viðbyggingin sem bætist nú við mun hýsa lyfjaþróun, áfyllingu lyfja, skrifstofur og vöruhús auk þess sem Alvotech mun veita Háskólanun þar aðstöðu sem skapar færi á frekara samstarfi við skólann. Aðstaðan mun efla enn frekar meistaranám í iðnaðarlíftækni, sem Háskólinn og Alvotech hafa haft samstarf um frá árinu 2019, og gefa fleiri nemum kost á starfsnámi hjá fyrirtækinu á meðan á námi stendur. 

Sem hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands er fyrirtækið þátttakandi í öflugu samstarfi háskólans og alþjóðlegra þekkingar- og hátæknifyrirtækja sem miðar að því að efla vísindastarf, þekkingarmiðlun og nýsköpun og þannig laða hæfileikaríka innlenda og erlenda sérfræðinga til starfa.

Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech, sagði í tilefni skóflustungunnar: „Það er einstaklega ánægjulegt að ljúka þessu erfiða ári sem einkenndist af baráttunni við Covid-19 veiruna, með svona jákvæðu skrefi til framtíðaruppbyggingar fyrirtækisins. Það var hvorki sjálfgefið né auðvelt, í miðjum gjaldeyrishöftum árið 2013, að taka ákvörðun um að byggja fyrirtækið Alvotech upp á Íslandi. Eftir ítarlega skoðun á mörgum kostum var það að lokum ákvörðun stjórnenda að staðsetja fyrirtækið hér á landi. Það er því einstaklega ánægjulegt, nú sjö árum seinna að tvöfalda aðstöðuna á Íslandi og gera fyrirtækið þannig í stakk búið til alþjóðlegrar markaðssetningar á fyrstu líftæknilyfjunum. Væntingar okkar eru að Alvotech verði ein af stoðum Íslands til öflunar gjaldeyristekna. Ég vil þakka stjórnendum Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Vísindagarða fyrir samstarfið.“ 

Fjárfesting í stækkuninni er áætluð ríflega 10 milljarðar króna, en heildarfjárfesting Alvotech í húsnæði, tækjum og þróun á Íslandi, frá stofnun til ársloka 2020, nemur ríflega 100 milljörðum króna. 
 

Þeir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tóku skóflustungu að nýrri viðbyggingu við hátæknisetur Alcotech í Vatnsmýri ásamt lykilstarfsmönnum í verkefninu. MYND/Kristinn Ingvarsson