Skip to main content
9. desember 2020

Ólöf Garðarsdóttir prófessor ráðin forseti Hugvísindasviðs

""

Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur verið ráðin forseti Hugvísindasviðs skólans. Hún var í hópi fimm umsækjenda um starfið og er fyrsta konan til að gegna því.

Ólöf lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1987, BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og doktorsprófi í sömu grein frá Háskólanum í Umeå í Svíþjóð 2002. Rannsóknir hennar eru á sviði lýðfræði og félagssögu. Hún hefur skrifað greinar og bækur um fólksflutninga, frjósemi, sögu heilbrigðis og lýðheilsu með áherslu á heilsufar barna en einnig um sögu barnæsku og fræðslumála. 

Ólöf starfaði sem deildarstjóri mannfjöldadeildar Hagstofu Íslands 2002-2008, var dósent í félagssögu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 2008-2010 og prófessor frá 2010. Hún hefur ritað fjölda greina og skýrslna á innlendum og erlendum vettvangi, flutt erindi á vísindaráðstefnum, tekið þátt í fjölmörgum rannsóknaverkefnum og alþjóðlegum rannsóknanetum og skipulagt alþjóðlegar vísindaráðstefnur. Ólöf hefur sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan og utan Háskóla Íslands, m.a. setið í matsnefnd vísindasviðs frá 2014, verið fulltrúi rektors í valnefndum á Hug-, Félags- og Menntavísindasviði frá 2016 og formaður fagráðs Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands á Menntavísindasviði frá 2017. Þá sat hún í stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms 2014-2017, í starfshópi um skipulag nýrrar Deildar faggreinakennslu við Menntavísindasvið 2017 og var formaður doktorsnámsnefndar Menntavísindasviðs 2011-2017. Einnig hefur Ólöf átt sæti í ráðgjafarnefnd um mannfjöldaspár við Hagstofu Íslands frá 2010, verið í stjórn Félags áhugafólks um sögu læknisfræðinnar frá 2005 og setið í nefnd um dánarmein á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, EUROSTAT.  

Ólöf Garðarsdóttir, nýr forseti Hugvísindasvisð, lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1987, BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og doktorsprófi í sömu grein frá Háskólanum í Umeå í Svíþjóð 2002. Rannsóknir hennar eru á sviði lýðfræði og félagssögu. Hún hefur skrifað greinar og bækur um fólksflutninga, frjósemi, sögu heilbrigðis og lýðheilsu með áherslu á heilsufar barna en einnig um sögu barnæsku og fræðslumála. 

„Ég hlakka til að takast á við ný og krefjandi verkefni í starfi forseta Hugvísindasviðs. Hugvísindasvið er öflugur og spennandi starfsvettvangur en þar starfar fjöldi öflugra vísindamanna á sviði hugvísinda og hópur reynslumikils stjórnsýslufólks. Breiddin í rannsóknum og kennslu er eitt af aðalsmerkjum Hugvísindasviðs og er sviðið leiðandi í fjölþættum rannsóknum og kennslu á sviði íslenskrar tungu, menningar, bókmennta, tungumála, trúarbragða, fornleifafræði, sagnfræði og heimspeki. Ég vil þakka rektor Háskóla Íslands fyrir það traust sem hann sýnir mér með því að bjóða mér starf forseta Hugvísindasviðs,“ segir Ólöf.

„Ég býð Ólöfu Garðarsdóttur prófessor innilega velkomna til starfa sem forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands frá 1. janúar nk.,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Forseti Hugvísindasviðs hefur það hlutverk að stýra sviðinu í umboði rektors, er leiðtogi þess varðandi kennslu og rannsóknir, stuðlar að öflugri og samhentri liðsheild og er talsmaður hugvísindanna út á við. „Ólöf Garðarsdóttir hefur metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir Hugvísindasvið, mikla reynslu af vísindastörfum og víðtæka þekkingu af háskólastarfi. Ég óska Ólöfu velfarnaðar við að stýra þessu mikilvæga fræðasviði.“

Ólöf tekur við starfi forseta Hugvísindasviðs af Guðmundi Hálfdánarsyni.

Ólöf Garðarsdóttir